Hjálmar Jónsson orti á fundi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á Hótel Nordica á laugardaginn:
Yfir flokknum ekkert slen,
allir skulu muna:
Stöndum þétt með Bjarna Ben
og blásum á vitleysuna.
Ingólfur Ómar sendi mér vísu á laugardag með þeim ummælum að enn sé svalt en þó bjart veður hér syðra og vonandi fari vorið að láta sjá sig:
Grundir krýnir geisladís
glæstar sýnir skarta.
Geðið hlýnar, gleðin rís
glatt í mínu hjarta.
Gunnar J. Straumland skrifar á Boðnarmjöð: Ég var að ljúka við að semja „Rímu úr náttúrunnar nafnafræðum“ og hyggst kveða hana á opnu kvæðakvöldi í upphafi landsmóts kvæðamannafélaga á Hótel Natur í Eyjafirði, föstudaginn 26. apríl nk.
Hér er ein vísa sem gefur efni rímunnar til kynna, en hún er fremur stutt, einungis fjórir tugir vísna:
Tuddahala hræðast má
hratt þeir flugur kremja.
Hefur einhver hlustað á
hrossaflugu emja?
Þorvaldur Guðmundsson skrifar: Í helgarmogga er rætt um gömul bæjanöfn eins og Saurbær og Tittlingur. Þetta minnti mig á gamla sögu úr Eyjafirði, áður fyrr hét ysti bær í Lögmannshlíð Tittlingur. Þar bjó maður að nafn Ólafur sem jafnframt hafði atvinnu af akstri. Honum leiddist nafnið og fékk því breytt í Hlíðarenda. Þá orti einhver hagyrðingurinn:
Lögmannshlíðar vífum vænum
verður margt að bitlingi
þegar ekur út úr bænum
Ólafur á – Hlíðarenda.
Nú kom þar að Ólafur seldi jörðina, þá orti sá sami:
Margar hafa meyjar grátið
mun svo verða enn um sinn
því Ólafur hefur eftirlátið
öðrum manni – Hlíðarendann.
Vel má vera að rangt sé með söguna farið, ég las þetta fyrir löngu einhvers staðar.
Sigtryggur Jónsson yrkir:
Vetrarskuggar víkja nú,
vorsólin þá deyfir.
Fuglar að sínu hreiðri hlú,
humlan fræflum dreifir.
Skinnið sníður skatan best,¶skíðum ljón á þeyta,¶hunangið er haldið verst¶og haft úr bæli geita.