Ég skellti mér í klippingu um daginn og klipparinn minn spurði mig hvort ég væri eitthvað að fylgjast með UFC. Fyrir þá sem þekkja ekki til þá er UFC stærsti vettvangur í heimi þar sem keppt er í blönduðum bardagalistum

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Ég skellti mér í klippingu um daginn og klipparinn minn spurði mig hvort ég væri eitthvað að fylgjast með UFC. Fyrir þá sem þekkja ekki til þá er UFC stærsti vettvangur í heimi þar sem keppt er í blönduðum bardagalistum.

Ég fór strax að hlæja og svaraði neitandi. Ég hef engan tíma til þess að fylgjast með UFC, því miður, sagði ég við klipparann minn sem var furðulostinn. Það er víst hægt að horfa á endursýningar af bardögunum strax daginn eftir á Youtube tjáði hann mér. Sama svar hjá mér. Ég hef ekki tíma.

Apríl- og maímánuður eru líklegast skemmtilegustu mánuðir ársins fyrir íþróttaáhugafólk. Úrslitakeppnin í bæði handboltanum og körfuboltanum er í fullum gangi og á sama tíma er Besta deild karla í fótbolta byrjuð að rúlla með miklum látum. Besta deild kvenna byrjar svo að rúlla líka um næstu helgi.

Það voru líka landsleikir í síðustu viku, kvennalandsliðið í eldlínunni, og kollegi minn á íþróttadeildinni, sem hefur starfað sem íþróttafréttamaður í yfir 40 ár, hafði orð á því að hann rámaði ekki í jafn fjörugan mánuð í sportinu á öllum sínum starfsferli. Það segir manni ýmislegt.

Það eru þvílík forréttindi að vinna og starfa við það sem vekur áhuga manns. Það er í rauninni alltaf gaman í vinnunni. Engir tveir dagar eru eins. Fjölbreytnin er mikil og þó margir hafi reynt er engin leið að segja til um það hvernig kappleikur á Íslandi, sérstaklega á Íslandsmótinu í fótbolta, eða í úrslitakeppnunum, fer.

Við almenna íþróttaáhugamenn segi ég einfaldlega góða skemmtun. Á sama tíma vorkenni ég alltaf þeim sem hafa engan áhuga á íþróttum, sérstaklega í apríl og maí.