Gunnella við fjölskyldubílinn sem er þó í eigu unglingsins á heimilinu. Hún er um þessar mundir önnum kafin við síðustu sýningar einleiksins <em>Hvað ef sósan klikkar</em> sem sýndur er í Tjarnarbíói.
Gunnella við fjölskyldubílinn sem er þó í eigu unglingsins á heimilinu. Hún er um þessar mundir önnum kafin við síðustu sýningar einleiksins Hvað ef sósan klikkar sem sýndur er í Tjarnarbíói. — Morgunblaðið/Eggert
Þökk sé vespumenningunni á Ítalíu þá voru unglingsár Gunnellu Hólmarsdóttur þar í landi ævintýri líkust. „Ég ólst að hluta til upp á Ítalíu þar sem foreldrar mínir ræktuðu vatnsmelónur og þegar ég var táningur varði ég sumrunum þar hjá afa mínum og ömmu

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þökk sé vespumenningunni á Ítalíu þá voru unglingsár Gunnellu Hólmarsdóttur þar í landi ævintýri líkust. „Ég ólst að hluta til upp á Ítalíu þar sem foreldrar mínir ræktuðu vatnsmelónur og þegar ég var táningur varði ég sumrunum þar hjá afa mínum og ömmu. Þar fékk ég fimmtán ára gömul að aka um á vespu og gat ferðast á milli bæja eftir krúttlegum litlum sveitavegum. „Þetta var svolítið eins og í bíómyndunum og að sjá unglingsstúlku á ferðinni með vindinn í ljósu hárinu varð til þess að margir hrópuðu upp fyrir sig „ciao bella!“. En það sem ekki sést í ítölsku bíómyndunum er að það verður nánast ekki hjá því komist þegar bifhjóli er ekið um sveitavegina að vera sífellt að fá skordýr í andlitið. Í þrjú yndisleg sumur var ég samt frjáls á vespunni og alla tíð síðan hefur mér alltaf liðið miklu betur á opnu farartæki en í lokuðum bíl.“

Um þessar mundir notar Gunella rafmagnsmótorhjól fyrir sínar daglegu samgöngur en til stendur að fjárfesta í ágætum jeppa fyrir heimilið áður en langt um líður. „Annars hef ég alltaf átt frekar lélega bíla. Fyrsta bílinn minn fékk ég að láni frá frænku minni sem hefði annars látið farga honum. Vildi ekki betur til en svo að daginn eftir að ég fékk bílpróf ætlaði ég aldeilis að fara á rúntinn með vinkonum mínum og ók af stað til Keflavíkur. Þann daginn var ég stöðvuð af lögreglunni við þrjú ólík tækifæri og sektuð fyrir ástand bílsins. Ein sektin var fyrir það að annað framljósið vantaði, svo kom sekt fyrir að númeraplatan aftan á bílnum hafði dottið af og loks kom sekt fyrir brotið afturljós.“

Gunnella átti með manni sínum ágætan Mitsubishi Outlander með tvinn-aflrás sem þau ákváðu að selja til að kaupa í staðinn Ford Explorer í Eddie Bauer-útgáfu. „Manninn minn langaði svo afskaplega mikið í fínan veiðibíl en það kom í ljós að Fordinn þurfti á nýjum gírkassa að halda og endaði hjá bifvélavirkja sem reyndist svo glíma við mikla óreglu. Í níu mánuði gátum við ekki fengið bílinn aftur í hendurnar og þegar við náðum honum loksins aftur til okkar var ljóst að best væri að selja jeppann og hugsa málið.“

Gunnella fer flestra sinna ferða hjólandi en eiginmaður hennar notar ýmist rafhlaupahjól eða strætó, en unglingurinn á heimilinu á Nissan Leaf-rafmagnsbíl sem hægt er að fá að láni. „Lendingin varð sumsé að hjálpa unglingnum að kaupa Nissan sem við foreldrarnir fáum stundum að nota og á meðan höldum við áfram leitinni að góðum jeppa sem gæti hentað fyrir veiðitúra.“

Hjólandi á háum hælum

Að komast á milli staða á rafmagnshjóli er ekkert mál, að sögn Gunnellu, og það jafnvel þó að hún búi í Hafnarfirði og þurfi reglulega að hjóla inn í Reykjavík. Hún komst upp á lagið með að hjóla þegar fjölskyldan bjó í Kaupmannahöfn í sjö ár og segir rafmótorinn hjálpa stórlega þegar takast þarf á við brattar brekkur í borgarlandslaginu eða hjóla með íslenska vindinn í fangið. Þegar tekur að frysta lætur Gunnella einfaldlega setja nagladekk undir hjólið sitt og er það þá eins og límt við veginn.

Gunnella segir í dag hægt að komast nokkuð greiðlega á hjóli um höfuðborgarsvæðið en þó séu enn gloppur í stofnleiðakerfi reiðhjólafólks. „Kópavogurinn er t.d. ekki mjög hentugur og einnig getur verið flókið að komast leiðar sinnar á hjóli þegar komið er yfir í Breiðholtið. Maður gerir það ekkert án þess að kanna fyrst heppilegustu leiðina á áfangastað.“

Að mati Gunnellu eru Íslendingar gjarnir á að mikla það fyrir sér að nota reiðhjól sem samgöngutæki. „Fólk heldur að það þurfi að græja sig svo mikið upp til að geta byrjað, en mér finnst langbest að hjóla í mínum hversdagsfötum og á hælaskóm ef því er að skipta. Ég set einfaldlega góðan hjálm á höfuðið, er með buff fyrir andlitinu og hanska á höndunum, og þarf ekki að komast í sturtu eða búningsklefa á milli ferða.“

Fullyrðir Gunnella að á þeim tímum dags sem umferðin er þyngst geti hún verið fljótari frá Reykjavík suður í Hafnarfjörð á hjóli en ef hún færi sömu vegalengd á bíl, og þá sé hjólið alltaf fljótara en strætó. „Það verður heldur ekki deilt um heilsuáhrifin en hreyfingin, súrefnið og sólskinið gera líkamanum gott og bæta geðheilsuna svo að ég finn greinilegan mun ef ég tek mér langt hlé frá hjólreiðunum.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson