Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Tónlistarmennirnir Bistro Boy (Frosti Jónsson) og X.U.L. (Gašper Selko) koma í fyrsta sinn saman á sviði þegar þeir halda tónleika í Kaldalóni í Hörpu annað kvöld, miðvikudagskvöldið 17. apríl. „Við spilum frekar tilfinningadrifna tónlist og ætlum að búa til fallega stund saman,“ segir Frosti. Þeir hafa lagt fyrir sig raftónlist en eru báðir með klassískan bakgrunn. „Við höfum fundið frelsi og svigrúm í raftónlistinni og þar gerum við það sem okkur langar að gera.“
Leiðir þeirra lágu saman fyrir rúmum þremur árum. Frosti sér um plötuútgáfuna Möller Records, sem gefur út raftónlist, og hefur búið í Tampa í Flórída í Bandaríkjunum síðan 2018. Hann bendir á að þegar covid skall á hafi tónlistarmenn þurft að finna leiðir til að halda áfram í sköpuninni. Gašper, sem er frá Kamnik í Slóveníu, hafi sent Möller Records upptökur af tónlist sinni snemma árs 2021 og sér litist vel á. „Ég stakk upp á því að við töluðum saman og könnuðum hvort við gætum gert músík saman.“
Í kjölfarið hentu þeir á milli sín hugmyndum um vorið og eftir að línur höfðu skýrst varð til breiðskífan tengsl, sem kom út í nóvember 2022. „Hún er einhvers konar bræðingur af raftónlist, klassík og djassi,“ segir Frosti. Áréttar að hann sé með annan fótinn í raftónlist með klassískan bakgrunn í píanóleik en Gašper sé trompetleikari að upplagi. „Okkur langaði til þess að taka skrefið áfram, flytja efnið á sviði og sjá hvað gerist,“ segir hann um tónleikana. Þeir hafi fengið strengjatríó til að spila með sér á lögum plötunnar en þeir verði bara tveir á sviðinu í Kaldalóni.
Nýr kokteill
Félagarnir hafa endurútsett lög af tengslum fyrir lifandi flutning með tónleikana í huga. „Við þurftum að endurhugsa nálgunina án strengjasveitar í bland við áður útgefna tónlist af honum og mér og sjóða saman í nýjan kokteil.“
Gašper hefur verið virkur í tónlistinni í heimalandi sínu og komið fram bæði einn og með öðrum í alls konar bræðingi. Frosti hefur líka látið til sín taka og ekki síst sem framleiðslustjóri tónlistar fyrir sig og aðra. „Ég hef mikið framleitt músík fyrir fólk sem gerir tónlist bak við tjöldin fyrir sjónvarp.“ Hann fjarvinni með mörgum víðs vegar um heim og það hafi gengið vel en ekkert komi í staðinn fyrir nándina. Því hafi þeir Gašper stillt saman strengi sína í Tampa eina viku í febrúar, æft og skipulagt tónleikana. „Það gerist alltaf eitthvað nýtt þegar maður er með fólk inni í stúdíóinu.“
Félagarnir verða síðan með tónleika í Kamnik 24. apríl. „Við erum með ákveðinn ramma og spilum inn í hann,“ segir Frosti, sem kom síðast fram opinberlega skömmu fyrir covid. Hugmyndin er að spila meira saman, þróa þetta konsept okkar á milli svolítið áfram,“ segir Frosti.