Friðjón Magnússon fæddist á Seltjarnarnesi 2. desember 1945. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi 3. apríl 2024.

Foreldrar Friðjóns voru Magnús Guðmundsson vélstjóri, f. 14.2. 1907, d. 12.9. 2001, og Björg Sigurjónsdóttir húsfreyja, f. 27.8. 1915, d. 13.9. 1999. Börn þeirra voru fjögur og var Friðjón næstyngstur. Systkini hans eru Guðmundur, f. 11.8. 1936, d. 16.1. 2021, Sigurjón, f. 10.7. 1941, d. 27.3. 1993, og Ósk, f. 31.1. 1949.

Friðjón giftist Halldóru Huldu Kristinsdóttur 21. október 1967. Börn þeirra eru þrjú; Kristinn, f. 22. nóvember 1969, Bryndís, f. 2. maí 1978, og Hafdís, f. 30. maí 1987. Svo græddi hann eina uppkomna dóttur 2004/2005, Hönnu Maiendínu Benediktsdóttur, f. 11. maí 1977.

Fjölskyldan hefur stækkað og dafnað í gegnum árin en Kristinn er einstæður að svo stöddu. Bryndís er gift Sævari Sigurðssyni, f. 31. ágúst 1976, og saman eiga þau eitt barn, Ester Rós, f. 14. ágúst 2005, en fyrir átti Bryndís Söru Ýri Sigurðardóttur, f. 3. ágúst 1999, og Róbert Örn Sigurðsson, f. 2. febrúar 2002, og Sævar átti fyrir Hermann Bæring, f. 14. maí 1996. Hafdís trúlofaðist 2023 Kristjáni Má Einissyni, f. 8. nóvember 1982, og saman eiga þau tvö börn; Sylvíu Huld, f. 23. janúar 2019, og Birgittu Svövu, f. 25. nóvember 2020. Fyrir átti Hafdís Rebekku Báru Valsdóttur, f. 9. júní 2014, d. 1. júlí 2014, og Kristján átti Ásdísi Soffíu, f. 2. júlí 2009, og Eini Má, f. 23. október 2010. Hanna Maiendína (Maia) kom inn með börnin Anítu Ósk, f. 23. nóvember 1999, Skarphéðin Darra, f. 6. desember 2004, og Aþenu Líf, f. 3. maí 2012.

Friðjón fæddist á Sæbóli á Seltjarnarnesi en bjó síðustu árin í Breiðholti áður en hann fór á Eir.

Friðjón vann lengst af sem veðurfréttaþulur á Veðurstofu Íslands, sem síðar fékk nafnið tölvari, en hann vann þar í yfir 50 ár.

Jarðarför fer fram í Seljakirkju í dag, 16. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Friðjón er fæddur á Sæbóli á Seltjarnarnesi og ólst hann upp við að gera hin ýmsu prakkarastrik á nesinu, og hafði hann yndi af því að segja okkur börnunum og barnabörnunum frá. Eins og svo margir fór hann að vinna í fiski ungur að árum og vann hann í Ísbirninum og hjá heildsölunni Kristjánsson. Þegar Veðurstofan fékk hann til liðs við sig byrjaði hann að vinna á Keflavíkurvelli en færði sig síðar á Bústaðarveg þar sem hann vann þar til eftirlaunum var náð.

Líf Friðjóns var jafn stórbrotið og persóna hans, hann naut þess að forvitnast um flest allt í kringum sig, hvort sem það var falið undir mosa eða „roadkill“ í Bandaríkjunum. Hann var upplýsingaþyrstur og vildi læra sem flest um allt sem hann komst í tæri við. Friðjón kláraði gagnfræðapróf og fór svo í landspróf. Í framhaldi af því fór hann ásamt Sigurjóni (Sigga) bróður sínum í veðurathugunarmannaprófið. Friðjón var ávallt námsfús og á eldri árum fór hann í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og tók þar nokkur fög. Þessari visku var hann ávallt tilbúinn að deila með fólkinu í kringum sig.

Hann var jafnframt mikill athafnamaður og naut þess að dunda við hin ýmsu áhugamál, hvort sem það var jólalandið, báturinn, bíllinn, ferðalög, sumarbústaðurinn eða húsið og lóðin. Fjölskyldan var alltaf ofarlega í huga hans og áttum við margar minningar frá þessum áhugamálum.

Hann hafði yndi af náttúrunni í heild sinni, hann naut þess að ferðast og þá aðallega á Íslandi þrátt fyrir nokkrar ferðir út fyrir landsteinana. Þá var Ísland ávallt landið hans, þar gat hann séð náttúruöflin upp á sitt besta. Hvort sem var að jeppast upp á hálendi eða fara á sjóinn að dorga.

Þeir sem til hans þekkja muna sjálfsagt eftir honum úti í bílskúr eða uppi á þaki að gera við hluti, hann naut þess að nota hendurnar og finna lausnir á hlutunum. Hann var einstaklega hjálpsamur maður með stórt hjarta sem við stundum grínuðumst með að slægi í takt við „Jingle bell“ því jafn mikinn jólasvein var varla hægt að finna, eins og kom í ljós á jólaballi Veðurstofunar þegar sjálfur jólasveinninn lét á sér kræla.

Núna leggur þú af stað í enn eitt ævintýrið og við munum sakna tímanna við eldhúsborðið þar sem við ræddum um heima og geima.

Farðu í friði elsku eiginmaður minn, pabbi, tengdapabbi og afi.

Bryndís
Friðjónsdóttir.

Elsku pabbi minn, nú veit ég ekki einu sinni hvernig ég á að byrja að skrifa kveðju til þín. Þú hefur alltaf verið stóri og sterki pabbi sem varst ákveðinn en skemmtilegur, það var alltaf hægt að treysta á þig og fundum við krakkarnir það snemma að það var alltaf gaman þegar þú tókst þátt í leikjunum með okkur. Við grínuðumst alltaf með að ástæðan fyrir því að þú varst með svona stórt nef var vegna þess að ég var snýtt út úr því, svo lík vorum við.

Húmorinn var aldrei langt í burtu hjá þér, og mamma stundum/oftast skammaði okkur fyrir óheppilegan húmor á röngum stöðum eða í vitlausum aðstæðum, það sem við gátum gargað og grenjað úr hlátri yfir uppistöndum og stendur þá einna helst uppi Blue Collar Comedy Tour, þegar Bill Engvall var með sín grín með Here‘s Your Sign.

Ævintýrin sem við fórum saman í munu ylja mér um hjartarætur og mun ég vera dugleg að segja börnunum mínum frá þeim eins og þú sagðir okkur systkinum frá þínum ferðum með þínum gömlu vinum.

Ég veit að Rebekka mín mun halda fast í afa sinn eins og hún gerði þegar þú komst og hittir hana upp á vöku, ég veit líka að þú átt eftir að segja henni frá systkinum sínum Ásdísi, Eini, Sylvíu og Birgittu og veita þeim verndarhönd þarna uppi eins og þú gerðir hérna niðri hjá okkur.

Takk fyrir að hafa verið þú og verið langbesti pabbi sem hægt er að eiga! Mér þykir leiðinlegt að þú munir ekki geta leitt mig inn gólfið þegar við Stjáni göngum í það heilaga en ég veit að þú verður með í anda…

Góða nótt pabbi minn, Guð geymi þig og dreymi þig vel, ég elska þig upp til stjarnanna.

Þín pabbastelpa,

Hafdís.

Góði guð, þótt ég trúi ekki á þig, ætla ég að fá að byrja bréfið til afa svona. Nú er komið að þér að passa afa eins og ég passaði hann fyrir ömmu. Ég vil að þú farir að fíflast með honum eins og ég gerði.

Afi, ég veit að þú ert kominn á betri stað núna. Ég vil að þú vitir að ég elskaði þig meira en allt annað. Þegar mér leið illa varst þú alltaf til staðar og alltaf tilbúinn að segja okkur sögur til að koma okkur til að hlæja. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég fór austur í bústað með þér til að hjálpa þér. Þú ákveður svo á heimleiðinni að fara út af Hellisheiðinni. Þetta ævintýri endaði svo á því að við festum okkur í miðri af því þú gleymdir að setja á driflokur á græna Mussoinum. Ég mun heldur aldrei gleyma því hvað þú varst stoltur af mér því ég varð ekki hræddur þegar vatn fór að flæða inn í bílinn.

Takk afi fyrir að vera stoð mín og stytta í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og hafa endalausa trú á mér.

Róbert Örn.