Óli Sigurður Jóhannsson fæddist í Teigagerði við Reyðarfjörð 15. janúar 1933. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 31. mars 2024.

Foreldrar hans voru Guðný Björg Einarsdóttir, f. í Skriðdal 29. nóvember 1900, d. 10. júní 1978, og Jóhann Nikulás Bjarnason, f. á Reyðarfirði 27. apríl 1902, d. 5. febrúar 1969. Systkini hans eru Ástríður, f. 22. apríl 1924, d. 27. apríl 1925, Hlöðver, f. 29. nóvember 1925, d. 19. júlí 2022, Einþór, f. 17. febrúar 1930, d. 15. mars 2005, Unnsteinn, f. 3. september 1931, uppeldissystir Ólöf Guðbjörg, f. 13. desember 1936, d. 8. ágúst 2018.

Óli giftist 5. nóvember 1961 eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurveigu Jóhannsdóttur. Foreldrar hennar voru Jóhann Pétur Jóhannsson, f. 14. febrúar 1906, d. 19. ágúst 1984, og Ingunn Pierson Jóhannsson, f. 10. nóvember 1915, d. 1. júní 1990. Óli og Sigurveig hófu sambúð 1959, fyrst dvöldu þau á Finnsstöðum en fluttu á Reyðarfjörð 1961, þaðan fluttu þau svo í Kópavog 2021.

Börn þeirra eru: 1) Guðný Margrét, f. 17. júní 1961, maki Jörgen Rúnar Hrafnkelsson, dætur þeirra eru Hrefna Sif, f. 1988, og Sigrún Ísey, f. 1995. 2) Ingunn Heiðrún, f. 13. september 1963, maki Úlfar Kjartansson, börn þeirra eru Viktor Daði, f. 1997, og Sandra Mist, f. 2003. 3) Jóhann Bjarki, f. 6. janúar 1970, maki Sigurbjörg Sigurðardóttir, börn þeirra eru Andri Brynjar, f. 1991 (af fyrra sambandi), Óli Sigurður, f. 1996, Sigurveig, f. 29. janúar 1998, Ívar Darri, f. 24. ágúst 2006, og Eyja Dögg f. 1. október 2008.

Barnabarnabörnin eru sjö.

Óli stundaði sem ungur maður ýmis störf svo sem við byggingavinnu, skipaafgreiðslu og fór eina vertíð ásamt föður sínum til Vestmannaeyja ásamt ýmsu öðru. Hann hóf störf hjá Vegagerð ríkisins 1958 sem bílstjóri og tækjamaður. Þar starfaði hann uns hann lét af störfum vegna aldurs árið 2003.

Útför Óla fer fram frá Lindakirkju í dag, 16. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, það er skrítið að hafa þig ekki lengur hjá okkur, tómlegt að koma í Boðaþingið og þú ekki á vappi með grindina þína eða sitjandi í stólnum þínum. Sjá ekki fallega brosið þitt þegar við vorum að spjalla eitthvað og umræðan fór á flug.

Það er margs að minnast en erfitt að koma því frá sér á blað.

Þið mamma voruð dugleg að fara í útilegur með okkur krakkana þegar við vorum ung. Þá var tjaldað á hinum ýmsu stöðum, við bæjarlæki eða í fallegum lautum. Í minningunni var alltaf sól og gott veður í þessum ferðum okkar.

Eftir að ég fór suður var ansi löng leið á milli okkar en ég kom austur í flestum fríum til að heilsa upp á ykkur mömmu. Fyrstu árin ein, en síðan með fjölskyldu mína og alltaf tókuð þið vel á móti okkur. Við fórum oft saman í ferðalög eða í sumarbústaði, þú vildir sýna okkur ýmsa staði sem þú vissir að við hefðum ekki skoðað og hafðir gaman af að fara með okkur á. Þegar þið voruð búin að koma ykkur fyrir á „frímerkinu“ komum við nokkrum sinnum með fellihýsið okkar og vorum með ykkur þar, sem var yndislegt því að sjálfsögðu er alltaf besta veðrið fyrir austan. Þegar þið komuð í heimsókn suður til okkar reyndum við að fara eitthvað um Suðurlandið með ykkur þótt ekkert hafi verið nýtt fyrir ykkur sem voruð búin að fara vítt og breitt um landið. Við fórum einu sinni öll saman til Spánar og var mjög gaman að hafa ykkur mömmu með í þeirri ferð og ég held að þið hafið ekki síður notið þess. Þar keyrðum við um og nutum þess að vera í hitanum og gera vel við okkur í mat.

Við Úlfar erum ævinlega þakklát fyrir alla þá hjálp sem þú veittir við byggingu hússins okkar. Það voru ófáar klukkustundirnar sem þú varst með okkur í þessu, þá kominn á eftirlaun en slóst hvergi slöku við.

Þegar árin færðust yfir og heilsu þinni fór að hraka fluttuð þið mamma suður og í nágrenni við okkur. Það var gott að hafa ykkur svona nálægt, geta átt fleiri samverustundir með ykkur og veitt ykkur þá aðstoð sem þið þurftuð.

Það er sárt að kveðja þig elsku pabbi, takk fyrir öll árin okkar saman.

Hvíl í friði.

Þín

Ingunn (Inga).

Elsku pabbi, þá er komið að kveðjustund. Þegar ég settist niður og rifja upp þá kemur margt upp í hugann til að skrifa um en að koma orðum að því er erfitt. Ég var ekki gamall þegar ég fór að fara með þér í ýmsar ferðir á vörubílnum víða um land og voru þær margar mjög eftirminnilegar. Ég kem til með að búa að þeirri reynslu um ókomna tíð og má kannski segja að ég hafi að stórum hluta alist upp í bílnum hjá þér… það teygðist nefnilega stundum úr ferðunum. Svo má ekki gleyma öllum útilegunum sem farið var í með okkur systkinin út um allt land. Þetta voru mjög skemmtilegar ferðir og komu stundum upp mörg skemmtileg atvik og ýmislegt var brallað. Samverustundirnar á þessum yngri árum mínum voru því margar með þér.

Svo líður tíminn og ég flyt að heiman, þá óneitanlega fækkar þeim stundum. Alltaf var samt haft samband, eða við hittumst þegar ég kom austur sem var mjög reglulega þar sem ég vann við akstur fyrstu árin og þá komu sér vel allar sögurnar sem þú varst búinn að segja mér í gegnum árin. Þegar þú varst svo hættur að vinna þá varstu svo sem ekki hættur því að þá þurftir þú að hafa eitthvað fyrir stafni og varst því manna fyrstur til að koma og aðstoða okkur þegar þurfti eða að þér fannst að við þyrftum aðstoð, því þér fannst það sjálfsagt mál að aðstoða börnin þín og fjölskyldur. En nú finnst þér komið nóg.

Það er samt ekki hægt að hætta. Mér er minnisstæð ferð til Torrevieja sem þið mamma komuð í með okkur fjölskyldunni ásamt Ingu og fjölskyldu, því það að fara til útlanda fannst þér ekki gaman. En ferðin var samt góð og þér fannst þetta bara gott og þú naust þess að vera í hitanum. En svona í lokin þá er ekki hægt að sleppa tveimur ferðum sem þú fórst með mér Sibbu og krökkunum til Torrevieja í íbúðina okkar um jólin 2018, og svo þegar þið mamma ákváðuð að vera í fimmtugsafmælinu mínu sem haldið var á Spáni. Það er sennilega eitt af því sem ég gleymi ekki.
Elsku pabbi síðasta ár reyndist þér erfitt þegar heilsunni fór að hraka en það er eitt af því sem gerist og við höfum lítið með að gera. Síðustu dagarnir reyndust þér erfiðir en það var samt mjög gott fyrir okkur Ingu að fá að vera hjá þér og halda í höndina á þér þegar þú tókst síðustu andardrættina. Minningin um þig mun lifa með okkur og söknuðurinn er sár. Við munum hugsa um mömmu fyrir þig. Góða ferð í sumarlandið.

Jóhann Bjarki Ólason (Jói).

Það er margs að minnast núna þegar tengdapabbi er fallinn frá.

Við hjónin fórum austur á Reyðarfjörð eins oft og við gátum til að heimsækja tengdaforeldra mína og það var alltaf gott að koma til þeirra. Heimili þeirra bar þess merki að Óli var vinnusamur og vandvirkur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Óli sóttist ekki eftir athygli eða því að vera í sviðsljósinu en hann lagði metnað sinn í að hafa umhverfi sitt og sínar eigur snyrtilegar, hann fór vel með hluti og gætti þess að halda þeim í góðu lagi. Gilti einu hvort það var heimilið eða bíllinn.

Við hjónin fórum með tengdaforeldrum mínum til Spánar fyrir nokkrum árum og áttum ánægjulegar stundir með þeim þar. Það var ánægjulegt að sjá hversu vel hann naut þess að ferðast og vera í hlýjunni og sólinni.

Þegar við hjónin fórum að byggja var ómetanlegt að eiga hann að. Hann var með okkur í þeim framkvæmdum frá byrjum og þar áttum við margar góðar stundir saman. Skipti engu hvert verkefnið var, alltaf var hann tilbúinn að hjálpa til og lagði sig allan í verkin. Hann var heilsugóður fram eftir aldri og hlífði sér ekki ef þannig stóð á. Þegar við Óli vorum að smíða þakkantinn vorum við í eitt skipti á vinnupalli í 6-7 metra hæð utan á húsinu og þurfti Óli þá að sækja einhver verkfæri. Þar sem ég stóð á lúgunni en hann til hliðar, þá vissi ég ekki fyrri til en Óli var búinn að sveifla sér út fyrir grindverkið og klifraði niður vinnupallinn að utanverðu. Hann hefði eflaust komið aftur upp sömu leið ef ég hefði staðið áfram á lúgunni. Flestum hefði þótt þetta glannalegt en þarna var áttræður maður að flýta sér og fannst þetta ekki tiltökumál.

Um svipað leyti höfðu þau hjónin ásamt fleirum gert sér aðstöðu fyrir hjólhýsi sitt á Finnsstöðum í Eiðaþinghá, þar sem gott útsýni var yfir héraðið. Þar útbjuggu þau 100 fm stæði sem gat auðveldlega nýst fyrir tvö til þrjú ferðatæki. Sú vinna var að miklu leyti á hendi þeirra hjóna. Var það allt unnið af handafli og alúð lögð í starfið. Sást þar vel hversu vandvirkur og smekkvís Óli var. Þótt aldurinn væri farinn að færast yfir þá hlífði hann sér ekki og vann þau verk sem þurfti. Áttu þau eftir að dvelja mörgum stundum þarna á „frímerkinu“ á Finnsstöðum á næstu árum og þar undi hann sér og naut sín vel.

Í dag kveð ég Óla og þakka fyrir samverustundir á liðnum árum.

Úlfar Kjartansson.

Elsku afi, við sitjum hér og hugsum til þín og allra minningana sem koma upp í hugann um tímann sem við eyddum með þér í gegnum árin. Sum okkar áttu meiri tíma með þér en önnur, enda 17 ár á milli elsta og yngsta barns í okkar systkinahópi. Öll eigum við þó minningar sem eiga eftir að lifa með okkur um ókomna tíð og kalla fram hlýju og kærleika í hjörtum okkar. Við bjuggum í Reykjavík og þið amma á Reyðarfirði svo nýta þurfti tímann vel þegar við komum í fríum eða yfir hátíðir. Þeir voru ófáir göngutúrarnir. Sumir innan bæjarmarka á meðan aðrir voru út um grænar grundir. Má þar helst nefna fossinn fyrir ofan bæinn, rúntað upp í Finnstaði og þegar farið var inn í Grænafell í berjamó með fulla körfu af allskonar kræsingum, bæði smurðu og heimabökuðu sætabrauði. Það var reyndar amma sem sá um nestið. En þannig var þetta, þið voruð svolítið ein heild, þú og amma.

Elsku afi, seinustu dagarnir á þessari jarðvist voru þér erfiðir og langir. Þín bíða örugglega verkefni á öðrum stað sem tengjast bílaþvotti, ruðningsvélum eða öðrum farartækjum, en þar leið þér vel. Góða ferð.

Andri Brynjar, Óli
Sigurður, Sigurveig,
Ívar Darri og Eyja Dögg.