— Morgunblaðið/Ómar
Frambjóðendur til embættis forseta Íslands segja flestir að kosningabaráttan sé rétt að byrja og telja að nýjasta skoðanakönnun um fylgi þeirra sé til marks um það. Í könnun sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið og birt var í gær fengu þau Baldur Þórhallsson og Katrín Jakobsdóttir mesta fylgið

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands segja flestir að kosningabaráttan sé rétt að byrja og telja að nýjasta skoðanakönnun um fylgi þeirra sé til marks um það. Í könnun sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið og birt var í gær fengu þau Baldur Þórhallsson og Katrín Jakobsdóttir mesta fylgið. Ekki var hins vegar marktækur munur á fylgi þeirra.

„Þessi barátta er í sjálfu sér bara á algjöru frumstigi, þannig að mér finnst bara ganga vel og mér finnst vera mikill meðbyr en ég held að þetta verði spennandi barátta og við eigum eftir að sjá heilmiklar sviptingar. Ég spái því,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

„Þetta er náttúrulega bara könnun á þessu stigi í kosningabaráttunni og það er ennþá nokkuð í kosningar,“ segir Baldur Þórhallsson.

„Nú er bara vika síðan ég tilkynnti framboð og ég finn mikinn samhljóm með áherslum okkar á samvinnu og þátttöku og hlakka til að nýta næstu vikur vorsins í að kynnast fólki og kynna áherslurnar betur,“ segir Halla Hrund Logadóttir sem var með 10,6% fylgi í könnuninni.

„Ég læt ekki skoðanakannanir ráða för heldur ætla bara að hitta fólkið og held kannski að þetta byrji ekki í reynd fyrr en við meðframbjóðendur fáum tækifæri til að taka samtal,“ segir Halla Tómasdóttir, en hún mældist með um 4,3 prósenta fylgi og er því með fimmta mesta fylgið af tólf frambjóðendum. idunn@mbl.is