Þó enn séu tíu dagar þar til framboðsfrestur rennur út virðast flestir hafa fundið sér frambjóðanda; aðeins 8% eru óviss. Aftur á móti blasir við að nokkrir frambjóðendur hafa tekið forystu, en viðbúið að allnokkrir falli frá framboði á næstu dögum og vikum

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þó enn séu tíu dagar þar til framboðsfrestur rennur út virðast flestir hafa fundið sér frambjóðanda; aðeins 8% eru óviss. Aftur á móti blasir við að nokkrir frambjóðendur hafa tekið forystu, en viðbúið að allnokkrir falli frá framboði á næstu dögum og vikum.

Að ofan getur að líta hlutfallslegt fylgi frambjóðenda, þegar aðeins er litið til þeirra sem tóku afstöðu, en jafnframt eru vikmörk fylgisins sýnd.

Til þess að segja fyrir um frekari þróun í kosningabaráttunni er fróðlegt að skoða greiningu á fylginu eftir hópum. Þannig má sjá nokkurn mun á fremstu frambjóðendum eftir búsetu, sem ekki verður skýrður með því hvaðan þeir koma. Eins er eftirtektarvert að konur styðja Baldur frekar en karlar, en óverulegur kynjamunur á fylgi annarra frambjóðenda.

Þegar litið er til aldurs ber mest á því hvað Jón Gnarr höfðar til yngra fólks, en stuðningurinn fjarar fljótt út með aldri. Katrín sækir hins vegar mest til fólks á miðjum og besta aldri.

Pólitíkusar í framboði

Sjálfsagt er þó athyglisverðast að skoða fylgið með tilliti til stjórnmálaafstöðu svarenda. Þrír fyrrverandi stjórnmálamenn eru þar fremstir meðal jafningja og ekki ósennilegt að stjórnmálaskoðanir kjósenda gefi einhverjar vísbendingar um kosningahegðun í forsetakjöri.

Varla kemur á óvart að Katrín eigi mikinn hljómgrunn meðal stuðningsmanna Vinstri grænna, þó sumir hefðu e.t.v. búist við enn hærra hlutfalli þeirra. En hún er líka áberandi sterkust í hinum stjórnarflokkunum, Framsókn og Sjálfstæðisflokki.

Aftur á móti hefur Baldur sterka stöðu í stjórnarandstöðuflokkum. Þar munar ugglaust mest um fylgið úr flokki hans, Samfylkingunni, sem hefur mikinn meðbyr þessi misserin, en hann nýtur jafnvel ívið meira fylgis fylgismanna Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar. Jón Gnarr virðist hins vegar höfða mest til Pírata og Sósíalista, en einnig nokkuð til Samfylkingarfólks. Fylgi Höllu Hrundar er hins vegar mest meðal Sósíalista, en hún virðist líka eiga hljómgrunn í Sjálfstæðisflokki og Flokki fólksins.