Þeir virkjanakostir sem eru í rammaáætlun munu ekki duga til að mæta orku- og aflþörf til framtíðar, en í virkjanaflokki áætlunarinnar eru 1.299 megavött tilgreind og í biðflokki 967 til viðbótar. Samtals gera þetta 2.266 megavött, en skv

Þeir virkjanakostir sem eru í rammaáætlun munu ekki duga til að mæta orku- og aflþörf til framtíðar, en í virkjanaflokki áætlunarinnar eru 1.299 megavött tilgreind og í biðflokki 967 til viðbótar. Samtals gera þetta 2.266 megavött, en skv. raforkuspá Landsnets mun aflþörfin til ársins 2050 aukast í 3.300 megvött. Þeir virkjanakostir sem eru í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar munu því í mesta lagi skila tveimur þriðju hlutum þess afls sem þarf til að mæta eftirspurn framtíðarinnar.

Í raforkuspánni er gert ráð fyrir um 135% aukningu eftirspurnar frá því sem nú er til ársins 2050 og því liggi ljóst fyrir að aukin orkuvinnsla verði nauðsynleg til að mæta eftirspurn. Án vindorku og annarra breytilegra orkugjafa muni markmið stjórnvalda um orkuskipti og skuldbindingar í loftslagsmálum ekki nást.

Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Landsnets þar sem fjallað er um mögulegan ábata af virkum raforkumarkaði.

Þar segir enn fremur að lokun eins eða fleiri stórnotenda raforku muni ekki duga til að mæta orkuþörf til framtíðar, en virkari þátttaka stórnotenda á raforkumarkaði gæti aftur á móti dregið úr virkjanaþörf. Virk þátttaka þeirra á markaði gæti aukið aflöryggi á hagkvæmari hátt en fjárfesting í afli til að mæta aflþörf.

Í skýrslunni kemur fram að núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta sé úr sér gengið, valdi fákeppni og sé hindrun í vegi orkuskipta og skilvirks raforkukerfis, en sú sé niðurstaða starfshóps Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Landsnets um orkuöryggi á heildsölumarkaði. Einungis tíundi hluti raforku fer á virkan heildsölumarkað og viðskipti milli raforkusala, annarra en Landsvirkjunar, séu nánast engin.

Núverandi fyrirkomulag skapi aðgangshindranir fyrir nýja aðila og standi í vegi nýsköpunar. Virkari raforkumarkaður skapi aftur á móti tækifæri fyrir nýja aðila til þess að koma inn á markaðinn sem og fyrir þá sem fyrir eru til að virkja nýja tekjustrauma með því að veita nýjar tegundir þjónustu. Hann muni og leiða til nýrra og hagkvæmari lausna.