Kristín Marja Baldursdóttir
Kristín Marja Baldursdóttir
Ef Katrín væri sögupersóna mundi ég lýsa henni sem góðri og greindri konu með einlæga og aðlaðandi framkomu. Mannasættir sem kann á hljóðfæri stjórnmálanna.

Kristín Marja Baldursdóttir

Það getur oft verið býsna snúið að lýsa persónum sem allir telja sig þekkja. Eins og til að mynda fólki sem er oft í fréttum vegna starfs síns. Hér áður fyrr gat maður lesið heilu blaðsíðurnar af mannlýsingum, einkum þær sem snertu útlitið; hann var með hátt enni, augun lágu djúpt undir þykkum, svörtum brúnum, nefið var beint en ívið bogið fremst svo að lítið fór fyrir miðsnesinu, en munnstæðið var breitt, neðri vör öllu þykkari en sú efri, hakan framstæð og gaf til kynna ákveðni og sigurvilja.

Þetta er bara stytt lýsing á útliti, þær náðu yfirleitt yfir hálfa blaðsíðuna eins og ég nefndi, en svo kom að því að lýsa innri manni og þá voru menn yfirleitt stuttorðari, enda ekki auðvelt að lýsa annarra manna sálum. Þá voru menn drengir góðir, stórhuga en varkárir, hugmyndaríkir en hlédrægir, aðhaldssamir en örlátir. Nú les maður vart mannlýsingar lengur, maður sér bara myndir af fólkinu í símanum og dæmir það eftir þeim. Hefur ekki hugmynd um hvaða mann eða konu þetta fólk hefur að geyma.

Senn mun þjóðin kjósa nýjan forseta lýðveldisins. Og það var sem við manninn mælt þegar þjóðinni var það kunngjört, upp spruttu konur og menn og buðu sig fram til embættisins, og það án þess að hafa nokkra einustu mannlýsingu á bak við sig. Sumt af þessu fólki hafði ég aldrei séð áður eða heyrt frá, maður hefur nú ekki tíma til að liggja með nefið ofan í síma eða fjölmiðlum hálfan sólarhringinn, og þessi fjöldi minnti á jólabókaflóðið, skapaði einungis óvissu og öryggisleysi hjá manni.

Ég varð því afar fegin þegar Katrín Jakobsdóttir gaf kost á sér í embættið. Hún hefur verið ráðherra í tæp ellefu ár, forsætisráðherra í sjö ár, veit hvar vörðurnar eru og hefur verið stanslaust í fréttum fjölmiðla. Það þarf ekkert að lýsa útliti hennar, fólk mundi bara geispa ef ég reyndi að feta í fótspor gömlu sagnameistaranna. Og hvað innri mann snertir hefur hún talað og skrifað í öll þessi ár líka, svo hver heilvita maður ætti nú að vita svona nokkurn veginn hvað klukkan slær þegar hugur hennar og skoðanir eru annars vegar.

Þar sem mér er fyrirmunað að skrifa mannlýsingar um konu sem öll þjóðin þekkir verð ég, til að vera sátt við sjálfa mig, að minnast aðeins á kvenlýsingar. Það fer minna fyrir þeim í gömlu bókunum. Þar eru konurnar yfirleitt bara föngulegar og vænar, nema Hallgerður auðvitað, sem stýrir atburðarásinni og er uppáhaldspersóna mín. Ef Katrín væri sögupersóna mundi ég lýsa henni sem góðri og greindri konu með einlæga og aðlaðandi framkomu. Mannasættir sem kann á hljóðfæri stjórnmálanna. En það fer enginn yfir þröskuld hennar.

Henni hefur verið hrósað fyrir samskiptahæfileika. Og ég tek undir það hrós.

Sá hæfileiki hefur alltaf verið vanmetinn af þjóðinni, sér í lagi vegna þess að hann er einkum bundinn við konur. Mæður, dætur, systur, frænkur og vinkonur eyða mestum tíma ævi sinnar í samskipti. Látið mig um það. En viti menn, sá lýjandi þáttur lífsins, samskiptin, er sá þáttur sem drífur söguna áfram, fær þjóðir til að vinna saman, bera virðingu hverja fyrir annarri. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög viðkvæm fyrir áliti annarra þjóða á Íslendingum og verð því að fá forseta sem ég get borið virðingu fyrir. Ég hef borið virðingu fyrir öllum forsetum þessa lands, verið stolt af þeim þegar þeir taka í hendur erlendra þjóðhöfðingja og mér finnst það bara vera lágmarkskrafa Íslendingsins að geta borið virðingu fyrir forseta sínum. Ég veit að Katrín Jakobsdóttir getur uppfyllt þá kröfu. Og hef ég ekki fleiri orð um það.

Höfundur er rithöfundur.