Íbúðarhúsnæði Talið er að um 34 þúsund heimili á landinu séu á leigumarkaði en ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð hans eða leiguverð.
Íbúðarhúsnæði Talið er að um 34 þúsund heimili á landinu séu á leigumarkaði en ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð hans eða leiguverð. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Kærunefnd húsamála er að kikna undan álagi vegna mikils og vaxandi fjölda kærumála sem nefndinni berast. Nefndin fjallar um ágreining um húsaleigusamninga og ágreining á milli eigenda fjöleignarhúsa og hefur málafjöldinn hjá nefndinni aukist um 50% á nokkrum árum „auk þess sem umfang og flækjustig mála hefur aukist verulega. Nefndin er því í raun löngu sprungin,“ segir í umsögn kærunefndarinnar til velferðarnefndar Alþingis um frumvarp innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum, sem lagt var fram í seinasta mánuði.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kærunefnd húsamála er að kikna undan álagi vegna mikils og vaxandi fjölda kærumála sem nefndinni berast. Nefndin fjallar um ágreining um húsaleigusamninga og ágreining á milli eigenda fjöleignarhúsa og hefur málafjöldinn hjá nefndinni aukist um 50% á nokkrum árum „auk þess sem umfang og flækjustig mála hefur aukist verulega. Nefndin er því í raun löngu sprungin,“ segir í umsögn kærunefndarinnar til velferðarnefndar Alþingis um frumvarp innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum, sem lagt var fram í seinasta mánuði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir meiri málshraða hjá kærunefndinni og er talið sýnt að málafjöldinn muni enn aukast verði frumvarpið að lögum. Málafjöldinn hjá nefndinni fór fyrst yfir 100 mál á árinu 2018. Árið 2022 voru kærur til nefndarinnar orðnar 135. Í fyrra bárust alls 148 kærur og álitsbeiðnir og kvað nefndin upp 91 úrskurð og álit, að því er fram kemur í umsögninni.

Er málahalinn sagður orðinn umtalsverður „og óásættanlegur“ sem hefur m.a. leitt til þess að nefndin nær sjaldan að standa við tveggja mánaða lögbundinn málsmeðferðarfrest.

Í seinasta mánuði birti kærunefndin tilkynningu á vef stjórnarráðsins þar sem greint var frá því, að vegna gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni komi hún til með að forgangsraða húsaleigumálum.

Í umsögninni til Alþings kemur fram að nefndin hafi ítrekað óskað eftir auknu fjárframlagi. Föst mánaðarleg laun nefndarmanna, sem ákveðin voru fyrir löngu, hafi ekki haldið í við málafjölda, álag og launaþróun.

Kröfur um styttri málsmeðferðartíma í frumvarpinu

Í frumvarpinu er eins og fram hefur komið kveðið á um umtalsverðar breytingar á húsaleigulögunum, sem eiga m.a. að auka húsnæðisöryggi leigjenda, stuðla að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um þróun leiguverðs. Er það byggt á niðurstöðum starfshóps með þátttöku samtaka á vinnumarkaði.

Kærunefndin fær aukið hlutverk við að leysa úr ágreiningi leigjenda og leigusala m.a. um sanngirni leigufjárhæðar. Talið er víst að kærumálum muni fjölga og gert er ráð fyrir því í greinargerð með frumvarpinu að kærunefnd húsamála verði efld þó það sé ekki útfært.

Í umsögn kærunefndarinnar er bent á að komið hafi skýrt fram á fundi með innviðaráðuneytinu fyrr á þessu ári að nefndin nái ekki að standa við lögbundinn málshraða. Og skýrt hafi komið fram af hálfu ráðuneytisins að fjárframlög til hennar yrðu ekki aukin þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárlögum og því hafi nefndin verið nauðbeygð til að gefa út fyrrnefnda yfirlýsingu um að málsmeðferð muni taka lengri tíma.

„Í ljósi framangreinds kom mjög á óvart að í frumvarpinu eru gerðar kröfur um styttri málsmeðferðartíma í vissum tegundum mála og enn standi til að auka álag á nefndina án þess að fjárframlög séu aukin verulega,“ segir í umsögninni.

Málafjöldi muni stóraukast

Fram kemur í sameiginlegri umsögn BSRB, BHM og KÍ að af lauslegri athugun megi ráða að úrskurðir nefndarinnar virðist kveðnir upp u.þ.b. fjórum til fimm mánuðum eftir að kærur berast. Fyrirséð sé að þessi málafjöldi muni stóraukast með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Augljóslega þurfi því að auka bæði fjármagn og mönnun hjá nefndinni.

19 umsagnir til Alþingis

Skortur á framboði

Borist hafa 19 umsagnir til Alþingis um húsaleigufrumvarpið og sýnist sitt hverjum. Bæði ASÍ og SA benda á að mikill framboðsskortur sé rót húsnæðisvandans.

ASÍ segir tillögurnar skref í rétta átt en þörf sé á miklu meiri og víðtækari aðgerðum á leigumarkaðinum en mögulegt sé að gera með breytingum á húsaleigulögum sem slíkum.

SA rifja upp að 2022 var sú breyting gerð að heimila aðilum leigusamnings að stofna til ágreinings og kæra upphæð húsaleigu við upphaf samnings til kærunefndar húsamála. Fella ætti þetta brott þar sem það samræmist ekki meginreglu um samningsfrelsi. „Takmarkanir á samningsfrelsi aðila leigusamnings og auknar kvaðir sem frumvarpið ber með sér, m.a. í formi aukinnar upplýsingagjafar og flækjustigs, munu að líkum leiða af sér minna framboð leiguhúsnæðis,“ segir m.a. í umsögn SA.

Höf.: Ómar Friðriksson