Margrét Gísladóttir fæddist 19. júlí 1928. Hún lést 10. mars 2024.

Útför hennar fór fram 12. apríl 2024.

Vegna mistaka við vinnslu þessarar minningargreinar sem birtist sl. föstudag er hún birt aftur.

Morgunblaðið biður hlutaðeigandi velvirðingar á mistökunum.

Elsku Magga amma mín, ég á nú svolítið erfitt með að trúa því að þú sért nú farin frá okkur, en ég er samt svo fegin að þú sért komin á betri stað og fáir þína hvíld. Þær eru ófáar minningarnar sem við höfum átt saman síðastliðin 25 árin, en þær eru of margar til að segja frá hér.

Minnisstæðust eru öll þau skipti sem við systur komum til þín á Þinghólsbrautina, þar sem við slógumst um hver okkar fengi að sitja í öðrum brúna stólnum og hver fengi að leika sér á fótskemlinum, þú fékkst auðvitað alltaf að sitja í þínum brúna stól.

Við systur fengum oft að fara fram í þvottahús með þér að sækja dót og var það mikið sport, jú og auðvitað var alltaf til nóg af kexi eða kökum í eldhúsinu.

Við Harpa Sól fórum líka með ömmu Auju í heimsókn til þín síðsumars 2022, þá tókum við litla chihuahua-hundinn okkar hann Fenri með okkur. Þú varst ekkert alltof hrifin af honum og spurðir hvað þetta væri eiginlega, við svöruðum að þetta væri hundur, þú varst fljót að svara að það gæti ekki verið því hann væri alltof lítill til að vera hundur.

Það var erfitt fyrir mig að fara upp á deild á Hvammstanga og kveðja þig vitandi að þú værir að fara en það var samt sem áður svo gott að sitja þér við hlið haldandi í hönd þína og strjúka þér um vanga og hugsa um allar okkar æðislegu stundir síðustu ára vitandi að þú værir á leiðinni á betri stað þar sem ég trúi að afi bíði þín.

Guð sá að þú varst orðin þreytt
og lækningu var ekki að finna.
Svo að hann setti hendur sínar um þig
og hvíslaði, „komdu til mín“.

Með tár í augum horfðum við á þig
og sáum þig í burtu fara.
Þótt við elskum þig óendanlega mikið
þá gátum við ekki leyft þér að vera.

Hjarta úr gulli hætti að slá.
Vinnusamar hendur komnar í hvíld.
Guð braut hjörtu okkar til að sanna fyrir okkur
hann taki aðeins þau bestu.

(Höf. Frances M. Coelho.
Þýð. Berglind B. Guðmundsdóttir)

Ég mun alltaf elska þig og þykja vænt um þig og þín verður svo sannarlega sárt saknað.

Takk fyrir allar samverustundirnar síðustu 25 árin.

Hvíldu í friði elsku amma mín, guð geymi þig.

Þín langömmustelpa,

Berglind Birta
Guðmundsdóttir.