Brynhildur Bjarnadóttir fæddist 26. mars 1946 á Patreksfirði. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 25. mars 2024.

Foreldrar Brynhildar voru Bjarni Hermann Finnbogason, f. 27. júlí 1920, d. 31. desember 2006, og Guðrún Margrét Jónsdóttir, f. 29. september 1913, d. 17. nóvember 1971. Systkini Brynhildar eru Ólafur Kristinn, f. 1948, d. 2021, Guðbjörg Jóna, f. 1950, Anna Sigrún, f. 1951 og Kristjana Magndís, f. 1954.

Eftirlifandi maki Brynhildar er Guðmundur Benóný Aðalsteinsson, f. 5. október 1936. Dætur þeirra eru: 1) Steinunn Alda, f. 1970, hennar börn eru Bryndís og Guðmundur Bjarni. Maki er Unnsteinn Líndal Jensson og eru hans börn Íris, Ægir, Óðinn og tvö barnabörn. 2). Margrét Drífa, f. 1971, maki Ágúst Guðjónsson. Þeirra börn eru: Ásdís, Brynhildur, Helena, Katrín og Benóný. 3) Fanney Dröfn, f. 1973, maki Gaute Stray Jensen. Þeirra börn eru Sindri, Marín og Maríus.

Brynhildur ólst upp í Arnarfirði , fyrst í Fremri-Hvestu til sex ára aldurs og síðan í Hringsdal til 12 ára aldurs. Árið 1958 flutti Brynhildur ásamt foreldrum og systkinum til Patreksfjarðar. Þar bjuggu þau í Bræðraborg til ársins 1966 og fluttu þá á Digranesveg í Kópavogi. Brynhildur lauk grunnskólagöngu sinni á Patreksfirði og eftir grunnskólann fór hún í Reykholt í Borgarfirði.

Brynhildur og Guðmundur hófu sinn búskap í Kópavogi. Árið 1971 fluttu þau í norðurbæ Hafnarfjarðar og voru með þeim fyrstu er byggðu sér raðhús á Miðvangnum og bjuggu þar allar götur síðan.

Brynhildur var heima-vinnandi þegar dæturnar voru litlar. Seinna stundaði hún ýmis störf og tengdust þau flest eldamennsku sem hún hafði mikinn áhuga á. Hún var myndarleg í allri matargerði. Síðar settist hún á skólabekk og útskrifaðist sem matsveinn árið 2008.

Brynhildur og Guðmundur voru virk í Húsbílafélaginu og ferðuðust víða með þeim bæði innanlands og utan, auk þess sem þau fóru sjálf mikið til útlanda. Hún var einnig virk í Barðstrendingafélaginu á árum áður. Spilavist og handavinna voru hennar helstu áhugamál. Hún prjónaði mikið og saumaði bæði á börn og barnabörn.

Útför Brynhildar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 16. apríl 2024, klukkan 15.

Hæ, ég er að koma í bæinn, verðið þið heima? Svona byrjuðu símtölin oft. Mamma hélt það nú og spurði hvað hún ætti að elda. Mamma var snillingur í eldhúsinu. Henni fannst gaman að elda, bauð í mat og hélt stórar veislur fyrir aðra. Henni þótti vænt um karlana sína í denn sem kunnu sko að taka til matar síns. Uppáhaldið mitt er Kínarétturinn. Ég hef reynt að elda hann en næ honum bara ekki eins og mamma. Að biðja hana um uppskrift var ekki einfalt því þá kom bara slatti af þessu, dass af hinu og slurkur af einhverju. Þannig voru bara uppskriftirnar hennar mömmu.

Þó svo ég hafi flutt að heiman 1997 þá fer ég samt ennþá heim á Miðvanginn. Þar var gott að alast upp. Húsið sem þau byggðu og kláruðu hægt og rólega. Leikir í hverfinu og frelsi. Ég seinkaði klukkunni en mamma sá nú í gegnum það strax. Uppátækin alls konar og alltaf bjargaði mamma mér. Mamma og pabbi studdu okkur systur í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Kenndu okkur að bjarga okkur, vinna, læra og voru alltaf til staðar ef á þurfti að halda.

Hér liggja lopapeysurnar eftir mömmu. Það var hægt að leggja inn pöntun og innan skamms var peysa tilbúin. Katrín mín lítil skotta vildi appelsínugula lopapeysu, það þótti mömmu undarlegur litur á lopapeysu. Helena hannaði hjartamunstur og auðvitað reddaði mamma því. Hún bæði saumaði og prjónaði á okkur systur þegar við vorum litlar. Svo voru það glansskyrturnar og apaskinnsgallarnir, fermingarfötin og stúdentadragtin, þetta lék í höndum hennar.

Börnin mín hafa notið þeirra forréttinda að fá að alast upp með ömmu og afa. Þau gistu stundum á Miðvanginum og elstu stelpurnar voru svo heppnar að ferðast mikið með þeim í húsbílnum um allt land. Það voru dekurferðir. Mamma spilaði mikið við krakkana og þá helst rommý og rússa. Stundum var rommý-keppni. Ég spilaði mikið við mömmu þegar ég var stelpa og alltaf náði hún upp úr mér hvað ég var með á hendi.

Berjatínslan eitt áhugamálið hjá foreldrum mínum, þau voru atvinnumenn í faginu. Þau mokuðu upp tugum lítra á engum tíma. Þetta var gott áhugamál sem ég græddi á. Ég nenni nefnilega ekki í berjamó og mikið var ég alltaf þakklát þegar þau komu færandi hendi.

Mamma hafði nú skoðanir á hinu og þessu og það var ekki hægt að snúa henni neitt þrátt fyrir ýmsar röksemdarfærslur. Hún var húmoristi, var með svolítið svartan húmor að stundum þótti manni nóg um. Þrátt fyrir allt síðustu mánuði þá missti hún ekki húmorinn og skaut fast stöku sinnum.

Það var gott að fá mömmu austur síðustu vikurnar sem hún lifði. Ég kom oft við, gjarnan eftir kvöldmjaltir og tók einn kaffibolla með mömmu fyrir svefninn. Það var gott. Stundum spjölluðum við. Stundum sátum við bara. Stundum svaf mamma. Að vera hjá henni var nóg. Þessir síðustu mánuðir hafa verið erfiðir. En nú er mamma flogin, laus við fjötrana eins og hún orðaði það sjálf vikuna áður en hún kvaddi. Held hún hafi verið tilbúin.

Hafðu þökk fyrir allt, elsku mamma mín, og svífðu nú um.

Þín dóttir,

Margrét Drífa.

Elsku tengdamóðir mín Brynhildur Bjarnadóttir er farin á önnur tilverustig. Við kynntumst fyrir 30 árum þegar ég fór að gera mig heimakominn í Miðvanginum og voru móttökurnar strax góðar og veitingarnar ekki af verri endanum. Gaman var að ræða við hana um æskuna fyrir vestan þegar foreldrar hennar bjuggu í Hringsdal í Arnarfirði. Þar voru þau með sauðfjárbúskap sem hún tók þátt í af lífi og sál og þótti einstaklega fjárglögg strax sem barn. Henni var einstaklega hlýtt til heimahaganna og tókum við oft snerrur um hvort væri að betra að búa á láglendinu í Flóanum eða í nálægð við stórbrotin fjöllin fyrir vestan. Hvorugt gaf sig og urðu umræðurnar oft ansi líflegar.

Ég fékk að dvelja á Miðvanginum í tvo vetur á námsárunum og þar var gott að vera. Matargerð var Brynhildi hugleikin og fékk ég að njóta þess svo um munaði og þyngdist fram úr hófi þessa tvo vetur. Henni líkaði vel ef það var eitthvert fjör í gangi og hafði gaman af því að rökræða og var fljót til svars þannig að maður varð að hafa sig allan við til að lenda ekki undir. Sameiginlegt áhugamál hjá tengdaforeldrum mínum í seinni tíð voru húsbílaferðalög bæði hérlendis og erlendis. Þau voru mjög virk í húsbílafélaginu og ferðuðust vítt og breitt um landið og ekki var verra ef hægt var að komast í ber eða taka í spil. Brynhildur hafði mjög gaman af spilum og beitti öllum ráðum til að ná í sigur.

Að lokum vil ég þakka fyrir umhyggjuna sem þú hefur sýnt okkur Margréti Drífu og börnum okkar alla tíð. Hvíldu í friði.

Þinn tengdasonur,

Ágúst.

Amma og afi fylgdu okkur barnabörnunum vel eftir og dyrnar stóðu alltaf opnar, hvort sem það var á Miðvanginum, bústaðnum eða í húsbílnum. Þau voru dugleg að bjóða okkur að gista hjá sér og tóku okkur með í húsbílaferðalög á hverju sumri. Keyrðu með okkur um landið og fræddu okkur um fjöll og firnindi. Þau fóru með okkur í berjamó og í kartöflugarðinn í bústaðnum. Amma kenndi mér að spila enda spilastokkurinn aldrei langt undan og svo kenndi hún mér líka að svindla í spilum þó hún viðurkenndi það aldrei.

Amma var snillingur í bakstri og eldamennsku. Þegar ég var yngri borðaði ég ekki sultur nema ef amma bjó þær til og svo gerði hún bestu skúffuköku í heiminum. Í nokkur skipti reyndi ég að fá uppskriftina en það var ómögulegt að leika hana eftir, dass, skvetta og klípa af hinu og þessu. Síðasta vetur fór ég að vinna í Reykjavík og átti þá aðsetur á Miðvanginum. Oftar en ekki var amma búin að baka eða að undirbúa kvöldmat fyrir mig þegar ég kom heim. Hún hafði orð á því hve gaman væri að gefa mér að borða þar sem ég er ekki gikkur. Sérstaklega fannst henni frábært að ég borðaði svið, svo það var á boðstólum tvisvar í viku. Tvisvar á ári hefði dugað mér en maður segir ekki nei við ömmu sína svo við borðuðum þetta af bestu lyst.

Elsku amma litla, ég á þér svo ótal margt að þakka. Takk fyrir hlýjuna, gleðina og góðu stundirnar. Takk fyrir spilin, matinn og ferðirnar. Takk fyrir að taka til í herberginu mínu, vekja mig með útvarpsfréttum, prjóna lopapeysur á mig og sýna mér náttúruna á Íslandi. Takk fyrir allt.

Ég kveð þig með sorg í hjarta en kyrra hugann við að þú hefur fundið friðinn. Ég mun sakna þín og minnist þín sem bestu ömmu í heimi.

Þín nabba,

Brynhildur Ágústsdóttir.

Elsku besta amma mín. Það er margt sem mér dettur í hug að segja en það fyrsta er að mér finnst þú fara of snemma frá okkur. Það er víst oft gangur lífsins en það gerir þessa kveðjustund ekki auðveldari. Við vorum mikið í Hafnarfirðinum hjá ykkur afa í æsku þó við byggjum fyrir sunnan og ég er mjög heppin hvað ég var alltaf náin ykkur. Ég kann það einnig mikið að meta að hafa fengið að búa mikið hjá ykkur síðustu fimm ár. Þú dast stundum í foreldrahlutverk sem var kannski ekki alltaf vinsælt hjá mér því ég var mikið spennt að vera laus úr foreldrahúsum. Það gerði okkur þó bara nánari og ég er svo þakklát fyrir þennan tíma. Þú varst einhver mesti húmoristi sem ég þekki og það breyttist aldrei þrátt fyrir breyttar aðstæður síðustu mánuði, gullnar setningar duttu upp úr þér í öllum veðrum og vindum. Við spiluðum rommí þar sem þú vannst mig eiginlega bara aldrei, en ég hef aldrei verið fyllilega viss hvort þú værir að gefa mér séns með þinn mikla spilaferil að baki. Þú þreyttist ekki á að elda ofan í okkur kræsingar enda frábær kokkur. Það besta sem veit var þegar ég kom heim eftir langan dag og þú hafðir eldað steiktan fisk, vitandi að það væri það besta sem ég fæ – jú, og rúsínubrauð. Svo er graflaxsósan þín eiginlega bara uppáhaldsmaturinn minn og ég vorkenni öllum sem hafa ekki smakkað hana. Það skein í gegn hvað þér þótti vænt um okkur öll og þú vildir allt fyrir mann gera. Það var mjög fallegt hvað þið afi voruð samheldin alla tíð, en sama hvar ég kom að ykkur – fyrir framan sjónvarpið, hlustandi á kvöldsögu uppi í rúmi eða að versla inn – þið voruð alltaf hönd í hönd. Þú varst glettin, forvitin, skemmtileg, frábær vinkona, besta amman og svo margt, margt fleira. Ég er einnig þakklát fyrir að hafa getað eytt síðasta aðfangadagskvöldi með þér, við vinkonurnar tvær saman. Allt þetta og svo miklu meira til eru minningar sem ég mun að eilífu varðveita og halda hjarta mínu nær. Við áttum svo skemmtilegt samband, ég og þú. Þú varst best og ég mun sakna þín svo mikið.

Ég elska þig,

Ásdís.