Raforkusala Fyrsta íslenska kauphöllin með raforku hefur nú verið opnuð.
Raforkusala Fyrsta íslenska kauphöllin með raforku hefur nú verið opnuð. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Fyrsta íslenska raforkukauphöllin var opnuð í gær, en það er fyrirtækið Vonarskarð ehf. sem mun annast rekstur hennar. Um miðjan desember sl. veitti umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið Elmu orkuviðskiptum ehf., sem er dótturfélag Landsnets hf., og Vonarskarði ehf

Fyrsta íslenska raforkukauphöllin var opnuð í gær, en það er fyrirtækið Vonarskarð ehf. sem mun annast rekstur hennar. Um miðjan desember sl. veitti umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið Elmu orkuviðskiptum ehf., sem er dótturfélag Landsnets hf., og Vonarskarði ehf. leyfi til að reka raforkumarkað hér landi.

Noregur sem fyrirmynd

„Við erum að fylgja þeirri þróun sem hefur átt sér stað í öðrum löndum eins og í Noregi en kauphöllin þar var opnuð fyrir tæpum fjörutíu árum og raforkumarkaðurinn sem við rekum er settur upp að þeirri fyrirmynd,“ segir Björgvin Skúli Sigurðsson framkvæmdastjóri Vonarskarðs í samtali við Morgunblaðið.

Kauphöllin mun að hans sögn miðla upplýsingum um verð frá níu raforkuheildsölum sem kaupendur geta séð og tekið ákvarðanir út frá. Stærsti raforkuheildsalinn, Landsvirkjun, ætlar ekki að taka þátt að svo stöddu, en Björgvin Skúli vonar að það muni breytast.

„Á Íslandi er komin upp sú staða að það mun verða skortur á rafmagni ef spár ganga eftir. Sem þýðir að notendur þurfa einhvern leiðarvísi um það hvert raforkuverð er fyrir þá sem koma til með að borga fyrir rafmagnið og taka ákvarðanir á þeim grunni,“ segir Björgvin Skúli, spurður nánar um þýðingu kauphallarinnar fyrir íslenska raforkumarkaðinn.

Tilbúin til notkunar

Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu orkuviðskipta, segir í samtali við blaðið að markaðstorg fyrir raforkuviðskipti sem fyrirtækið rekur sé tilbúið til notkunar. Að hennar sögn var markaðsaðilum kynnt lausnin í janúar sl. og voru febrúar og mars notaðir til að kynna vörurnar sem verða í boði á þeirra markaðstorgi. Þá stóð fyrirtækið að sýndaruppboði fyrir markaðsaðila nýlega.

Aðspurð segir hún að fyrirtækið bjóði markaðsaðilum upp á rafrænt markaðstorg sem er sjálfvirkt og er Elma í samstarfi við króatísku raforkukauphöllina Cropex sem á kerfið.

„Við erum búin að kenna markaðsaðilum á sjálfvirku lausnina okkar og markaðurinn er meðvitaður um hana. Það er ekki byrjað að miðla í okkar kauphöll en hún er tilbúin til notkunar,“ segir Kristín Olga.