Fannfergi Snjóþungt er nú víða á Norðausturlandi og ljóst að ekki verður keyrt eftir túnunum á næstunni.
Fannfergi Snjóþungt er nú víða á Norðausturlandi og ljóst að ekki verður keyrt eftir túnunum á næstunni. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef oft séð meiri snjó en það hefur bætt mikið á undanfarið eftir nokkuð snjóléttan vetur. Mér sýnist að það verði ekki keyrt eftir túnunum á næstunni. Ef fram heldur sem horfir þá er þetta ekki farið alveg strax

Viðtal

Atli Vigfússon Laxamýri

„Ég hef oft séð meiri snjó en það hefur bætt mikið á undanfarið eftir nokkuð snjóléttan vetur. Mér sýnist að það verði ekki keyrt eftir túnunum á næstunni. Ef fram heldur sem horfir þá er þetta ekki farið alveg strax. Háþrýstisvæðið yfir Grænlandi veldur því að hér hlýnar ekki að gagni og áttirnar eru alltaf norðaustlægar.“

Þetta segir Jón Hermann Hjaltason bóndi á Hjaltastöðum í Þingeyjarsveit. „Það er ekkert nýtt hér að það snjói og ég man eftir nokkrum snjóþungum vetrum. Það má nefna árið 1990 þegar hér var allt á kafi um 20. apríl. Þá má nefna veturinn 1995 og vorið 1989 þegar allt var hér í fönn um páskana. Þá man ég eftir því líka að hafa þurft að grafa plóginn minn upp úr snjó þann 20. maí,“ segir Jón en hann man líka eftir hafísárunum sem voru mikil erfiðleikaár í Þingeyjarsýslum. Það var á tímabilinu 1967-1968 með miklum kulda og fannfergi. Árið 1966 var einnig mjög snjóþungt. Hins vegar var vorið 1969 gott þá er Jón fermdist 15. júní. Allt var grænt og tré fulllaufguð.

Jón segir ljóst að þetta tíðarfar núna muni seinka vorverkum en oft hefur verið hægt að keyra húsdýraáburði út í apríl þegar vel hefur árað. Jón er farinn að huga að haugsugunni en hann er búinn að moka frá henni svo hún verði tilbúin þegar gefur. Og svo eru allar girðingar á kafi og ekki vitað hvernig þær koma út undan farginu af snjónum. Í byrjun mars héldu margir að girðingar myndu sleppa vel þennan veturinn en nú er raunin önnur. Ljóst er að mikið verk verður að hengja þær upp þar sem þær hafa sligast.

Þótt mikill snjór sé í Köldukinn þá er einnig mjög mikið af snjó í Fnjóskadal og Ljósavatnsskarði. Þar hafa fallið snjóflóð nokkuð víða og svo dimmt hefur verið í verstu veðrunum að ekki hefur sést á milli stika á þjóðveginum. Raunar eru þetta þrjú margra daga hret sem hafa komið þ.e. þegar úrkoman hefur verið hvað mest og norðaustanáttir verið hvassar og renningskóf mikið. Það eru að verða fjórar vikur sem veðráttan hefur verið heldur leiðinleg og þess vegna er marga farið að lengja eftir góðu og hlýju veðri. Gæsirnar eru komnar norður en þær sitja bara á sköflunum og bíða betri tíðar, en ekkert gras er að hafa á nýræktum bænda þegar svona árar.

Það er lítið hægt að gera annað en bíða og vona. Sumartunglið kviknaði 8. apríl sl. og sumardagurinn fyrsti er ekki langt undan. Sólin er hátt á lofti en það nægir ekki alltaf þegar þrái kemur í veðráttuna. Jón á Hjaltastöðum er samt bjartsýnn á að ekki verði mikið kal hjá honum þar sem svell voru ekki svo mikil á túnunum þegar versnaði. Hins vegar eru bændur í Aðaldal og á fleiri svæðum hræddir um að tún komi ekki nægilega vel undan vetri en það mun skýrast þegar nær dregur vori. Jón á Hjaltastöðum er með skóflu í hendi og tilbúinn að moka sig inn í fjósið í einhverja daga enn, en mikil vinna hefur farið í að hreinsa snjóinn frá útihúsunum. Hann á góðar vélar og þjóðvegurinn er skafinn alla daga. Menn eru ekki lokaðir inni vikum saman eins og í gamla daga. Það skiptir miklu máli.