[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Líney Sigurðardóttir Þórshöfn

Sviðsljós

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

„Auðvitað kjósum við helst að geta gert út frá okkar heimabyggð en við sem fórum frá Raufarhöfn með útgerð okkar í fyrra erum nú í startholunum með hvað skuli gera. Mér finnst það gleymast í allri þessari umræðu um strandveiðar að þær skipta ekki bara sjómenn máli heldur líka hafnirnar sem þær eru stundaðar frá, strandveiðikerfi er ætlað að styrkja sjávarbyggðirnar allt í kringum landið og á kerfið ekki þróast með þeim hætti sem það er í dag, þ.e.a.s. að beina allri útgerð á einn eða tvo landshluta,“ segir Einar Sigurðsson á Raufarhöfn en smábátasjómenn á Norður- og Austurlandi hafa lengi talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda um breytingar á strandveiðikerfinu.

Reynslan sýnir að núverandi fyrirkomulag strandveiða viðheldur ójafnræði milli landshluta, eins og sjómenn á svæði C hafa margsinnis nefnt. Þeir benda á leið til réttlátari skiptingar sem er að hver strandveiðibátur fái ákveðinn dagafjölda og skipstjórar hafi á sínu valdi hvenær þeir nýti þá daga.

Þannig er komið í veg fyrir veiðikapphlaup allra strandveiðibáta landsins á sama tíma, með tilheyrandi slysahættu og ofurkappi en jafnframt stuðlað að jafnara og betra framboði afla til kaupenda á landinu.

Strandveiðar byrja almennt snemma á Suður- og Vesturlandi, fiskigengd er þar fyrr á vorin og hratt gengur þá á sameiginlegan „veiðipott“ landsins. Norður- og Austurland tilheyra svæði C og þar eru strandveiðar varla arðbærar fyrr en nokkuð er liðið á sumar eða í júlí-ágúst þegar stór og góður fiskur er genginn á svæðið, hann eltir jafnan ætið, síld og makríl. Ekki er þó á vísan að róa með veiðar á þessum fína fiski því mestar líkur eru á að strandveiðipotturinn verði þá fullnýttur, veiðiheimildir búnar.

Menn sjá sér þann kost vænstan að flytja útgerðina burt úr heimabyggðinni eins og dæmin sanna í sjávarplássum á Norður- og Austurlandi og er flóttinn þegar hafinn. Í fyrrasumar fóru fimm bátar frá Raufarhöfn. Sjávarplássin verða fyrir tekjutapi því strandveiðum fylgja ýmis afleidd störf og þjónusta við mannskap og báta.

Tillögur um leiðir til úrbóta

Þetta og margt fleira kom fram í samtölum við strandveiðisjómenn á svæðinu og hafa þeir Einar Sigurðsson á Raufarhöfn og Jóhann A. Jónsson frá Þórshöfn lagt fram tillögu til matvælaráðherra og atvinnuveganefndar Alþingis um leiðir til úrbóta. Þeir leggja til að fastur dagafjöldi verði settur á hvern strandveiðibát landsins og ráði skipstjóri hvenær hann nýtir sína daga. Þannig telja þeir að jafnræðis væri gætt og afli báta dreifðist jafnar yfir tímabilið, sem er bæði seljendum og kaupendum í hag. Þeir benda á að fyrirkomulagið um einn „pott“ í strandveiðum hafi ekki reynst vel heldur viðhaldið ójafnræði milli svæða. Það leiddi til byggðaröskunar og búferlaflutninga frá þeim svæðum þar sem strandveiðar hefjast seinna, einkum á Norður- og Austurlandi.

Í mars í fyrra lagði þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fram stjórnarfrumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (svæðaskipting strandveiða) en óeining var um málið og frumvarpið ekki samþykkt. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vildu leggja strandveiðar af en Landssamtök smábátaeigenda óskuðu eftir 48 veiðidögum. Ljóst er að hvorugt sjónarmiðið var raunhæft, telja þeir Einar og Jóhann. Miðað við óbreytt fyrirkomulag mun kerfið halda áfram að neyða sjómenn á Norður- og Austurlandi til að flytja frá sjávarþorpum sínum yfir til hagstæðari svæða, eins og þegar er að gerast, segja tillöguhöfundar að lokum.

Hrekjast frá heimabyggð

Smábátasjómenn á svæðinu telja kerfið meingallað og sagði Oddur Örvar þetta um málið: „Ég hef barist í mörg ár fyrir breytingum á kerfinu, tekið saman tölfræði og upplýsingar, bent bæði sveitarstjórnum svæðisins sem og ráðherrum á þessa mismunun en allir hafa daufheyrst. Ég sé ekki annan kost en að fara burt, hef lögskráð útgerðina frá Húsavík til Bolungarvíkur, tekjur mínar hafa dregist saman milli ára um meira en helming eða 64% en slíkur rekstur gengur ekki til lengdar. Það er galið að hafa opinn pott en lokuð svæði.“

Strandveiðar verði byggðastyrkjandi

Í sama streng tekur Guðmundur Baldursson frá Kópaskeri en hann er nú fluttur til Þorlákshafnar og gerir út frá Sandgerði.

„Það var annaðhvort að hætta alveg og selja eða flytja burt, kerfið á sinn þátt í því. Það vantar sanngirni í þetta; ef hugmyndin er sú að strandveiðar eigi að vera byggðastyrkjandi verkefni þá er það núna bara fyrir hluta af landinu, ekkert mið er tekið af aðstæðum hvers landshluta. Júní er yfirleitt ónýtur hér, maður rétt veiðir í soðið og í maí er nánast allt steindautt. Strandveiðar í einum potti hafa snúist upp í það að bara sé hægt að gera út frá einu svæði við landið enda sýnir tölfræðin að svæði C ber skarðan hlut frá borði á landsvísu.“

Mun strandveiðum ljúka sögulega snemma?

Niðurstaðan er sú að þessi þróun leiðir það af sér að strandveiðum ljúki fyrr en nokkru sinni áður þetta sumar. Bátar flykkjast á vænlegri svæði í byrjun vertíðar því ef menn ætla að ná tekjum inn á strandveiðar verða þeir að vera á öðru svæði en fyrir norðan og austan.

Höf.: Líney Sigurðardóttir