Ekki hefnd en eðlileg viðbrögð

Írönskum stjórnvöldum er augljóslega illa brugðið yfir úrslitum stórbrotinnar leiftursóknar þeirra á Ísrael, með tæknivæddum flaugum og drónum í hundraða tali. Langflestar flauganna voru skotnar niður fjarri skotmörkum sínum í Ísrael með varnarkerfum af fullkomasta tagi og varnarflaugum. Með ólíkindum er að ekkert manntjón hlaust af, en níu ára palestínskt stúlkubarn er í gjörgæslu á sjúkrahúsi eftir að brot úr árásarflaug hæfði hana.

Íran hefur áður látið sér nægja að láta málaliða sína og leppa í Jemen, Líbanon og Sýrlandi, auk hermdarverkasveita Hamas, vinna óhæfuverkin fyrir sig. Íranar vörðu gríðarlegum fjármunum til þessarar árásarbylgju, um langan veg, en það er Írönum þó huggun harmi gegn að mest af þeim fjármunum er hluti af framlögum sem Obama forseti dældi til stjórnarinnar í Teheran í þeirri barnalegu trú að hún léti þá af tilraunum til að koma sér upp kjarnorkuvopnum og af enn stærri og óskiljanlegum fjáraustri Bidens forseta til klerkastjórnarinnar. En Biden afhenti þeim skýringarlaust 6.300 milljónir dollara í þeirri von að það myndi draga úr áhuga Teheranstjórnar á að koma sér upp kjarnorkuvopnum! Aldrei hefur nokkur ríkisstjórn önnur keypt sér jafn risavaxinn kött í sekk. Með sama hætti hefur Íransstjórn aldrei hægt á áætlun sinni um að koma sér upp búri kjarnorkuvopna. Á hinn bóginn hafa þeir getað þakkað sínu almætti fyrir að hafa tryggt sér slíka jólasveina sem andstæðinga.

Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Jórdanía veittu Ísraelum mikilvæga aðstoð við að bregðast við þessari árás, en langstærsti hluti varnaraðgerðanna var í höndum stjórnvalda í Jerúsalem. Þegar þessari miklu bardagalotu lauk hafði Biden forseti strax samband við æðstu stjórn Ísraels og sagði það mat sitt að nú væri „rétt að fagna unnum sigri“ og sjá hverju myndi vinda fram! Það að skjóta niður 99% árásarflauga er auðvitað frábær árangur hjá Ísrael og þeim ríkjum sem lögðu þeim lið. En nú er lögð áhersla á að Ísrael megi ekki bregðast við þessum óhugnanlegu árásum þar sem þeir „unnu sigur“ með því að ná að farga nánast hverri einustu flaug. Í ljósi þess sigurs geti Ísrael sleppt því að hefna hinnar miklu árásar.

En frá Ísrael berast þau viðbrögð að Ísrael sé ekki og hafi aldrei hugsað til hefndaraðgerða. Hitt sé annað mál, að Ísrael hafi haft það sem ófrávíkjanlega stefnu og meginreglu að bregðast við tilefnislausum árásum á ríki sitt og hafi sá þáttur margsannað sig í baráttu landsins fyrir tilveru sinni. Ekkert verður á hinn bóginn tilkynnt um tímasetningu þessara ófrávíkjanlegu þátta fyrr en að þeim kemur. Hitt sé annað mál, að Ísrael hefur þurft að berjast fyrir tilveru sinni í næstum því 80 ár. Og það vill gleymast að fjölmörg fyrrverandi andstæðingaríki, sem hafa tekið þátt í stríðsaðgerðum gegn Ísrael, stundum mörg saman, hafa látið af því. Nú séu Ísrael og sum þessara ríkja í góðu samstarfi og þau taka ekki þátt í aðgerðum óvina Ísraels gegn því. Má í því sambandi nefna ríki eins og Egyptaland og Jórdaníu. Á milli þeirra og Ísraels ríkir bærilegur friður og þau taka ekki þátt í árásum á Ísrael.

Þegar Yitzhak Rabin var myrtur í Ísrael og var jarðsettur nokkrum dögum síðar (samkv. sérstakri undanþágu) sóttu margir leiðtogar landið heim og meðal þeirra var Hussein konungur Jórdaníu, sem hélt ræðu í útförinni sem vakti athygli og aðdáun. Egyptaland og Ísrael eru í eðlilegu sambandi og engin átök þar á milli. Það vakti athygli á sínum tíma þegar Anwar Sadat forseti Egyptalands sótti Ísrael heim og flutti m.a. ræðu í ísraelska þinginu Knesset.