Elva Hjálmarsdóttir fæddist 25. desember 1951. Hún lést 27. mars 2024.

Útförin fór fram 12. apríl 2024.

Einn af okkar kæru bekkjarfélögum úr H-bekk Kennaraskóla Íslands er nú fallinn frá. Við hófum nám haustið 1969 full af æskufjöri og þrótti. Á þessum árum var byrjað í skólanum strax eftir unglingaskóla. Elva var ein af þeim fyrstu í bekknum sem stofnuðu heimili og eignuðust barn. Með öllum sínum dugnaði og krafti gat hún sinnt náminu og heimilinu með sóma, enda var mikið í þessa hæglátu stelpu spunnið.

Elvu gekk mjög vel í starfi sínu sem kennari og náði vel til nemendanna, enda var hún gædd miklu jafnaðargeði og lagði alltaf gott til allra, var glaðlynd og jákvæð. Það var sterkur kjarni undir rólegu yfirborðinu.

Síðastliðið vor var haldið upp á 50 ára útskriftarafmæli okkar úr Kennaraskólanum. Þá náðum við að hittast nokkuð mörg og var Elva þar líka. Það var yndislegt að hitta hana og skemmti hún sér vel.

Við sendum ættingjum innilegar samúðarkveðjur og minnumst Elvu með þakklæti.

Fyrir hönd félaga úr H-bekknum,

Guðrún Sigríður og Katrín.