Nikulás Sveinsson fæddist 11. ágúst 1928. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 8. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Anna Guðmundsdóttir Kjerúlf, f. 26.2. 1894, d. 6.5. 1983, og Sveinn Pálsson, f. 11.10. 1885, d. 28.7. 1970. Var Nikulás yngstur systkinanna. Systur hans voru Þuríður, f. 22.2. 1915, d. 15.9. 2010, Sólborg, f. 19.7. 1919, d. 21.10. 2015, og Guðríður, f. 15.9. 1922, d. 27.1. 2009.

Nikulás kvæntist 26. desember 1953 Stellu Jóhönnu Magnúsdóttur, f. 11.11. 1934, d. 14.1. 2011. Synir þeirra eru: 1) Einar Magnús, f. 30.6. 1952, d. 31.3. 2019, kvæntur Herdísi Jóhannsdóttur, f. 31.1. 1955. Synir þeirra eru Ágúst Nikulás, f. 30.1. 1973, kvæntur Guðlaugu Margréti Steinsdóttur, f. 16.5. 1977. Dóttir Nikulásar og Rakelar Þorsteinsdóttur, f. 29.12. 1977, er Ágústa Margrét, f. 23.5. 1995. Börn hennar og Agnars Sæmundar Barðasonar, f. 10.11. 1989, eru Aþena Maísól, f. 29.5. 2019, og Erik Manúel, f. 23.2. 2022. Börn Agnars eru Amelía Carmen, f. 25.6. 2008, og Christopher Darri, f. 30.1. 2010. Dóttir Nikulásar og Oliviu Einarsson, f. 8.11. 1975, er María Dís, f. 22.6. 2010. Börn Guðlaugar Margrétar eru Hugrún María, f. 27.4.1996, d. 27.4.1996, og Steinn Hrannar, f. 23.3. 2008. Daníel Már, f. 11.2. 1976, kvæntur Sædísi Jónasdóttur, f. 18.11. 1979. Synir þeirra eru Einar Björn, f. 20.3. 2000, Jónas Ingi, f. 14.4. 2008, og Sigurður Helgi, f. 15.4. 2012. Atli Jóhann, f. 15.7. 1986. Börn Atla og Lenu Bjargar Guðbjargardóttur, f. 2.10. 1992, eru Magnús Már, f. 17.6. 2013, og Maríana Rós, f. 8.7. 2019. Dóttir Atla og Guðbjargar Völu Davíðsdóttur, f. 8.5. 1991, er Björney Herdís, f. 17.10. 2015. 2) Haukur, f. 29.11. 1955, d. 9.5. 2011, kvæntur Nönnu Guðrúnu Waage Marinósdóttur, f. 25.2. 1962. Synir Hauks og Karenar Kjartansdóttur, f. 10.5. 1956, eru Kjartan Reynir, f. 7.11. 1978, í sambúð með Ingibjörgu Daðadóttur, f. 12.12. 1976. Sonur þeirra er Sölvi Már, f. 20.10. 2012. Sonur Ingibjargar er Haraldur Daði, f. 14.10. 2001. Páll Arnar, f. 1.12. 1986, kvæntur Láru Björgu Þórisdóttur, f. 28.2. 1988. Börn þeirra eru Páll Haukur, f. 1.7. 2011, Lísa Vilborg, f. 13.6. 2013 og Valur Þórir, f. 10.9. 2019. Sonur Nönnu er Hákon Freyr Waage, f. 25.9. 1981. 3) Sveinn Arnar, f. 25.11. 1963, í sambúð með Lísu Kravtsovu, f. 30.5. 1983.

Nikulás er fæddur í Reykjavík og uppalinn í Vogum á Vatnsleysuströnd. Árið 1946 lærði hann rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík. Lauk Nikulás sveinsprófi árið 1951 og síðan meistaraprófi árið 1953. Nikulás hóf störf á Keflavíkurflugvelli 1951 og sinnti viðhaldi flugbrautaljósa. Flest búskaparárin bjuggu þau hjónin í Reykjavík. Nikulás stundaði félagsmál og var hann í frímúrarareglunni í Reykjavík. Alla tíð ferðuðust þau hjónin mikið. Nikulás settist í helgan stein árið 1999, sjötugur að aldri. Ekki var Stella heilsuhraust síðustu árin og lést hún í janúar 2011. Síðar missti Nikulás syni sína Hauk og Einar úr krabbameini. Síðustu þrjú ár ævinnar deildi Nikulás heimili með Sveini, yngsta syni sínum.

Útför Nikulásar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 16. apríl 2024, klukkan 11.

Nú ertu farinn, elsku pabbi minn. Það er sárt. Samt get ég ekki verið ósáttur því þú áttir langa og gæfuríka ævi. Reyndar komu til ótímabær andlát fólksins okkar. Fyrst féll mamma frá í janúar 2011. Fjórum mánuðum síðar máttirðu sjá bak Hauki bróður eftir skammvinn veikindi. Ekki er heiglum hent að takast á við slík áföll, en það gerðirðu með sóma. Fyrir fimm árum lést svo Einar bróðir. Það að fylgja eiginkonu og tveimur sonum til grafar er nokkuð sem fáir þurfa að takast á við sem betur fer. Þú vissir líka að í fyllingu tímans myndirðu hitta mömmu og bræður mína í blómabrekkunni hinum megin.

„Það sem mér er gert, það er þér gert líka.“ Þetta var sameiginlegt viðkvæði hjá okkur. Eftir að að þú kvaddir okkur, elsku pabbi, þá er þakklæti mér svo ofarlega í huga. Fyrir utan allt þakklætið til þín, þá er það þakklæti til alls fólksins sem sýndi þér vinsemd og kærleika alla tíð. Mér þykir vænt um allt það fólk. Þú áttir sannarlega inni fyrir allri vinsemdinni því þú sýndir fólki almennt alla þá velvild og hjálpsemi sem þér var eiginleg.

Það sem var heimili þitt er líka heimili mitt, en við héldum þetta heimili í sameiningu síðan ég flutti til Íslands í desember 2020. Fann ég að ég vildi vera þér innan handar þau ár sem þú áttir eftir og er ég feginn þeirri ákvörðun. Það var í raun aldrei til staðar sá valkostur af minni hálfu að þú yrðir einn síðustu árin þrátt fyrir að vera fullkomlega sjálfbjarga í öllum þeim daglegu athöfnum sem þurfti að sinna. Ekki skemmdi fyrir þegar Lísa kom inn í líf mitt síðasta haust. Þú tókst henni sannarlega strax sem nýrri viðbót í fjölskylduna, enda hefur hún sýnt sig að vera komin til að vera.

Þessi síðustu ár þín reyndust færri en ég hafði reiknað með því þú varst svo sannarlega ekkert á förum á næstunni. En ógæfan í formi kórónuveiru dundi yfir strax upp úr síðustu áramótum og álagið á aldin líffæri reyndist meira en þau réðu við.

Ég er viss um að nú sértu kominn á betri stað og í góðum félagsskap alls fólksins okkar.

Sveinn Arnar Nikulásson.

Elsku Nikulás.

Ég mun alltaf minnast þess hversu fljótt þú tókst mig inn í fjölskylduna þína. Fyrir þetta verð ég þér ævinlega þakklát og fyrir þá hlýju sem alltaf stafaði frá þér.

Þú hafðir yndi af því að segja sögur úr lífi þínu á kvöldin og mér fannst svo gaman að hlusta á þig.

Ekki leið á löngu þar til mig langaði að fá að kalla þig pabba. Ég held að ég hafi meira að segja verið byrjuð á því áður en ég spurði hvort ég mætti það. Þegar þú samþykktir það var ég í sjöunda himni.

Þú verður alltaf í minningunni sem elsku pabbi minn, sem ég fann svo seint og missti svo fljótt.

Þín tengdadóttir,

Elizaveta (Lísa).

Afi Lalli, þú hefur nú kvatt okkur og ert kominn í blómabrekkuna umvafinn fólkinu okkar sem kvaddi of fljótt.

Á heimili þínu skapaðir þú andrúmsloft þar sem ungir sem aldnir fundu fyrir umhyggju þinni og góðvild. Þegar við heimsóttum þig gættir þú þess að smærri gestirnir hefðu nasl og eitthvað til dundurs. Þú hafðir einlægan áhuga á velgengni okkar og fór drjúgur tími í umræður um gang mála á heimilum okkar, vinnustöðum og hjá ættingjum okkar. Ef tími gafst deildir þú einstökum frásögnum af æskuárunum í Vogunum, starfsævinni á Keflavíkurflugvelli og ferðalögum ykkar ömmu.

Við erum þakklátir fyrir að hafa notið góðs af umhyggju þinni og hjálpsemi. Þín verður sárt saknað.

Hvíldu í friði, elsku afi.

Kjartan, Páll (Palli) og langafabörn.

Nikulás, alltaf kallaður Lalli í okkar fjölskyldu, kveðjum við í dag. Lalli var giftur móðursystur minni Stellu. Ég var heimagangur hjá þeim á Háaleitisbrautinni þar sem við vorum nágrannar. Stella og Lalli sýndu mér umhyggju og væntumþykju alla tíð. Við Sveinn sonur þeirra vorum miklir mátar og góður vinskapur á milli okkar hefur haldist alla tíð. Lalli og Sveinn komu í mörg ár í skötuveislu sem við hjónin héldum og Lalli var alltaf svo innilega þakklátur fyrir boðið. Í svona veislu mæta nú flestir í fötum sem þeir „henda“ á eftir en ekki Lalli. Kom alltaf í jakkafötum, svo mikið fannst honum til koma og kom því rækilega til skila. Lalli var í frímúrareglunni og var frímúrari af lífi og sál. árið 1995 hringdi ég í hann og óskaði eftir að hann yrði meðmælandi minn í regluna. Hans svar var, „hittumst og tölum saman“. Hann tók því alvarlega að mæla með og mælti ekki með hverjum sem var. Hélt ég þar með væri þetta úr sögunni. En hann og Gunnar Jónsson heitinn mæltu með mér eftir að hafa farið vandlega yfir málin. Þetta er eitt af mörgum gæfusporum sem ég hef tekið um ævina og aldrei séð eftir og fyrir það er ég honum þakklátur. Reglan og flug voru málefni sem við gátum rætt um. Hann kunni fullt af merkilegum sögum úr flugi og hafði upplifað margt. Fyrir mig, starfandi í flugi, var það gaman og ég naut fróðleiks. Þó þessar sögur verði ekki skrifaðar hér ber ég þær með mér og segi hverjum sem vill heyra. Lalli spurði alltaf hvernig við hefðum það og bar heilsu Guðnýjar fyrir brjósti og hvatti okkur til jákvæðni í hennar baráttu. Við hjónin þökkum Lalla alla velvild og umhyggju okkur til handa.

Elsku Sveinn, ættingjar og vinir, við vottum ykkur innilega samúð.

Minning um góðan mann lifir.

Jón og Guðný.