Þekkt Kirkjan sem nú heitir Kirkjubær blasir við á Stöðvarfirði.
Þekkt Kirkjan sem nú heitir Kirkjubær blasir við á Stöðvarfirði. — Morgunblaðið/Golli
Gistiheimilið Kirkjubær á Stöðvarfirði er auglýst til sölu um þessar mundir. Væri það ekki sérstakt fréttaefni nema fyrir þær sakir að húsnæðið er gamla kirkjan á Stöðvarfirði en Austurfrétt vakti athygli á málinu í gær

Gistiheimilið Kirkjubær á Stöðvarfirði er auglýst til sölu um þessar mundir. Væri það ekki sérstakt fréttaefni nema fyrir þær sakir að húsnæðið er gamla kirkjan á Stöðvarfirði en Austurfrétt vakti athygli á málinu í gær. Eins og miðillinn bendir á er ekki á hverjum degi sem gömul afhelguð kirkja er til sölu.

Fluttar voru fréttir af því þegar kirkjunni var breytt í gistiheimili sem opnað var árið 2000 en hún hafði verið afhelguð árið 1991. Byggingin sjálf verður hins vegar hundrað ára innan tíðar en kirkjan var byggð árið 1926.

Ýmsir möguleikar

„Kirkjuhúsið er lítið eða aðeins 69 m² en innandyra í dag er gistipláss fyrir allt að tíu manns þrátt fyrir smæðina. Þórdís Pála Reynisdóttir hjá LF fasteignasölu/Lindin fasteignir segir ýmsa möguleika til staðar fyrir áhugasama um eignina. Hún gæti vel nýst sem sumarhús eða jafnvel heilsárshús en húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi á Stöðvarfirði um langa hríð,“ segir meðal annars í umfjöllun Austurfréttar.

„Gamla kirkjan blasti við augunum í húsinu þar sem við bjuggum og var að drabbast niður. Okkur rann þetta til rifja og datt því í hug, þegar hún hafði verið afhelguð árið 1991, að breyta henni í gistiheimili og þegar við föluðumst eftir kaupum á húsinu af sóknarnefnd var það mjög auðsótt mál,“ sagði Ingibjörg Eyþórsdóttir í samtali við Morgunblaðið árið 2013. kris@mbl.is