Ingvi Rafn Jóhannsson, rafvirkjameistari og söngvari, fæddist 1. janúar 1930. Hann lést 13. mars 2024.

Hann var jarðsunginn 2. apríl 2024.

Jæja, nú ertu farinn vinur sæll, því færðu hér kveðjuna mína.

Árið 1951 hittumst við fyrst og höfum því verið vinir í 73 ár. Þá var ég fjósamaður og þú varst að vinna við rafmagn í Möðruvallakirkju. Ég fékk að fara með þér í bæinn til að hitta væntanlegt konuefni mitt, Hermínu Stefánsdóttur. Mikill vinskapur var hjá okkar fjölskyldum og samskipti mikil. Eitt sinn þegar við Hermína fórum til Flórída hittum við ykkur hjónin óvænt á Keflavíkurflugvelli án þess að vita af ferðaplönum hvert annars. Þá fuku brandararnir.

Mér er það minnisstætt þegar þú komst heim til mín að kvöldlagi til að biðja mig að koma í Karlakór Akureyrar sem ég svo gerði. Í þeim kór vorum við saman fjöldamörg ár og skemmtum okkur mikið. Fljótlega vorum við komnir í stjórn kórsins, þá stjórnaði Áskell Jónsson honum. Kórarnir voru sameinaðir 1990 og þú varst fyrsti formaðurinn. Við sungum stundum saman dúetta sem ég held að fólk hafi haft gaman af sem áheyrði. Við æfðum oft heima hjá þér bæði dúetta og annað.

Mörg voru þau dansiböllin sem þú spilaðir á með harmonikkunni þinni, sérstaklega á Melum í Hörgárdal. Við tókum stundum mars til að fá fólk til að dansa. Út á við og fleira. Stutt er á milli gleði og sorgar og sungum við sömuleiðis saman, ásamt öðrum, við margar útfarir, meðal annars hjá frændum og vinum.

Nú er komið að kveðjustund. Eftir langt og ánægjulegt lífshlaup ert þú kominn í sumarlandið vinur minn. Óska ég þínum börnum í sinni sáru sorg guðsblessunar. Sömuleiðis sendi ég öðrum ættingjum og vinum samúðarkveðjur. Far þú í friði kæri vinur og takk fyrir allt og allt. Bið að heilsa mínu fólki hinum megin. Ég kem svo aftur seinna.

Þinn frændi og vinur,

Hreiðar Aðalsteinsson
frá Ásgerðarstöðum.

Ingvi Rafn Jóhannsson var einn dyggasti Akureyringur, sem ég hefi kynnst. Hlutur Akureyrar mátti aldrei vera fyrir borð borinn að honum áheyrandi. Það hæfði hans félagshneigð vel að þrífast í bæ samvinnu og söngs. Fáa átti hann jafnoka í að sækja viðburði, fundi og tónleika. Þegar lög gleði og angurværðar ómuðu í eyrum hans þá var hrifningin einlæg, og stundum svo hjartnæm að glitti á tár. Ég held að bærinn okkar, Akureyri, hafi verið perlan í augum Ingva Rafns í fagurri skel Eyjafjarðar, eins konar hörpuskel.

Jóhann Ó. Haraldsson, faðir Ingva Rafns og þjóðþekkt tónskáld, samdi sönginn landskunna „Sigling inn Eyjafjörð“ við samnefnt ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Ég kveð Ingva Rafn vin minn og tek úr ljóðinu hendingar sem mér finnst að lýsi svo vel tilfinningu hans til okkar dýra fjarðar:

„Allt það, sem augað sér
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.“

Einnig:

„Þó finnst mér ást mín öll,
unaður minn og þrá
tengd við hin fögru fjöll,
fjörðinn og sundin blá.“

Að lokum færum við hjónin fjölskyldu og aðstandendum Ingva Rafns okkar einlægustu samúðarkveðju.

„Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.“

Jón Hlöðver
Áskelsson.