Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir
Það hefur sjaldan verið mikilvægara að huga að velferð og hamingju en einmitt á okkar tímum. Fréttir af alls konar óhugnaði hér og erlendis dynja á okkur flesta daga. Í drunga hversdagsins er mikilvægt fyrir fólk að hafa bjargráð til að takast á við áskoranir lífsins. Ég hef átt þess kost að stunda nám í jákvæðri sálfræði á meistarastigi og mæli ég með því fyrir alla sem vilja styrkja sig í lífi og starfi. Jákvæð sálfræði er vísindagrein þar sem skoðað er hvað einkennir vel starfhæfan einstakling og hvaða inngrip og aðferðir má nota til að auka vellíðan og lífsfyllingu.
Einn af stólpunum til að byggja upp vellíðan í eigin lífi er að skapa jákvæðar tilfinningar. Góðar tilfinningar gera lífið þess virði að lifa því og fylla okkur krafti. Dæmi um jákvæðar tilfinningar eru þakklæti, von, kærleikur, umhyggjusemi, bjartsýni og fleira. Við getum valið að gefa okkur tíma daglega til að virkja jákvæðar tilfinningar og leyfa okkur að líða vel þrátt fyrir rigningu og slæma færð. Það þarf að forgangsraða því sem vekur góðar tilfinningar. Jákvæðar tilfinningar hafa tengsl við mikilvægar heilsufarsútkomur eins og meira viðnám fyrir flensu, betra ónæmiskerfi og lengra líf.
Það skiptir máli hvernig einstaklingar takast á við erfiðleika og mótlæti með uppbyggilegum hætti. Ein leið til að finna fyrir aukinni vellíðan er að vera meira á staðnum, í núinu. Tilfinningin þakklæti kallar fram mildi. Þakklæti opnar hjartað og róar hugann með því að tengja okkur við hversdagslega, góða hluti sem við myndum annars taka sem sjálfsögðum.
Að upplifa þakklæti er ein sterkasta og jákvæðasta tilfinning sem við upplifum og hafa rannsóknir sýnt að þakklætistilfinning hefur mikil áhrif á vellíðan okkar. Þakklæti stuðlar að hamingju.
Þakklæti er að bera kennsl á eitthvað sem er jákvætt og taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Það má iðka þakklæti á ýmsan hátt. Sumum finnst gott að skrifa niður í dagbók þrjá hluti sem þeir eru þakklátir fyrir á hverjum degi. Út frá rannsóknum í jákvæðri sálfræði hefur komið í ljós að þegar við veitum athygli og skrifum niður þrjá góða hluti á hverjum degi sem við getum verið þakklát fyrir fer heilinn smám saman að læra að veita góðum hlutum athygli. Þrátt fyrir að lífið sé erfitt þá er alltaf eitthvað í kringum okkur sem við getum verið þakklát fyrir.
Heimspekingurinn Cicero sagði þakklæti vera foreldri allra dygða. Þakklæti er m.a. skilgreint sem styrkleiki, dygð, tilfinning, venja og hvöt. Það sem einkennir hamingjusamt fólk er m.a. að það iðkar þakklæti. Þakklæti hefur sterkara forspárgildi en nokkur önnur dygð varðandi huglæga hamingju og heilsu.
Dr. Robert A. Emmons er fræðimaður innan jákvæðrar sálfræði og hefur mikið rannsakað dygðina þakklæti. Hann segir þakklæti vera annars vegar staðfestingu á góðvild og hins vegar að nauðsynlegt er að viðurkenna tilvist annarra og þátt þeirra í að auka góðvildina sem við svo njótum. Þakklæti varpar sem sagt ljósi á þá staðreynd að við erum ekki þau sem við erum nema fyrir framlag annarra. Þakklætið beinist þá að öðrum en okkur sjálfum. Þegar við lítum á lífið í heild sinni, þá hvetur þakklætið okkur til að líta á það sem vel gengur í lífinu.
Menn þurfa að hafa fyrir því að rækta þakklæti. Heilinn vinnur öðruvísi úr upplýsingum þegar menn ástunda þakklæti og til verða nýjar heilabrautir sem ýta undir jákvætt viðhorf. Iðkun þakklætis hefur langvarandi jákvæð áhrif á framheilann sem stjórnar meðan annars tilfinningum, minni og hæfni manna til að leysa vandamál. Manneskja sem er þakklát býr einnig yfir meiri þrautseigju og hún er betur búin til að takast á við erfiðleika.
Veitum því góða í lífinu athygli og verum þakklát fyrir það sem okkur er gefið. Það sem við hugsum um hefur áhrif á það hvernig okkur líður. Munum að allt sem við veitum eftirtekt vex og dafnar.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur.