Orkuskipti Gunnþór Ingvason, forstjóri SVN, segir að hann telji tæknina ekki vera á sama stað og markmiðin.
Orkuskipti Gunnþór Ingvason, forstjóri SVN, segir að hann telji tæknina ekki vera á sama stað og markmiðin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is Íslenskur sjávarútvegur hefur dregið úr olíunotkun á hafi um tæp 40% frá árinu 1990. Samdrátturinn væri nær 50% ef ekki hefði komið til veruleg skerðing á raforku til fiskimjölsverksmiðja á liðnum tveimur árum.

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Íslenskur sjávarútvegur hefur dregið úr olíunotkun á hafi um tæp 40% frá árinu 1990. Samdrátturinn væri nær 50% ef ekki hefði komið til veruleg skerðing á raforku til fiskimjölsverksmiðja á liðnum tveimur árum.

Þetta kemur fram í skýrslunni Íslenskur sjávarútvegur í fararbroddi, sem kynnt var á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í gær. Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS, segir í samtali við Morgunblaðið að íslenskur sjávarútvegur hafi verið leiðandi í að minnka sótspor sitt.

„Við höfum ekki séð viðlíka árangur neins staðar, hvorki hjá atvinnugreinum hér á landi né erlendis. Í Noregi til dæmis hefur sjávarútvegurinn dregið úr olíunotkun um 10% frá árinu 2005 svo þau eiga langt í land með að ná þeim árangri sem við höfum náð,“ segir hún.

Hildur bendir á að íslenskur fiskur hafi margfalt minna kolefnisspor en margar aðrar afurðir. Hann sé framleiddur með sjálfbærum hætti svo ekki sé talað um nýtingu fisksins en þar stendur Ísland öðrum löndum framar að sama skapi.

Boltinn hjá stjórnvöldum

Hildur bætir við að boltinn sé hjá stjórnvöldum þegar kemur að orkuskiptum og árangri í loftslagsmálum til framtíðar.

„Það þarf að tryggja framboð grænnar orku, sterka innviði, stöðugt starfsumhverfi og fjárhagslegt svigrúm í formi hóflegrar gjaldtöku,“ segir Hildur.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, var meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum og talaði hann meðal annars um mikilvægi þess að raunhæf markmið væru sett hvað varðar orkuskipti í sjávarútvegi.

Í samtali við Morgunblaðið segir hann að hann telji brýnt að leggja áherslu á að auka orkuöflun á grænni orku.

„Við þurfum að klára þau verkefni sem eru aðkallandi innanlands og staðreyndin er sú að það vantar orku til að óþarfa olíubrennslu sé hætt í landinu.“

Í skýrslu SFS kemur meðal annars fram að fiskimjölsverksmiðjur hafi þurft að hverfa aftur til olíunotkunar í sinni starfsemi, þrátt fyrir að margar þeirra séu rafvæddar. Þar vanti líka að styrkja flutningskerfið en einhverjar verksmiðjur eiga ekki kost á rafmagni.

Gunnþór segir að það sé umhugsunarefni að Ísland hafi ekki sinnt orkuöflun með nægilegum hætti á síðustu misserum.

„Á sama tíma hefur eftirspurn eftir orku verið að aukast og mikilvægt að koma rafmagni að þar sem hægt er að koma því. Það er vel framkvæmanlegt.“

Gunnþór bætir við að mikilvægt sé að sjávarútvegurinn fylgist með tækni í orkuskiptum á fiskiskipum. Hann segir að þó svo að framtíðarlausn sé ekki í sjónmáli þá muni hún vonandi koma. Einnig sé mikilvægt að klára að styrkja dreifikerfið.

„Þó svo að það sé ekki komin fram raunhæf lausn ennþá í þeim efnum, þá er vert að hafa í huga að það er hægt að gera margt annað en að skipta um eldsneyti. Endurnýjun skipaflotans mun skila okkur hagkvæmari skipum sem nota minna eldsneyti en eldri skip,“ segir hann.

Vonar að orðum fylgi athafnir

Gunnþór segist binda vonir við að nýmynduð ríkistjórn geri átak í orkumálum.

„Nýr forsætisráðherra hefur boðað átak í orkumálum og maður bindur vonir við að orðum fylgi athafnir. Það hefur margt gott verið gert í orkumálum og má nefna til dæmis stuðning við rafmagnsbíla og nú síðast átak í varmadælum fyrir köld svæði.“

Gunnþór bætir við að hann telji tæknina ekki vera komna á þann stað að raunhæft sé að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í orkuskiptum, það sé mikilvægt að vera sífellt með þessi markmið að leiðarljósi, en að sama skapi vera tilbúinn til að horfa á staðreyndir.

„Við gætum þurft að kaupa losunarheimildir en stærsta verkefnið er að sameinast um að auka orkuframleiðslu í landinu til að mæta eftirspurn,“ segir Gunnþór að lokum.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir