Átök Stjörnukonan Helena Rut Örvarsdóttir í baráttunni við Hafnfirðinginn Ingu Dís Jóhannsdóttur í leik Stjörnunnar og Hauka í gær.
Átök Stjörnukonan Helena Rut Örvarsdóttir í baráttunni við Hafnfirðinginn Ingu Dís Jóhannsdóttur í leik Stjörnunnar og Hauka í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Haukar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik í gær með sigri gegn Stjörnunni í öðrum leik liðanna í 1. umferð umspilsins í Garðabæ og með sigri í einvíginu, 2:0. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Hauka, 25:21, en…

HANDBOLTINN

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Haukar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik í gær með sigri gegn Stjörnunni í öðrum leik liðanna í 1. umferð umspilsins í Garðabæ og með sigri í einvíginu, 2:0.

Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Hauka, 25:21, en Elín Klara Þorkelsdóttir fór á kostum í liði Hauka og skoraði sjö mörk.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og þau skiptust á að skora. Haukar voru þó með frumkvæðið og leiddu með einu marki í hálfleik, 10:9.

Líkt og í fyrri hálfleik var mikið jafnræði með liðunum í síðari hálfleik og var munurinn lengst af ekki meiri en tvö mörk.

Þegar tæplega 13 mínútur voru til leiksloka kom Elín Klara Haukum þremur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 19:16.

Embla Steindórsdóttir minnkaði muninn fyrir Stjörnuna í tvö mörk, 21:19, þegar sjö mínútur voru til leiksloka en lengra komust Garðbæingar ekki og Haukar fögnuðu sigri.

Inga Dís Jóhannsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Hauka og Sara Katrín Gunnarsdóttir fjögur. Darija Zecevic átti stórleik í marki Stjörnunnar og varði 17 skot, þar af tvö vítaköst, en Helena Rut Örvarsdóttir var langmarkahæst hjá Garðbæingum með 11 mörk.

Haukar mæta því Fram í undanúrslitum Íslandsmótsins og hefjast þau þriðjudaginn 23. apríl. Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu en fyrsti leikur liðanna verður á heimavelli Fram í Úlfarsárdal.

Sigurinn aldrei í hættu

Þóra Björg Stefánsdóttir var markahæst hjá ÍBV þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með nokkuð öruggum sigri gegn ÍR í öðrum leik liðanna í Skógarseli í Breiðholti en ÍBV vann einvígið 2:0.

Leiknum lauk með fjögurra marka sigri ÍBV, 22:18, en Þóra Björg skoraði fimm mörk í leiknum.

Eyjakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins. Karen Tinna Demian skoraði fyrsta mark ÍR eftir fimm mínútna leik en ÍBV skoraði næstu þrjú mörkin og komst í 7:1.

Eyjakonur voru með öruggt forskot allan fyrri hálfleikinn og náðu mest níu marka forskoti, 14:5, og þannig var staðan í hálfleik.

ÍBV byrjaði síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og var 11 marka munur á liðunum þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 20:9. ÍBV komst í 22:13 og þrátt fyrir að Breiðhyltingar hafi skorað síðustu fimm mörk leiksins var sigurinn aldrei í hættu.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV og þá varði Marta Wawrzykowska 9 skot í markinu.

Hanna Karen Ólafsdóttir og Sylvía Sigríður Jónsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor fyrir ÍR og þá varði Hildur Öder Einarsdóttir 15 skot í markinu og var með 37% markvörslu.

ÍBV mætir deildarmeisturum Vals í undanúrslitum og verður fyrsti leikur liðanna á heimavelli Vals á Hlíðarenda en liðin léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.