[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ansi dapurt að vita til þess að þorskur læri á veiðarfæri en fiskifræðingar með margra ára háskólanám að baki skuli ekki gera það.

Guðlaugur Jónasson

Stofnstærðarmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem byggjast á svokölluðu togararalli hófust árið 1985 og frá þeim tíma hefur veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar alfarið byggst á niðurstöðum þeirra.

Á meðfylgjandi mynd má sjá troll Bjarna Sæmundssonar HF sem hefur verið notað í viðkomandi röll. Eins og sjá má á myndinni þá á fiskur mjög auðvelt með að komast undir og á milli stálbobbinga sem rúlla eftir hafsbotninum.

Norska rannsóknin árið 1989

Árið 1989 birti Hafrannsóknastofnunin í Bergen í Noregi skýrslu um rannsókn sem mældi stærð og fjölda fiska sem sluppu undir trollið.

Niðurstöður í skýrslunni gagnvart þorski voru eftirfarandi:

1 árs, 10-19 cm; 97% fóru undir trollið og 3% skiluðu sér í poka sem afli.

2 ára, 20-34 cm; 65% fóru undir trollið og 35% skiluðu sér í poka sem afli.

3 ára, 35-49 cm; 50% fóru undir trollið og 50% skiluðu sér í poka sem afli.

Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar Noregs í Bergen, byggðar á áðurnefndri skýrslu, voru þær að botntroll eitt og sér væri ekki gott til stofnstærðarmælinga.

Norska rannsóknin árið 2006

Önnur botntrollsrannsókn var framkvæmd af Hafrannsóknastofnuninni í Bergen árið 2006. Ólafur Arnar Ingólfsson fiskifræðingur ritaði niðurstöður þeirra rannsóknar í skýrslu. Helstu niðurstöður voru að þriðjungur þorsks, 24% ýsu og 7% ufsa skilaði sér ekki sem afli, heldur fór í söfnunarpoka sem staðsettur var undir trolli. Smærri fiskur var þar í meirihluta.

Rannsókn Hafró árið 2022

Í nóvember 2022 var Árni Friðriksson HF 200 í rannsókn sem snerist um að kanna hegðun botnfiska fyrir framan botnvörpu. Að rannsókninni stóðu vísindamenn frá Hafrannsóknastofnunum á Íslandi, Noregi og Nýfundnalandi.

Meðfylgjandi tafla sýnir niðurstöður sem teknar voru út úr skýrslunni.

Þetta er fyrsta rannsókn Hafró á hegðun botnfiska fyrir framan botntroll með safnpoka undir trollinu, þó svo að þeir séu búnir að nota botntroll til stofnstærðarmælinga og veiðiráðgjafar í 40 ár.

Þrátt fyrir vitneskju um þessar þrjár rannsóknir, sem sýna hve mikið af fiski endar ekki í trollpoka, hefur Hafrannsóknastofnun Íslands ekki breytt neinu í sínum forsendum við stofnstærðarútreikninga síðan 1985.

Ég hef rætt við fjölda togaraskipstjóra um niðurstöður þessara þriggja rannsókna. Þeir segja allir að það hefði aldrei hvarflað að þeim að svona gríðarlegt magn af fiski færi undir trollið.

Árið 1985 þegar byrjað var að stofnstærðarmæla með botntrolli hafði enginn hugmynd um þetta mikla magn.

Samt telur Hafrannsóknastofnun Íslands að hún geti reiknað út hvað sé mikið af þorski í sjónum með 10 tonna skekkju.

Niðurstaða

Norðmenn telja botntroll eitt og sér ekki nothæft við stofnstærðarmælingar botnfiska. Stofnstærð og veiðiráðgjöf botnfiska hjá Hafró byggist eingöngu á togararalli. Frá upphafi hefur ekki verið tekið tillit til þess mikla afla sem ekki endar í trollpoka.

Áður en Hafrannsóknastofnun fór að stofnstærðarmæla með togararallinu árið 1985 með botnvörpu og gefa út veiðiráðgjöf vorum við að veiða árlega helmingi meira af þorski á Íslandsmiðum.

Áætlað tap í útflutningstekjum vegna þessa vanmats á stofnstærð síðan 1985 uppreiknað á núvirði er áætlað 4.000 milljarðar. Sú tala er miklu hærri sé tekið tillit til margföldunaráhrifa inn í hagkerfið.

Það er ansi dapurt að vita til þess að þorskur læri á veiðarfæri en fiskifræðingar með margra ára háskólanám að baki skuli ekki gera það.

Höfundur er sjómaður.

Höf.: Guðlaugur Jónasson