Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Einar Þorsteinsson borgarstjóri telur eðlilegt að byggingarheimildir í borginni verði tímabundnar.
Tilefnið er sala Þorpsins 6 ehf., dótturfélags Þorpsins vistfélags, á byggingarheimildum á Ártúnshöfða. Forsaga málsins er sú að Árland, félag tengt Gamma, undirritaði samninga við borgina sumarið 2019 um uppbyggingu á svæðinu. Árland seldi síðan 80 þúsund fermetra af byggingarrétti til Þorpsins á 7,4 milljarða í lok októbermánaðar 2021. Nú, tveimur og hálfu ári síðar, hefur Þorpið selt þessi réttindi til Skugga 4 ehf. á 11 milljarða.
Áslaug Guðrúnardóttir, stjórnarformaður Þorpsins vistfélags, harmaði söluna í samtali við Morgunblaðið enda myndi félagið ekki geta fylgt eftir félagslegum áherslum sínum við uppbyggingu í hverfinu. Þorpið hafi haft fleiri áherslur að leiðarljósi en hrein hagnaðarsjónarmið.
Fulltrúi Skugga tók fyrir helgi boði um að koma í viðtal vegna viðskiptanna en síðan heyrðist ekki meira frá honum.
Hefur reynslu af því að byggja
Þegar lóðir ganga kaupum og sölum myndast að óbreyttu álagning á óbyggðar íbúðir sem fjárfestar þurfa að hafa til að viðskiptin gangi upp. Hver er þín skoðun, borgarstjóri, á að lóðarhafar segi sig á þennan hátt frá verkefnum og innheimti í staðinn skammtímahagnað?
„Mér finnst það skipta mestu máli að þeir sem kaupa hjá okkur lóðir byggi á þeim hratt og örugglega falleg og góð hverfi fyrir íbúa í borginni. Það geta verið gild sjónarmið fyrir því að svona lóðir gangi kaupum og sölum. Sumir eru í því að kaupa og þróa lóðir og setja mikla fjármuni í þróun deiliskipulags, hönnun og fleira og svo skapast þær aðstæður að þeir sjái frekar hagsmuni sína í því fólgna að selja þær frá sér. Ég þekki ekki til sjónarmiðanna að baki því að þessi lóð var seld. Þarna er hins vegar verktaki að kaupa lóðir sem hefur byggt talsvert í borginni og ef þetta þýðir að þarna fari uppbygging hratt og örugglega af stað getur það verið mjög jákvætt.
Hyggst ræða við lóðarhafa
Ég hyggst reyndar setjast niður með þessum aðilum fljótlega og heyra í þeim varðandi þeirra áform. Það er kannski ágætis vísbending um áhuga markaðarins á Ártúnshöfðanum að verið sé að greiða gott verð fyrir uppbyggingarheimildirnar og það gleður mig að sjá að þarna séu komnir aðilar sem eru tilbúnir að veðja á Höfðann.“
Nú má halda því fram að slík lóðasala endi þegar upp er staðið í söluverði íbúðanna, þótt vissulega kunni nýir eigendur að finna hagkvæmari leiðir til að byggja. Hvað ef slík viðskipti leiða til þess að íbúðaverð hækkar?
„Ég er ekki hlynntur því að byggingarlóðir gangi kaupum og sölum og að það leggist ofan á þær mikill kostnaður sem endar síðan á íbúðakaupendum. Það er þvert á markmið okkar um húsnæðisuppbyggingu en við erum að reyna að stuðla að því að byggt sé fyrir lágtekjuhópa og að sem flestir eigi greiðan aðgang á húsnæðismarkaðinn. Það er alveg klárt. Ég hef líka stutt áform stjórnvalda um að setja tímatakmörk á byggingarheimildir.“
Ákveðið áhyggjuefni
Hversu raunhæft er að framboð skapist af ódýrum íbúðum í Reykjavík á meðan takmarkaðar byggingarlóðir eru eins og hver önnur fjármálaafurð?
„Það er ákveðið áhyggjuefni en Reykjavíkurborg hefur bent á það nokkuð lengi að nú væri hægt að byggja 3.000 íbúðir á lóðum sem eru byggingarhæfar. Og í höndum einkaaðila. Við getum því skipulagt margar lóðir og selt en svo þegar þær eru komnar úr okkar höndum getum við haft takmörkuð áhrif á byggingarhraðann. Þetta þarf að skoða. Það er hægt að byggja gríðarlega margar íbúðir á lóðum sem eru nú byggingarhæfar. Þannig að ég hvet þá sem halda á þessum lóðum til að byrja að byggja.“
Nú er Ártúnshöfðinn tengdur fyrirhugaðri borgarlínu. Kemur til greina, að þínu mati, að fyrirhugaðir lóðarhafar í Keldnalandi, sem einnig verður tengt borgarlínu, geti keypt og selt lóðir, og þar með aukið álagninguna í hverju skrefi, líkt og gert var á Höfðanum?
„Nú á eftir að semja um sölu lóða í Keldnalandinu. Þar munu gilda samningar sem ríki, sveitarfélögin og Betri samgöngur eiga eftir að ganga frá. Þannig að það er ótímabært að fara að úttala sig um hvernig því verður háttað. Það er ekki alveg komið að því.“
En þú varst að lýsa því að þú værir hlynntur því að byggingarheimildir væru tímabundnar. Telurðu að það ætti að eiga við í Keldnalandi?
„Ég tel vert að skoða það.“
Ákvæðin enn í gildi
Fulltrúar Þorpsins vistfélags hafa boðað félagslegar áherslur í uppbyggingu á húsnæði. Þar með talið á svonefndum brunareit á Bræðaborgarstíg, sem átti að vera kvennahús, og í miklu meira mæli á Höfðanum. Nú hefur Þorpið horfið frá þessum áformum. Hvað finnst þér um það, borgarstjóri?
„Ég vil benda á að þeir samningar sem borgin gerði við Þorpið um hlutfall hagkvæms og félagslegs húsnæðis eru í gildi og að öll þau ákvæði fylgja yfir til nýs eiganda,“ segir Einar.
Með því vísar borgarstjóri til ákvæða um félagslega blöndun og að 20% íbúða í hverfum borgarinnar verði leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða og/eða íbúðir fyrir aldraða og að Félagsbústaðir eigi kauprétt að um 5% íbúða.
Ótímabær umræða
Staðan hjá leikskólum víða góð
Hinn 9. apríl sl. sagði í frétt í Morgunblaðinu að nú bíði 1.327 börn eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Gera megi ráð fyrir því að yfir 500 börn fái ekki leikskólapláss í haust.
Spurður um biðlista á leikskólum borgarinnar segir borgarstjóri að þessar tölur séu nú á mikilli hreyfingu enda sé verið að innrita börn í skólana.
„Það er svolítið skrýtið að ræða um biðlista á þessum tímapunkti af því að við erum með umsóknir í vinnslu. Til dæmis gæti þriggja ára barn sem er að færa sig til borgarinnar, eða milli leikskóla, verið flokkað sem barn á biðlista. Það er eiginlega ekki hægt að ræða um biðlista fyrr en við erum búin að úthluta plássunum og sjáum hvaða hópur verður á biðlista,“ segir Einar og minnir á að borgin sé með langstærsta leikskólakerfið í landinu. Ástandið sé ekki nógu gott í Laugardalnum og í Vesturbænum en í mörgum öðrum hverfum „sé staðan ágæt og sambærileg og í öðrum sveitarfélögum“ sé miðað við inntökualdur. „Við erum með leikskólamálin í algjörum forgangi þegar kemur að fjárfestingum en mönnun leikskólanna er sífellt áhyggjuefni,“ segir Einar.