Gosið Lengra gos eins og í Fagradalsfjalli, en grynnra á kvikuhólf.
Gosið Lengra gos eins og í Fagradalsfjalli, en grynnra á kvikuhólf. — Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
„Gosið sjálft hefur verið nokkuð stöðugt síðustu vikur,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, en bætir við að gosið hafi minnkað smám saman

„Gosið sjálft hefur verið nokkuð stöðugt síðustu vikur,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, en bætir við að gosið hafi minnkað smám saman.

„Flæðið fer hægt og rólega minnkandi, en ekki er hægt að sjá það á milli daga, því höfum við verið að skoða nokkrar vikur í einu. Það er samt ekki hægt að spá fyrir um endalok gossins eins og staðan er núna, þó við séum að færast nær því,“ segir Benedikt. Hann segir að skjálftahrinan á sunnudag styðji það að gosið hafi minnkað. „Á sama tíma og þetta er að gerast sjáum við aukið landris undir Svartsengi, sem rímar alveg við það að það er minnkandi flæði í eldgosinu. Hluti af kvikunni sem er að koma af dýpi safnast fyrir undir Svartsengi en gígurinn hefur ekki við öllu flæðinu.“

Gosið núna er meira í ætt við gosið í Fagradalsfjalli en gos síðustu mánaða, ekki síst hversu lengi það hefur staðið, en í dag er mánuður frá því að gosið hófst. „Það er að sumu leyti líkara, en í Fagradalsfjalli höfðum við samt aldrei svona grunnt kvikuhólf, heldur kom kvikan beint upp frá dýpinu,“ segir hann og bætir við að meiri rannsóknir þurfi til að sjá ástæðuna fyrir því. „Það eru öðruvísi aðstæður þarna undir Svartsengi sem gera jarðskorpunni kleift að safna í sig kviku, sem er sambærilegt t.d. í Öskju. En þessar aðstæður eru ekki til staðar í Fagradalsfjalli.“ doraosk@mbl.is