Halldóra Jónasdóttir fæddist 16. apríl 1942. Hún lést 10. janúar 2024.

Útför Halldóru fór fram 23. janúar 2024.

Mín kæra vinkona Halldóra Jónasdóttir, alltaf kölluð Dóra, kvaddi okkur þann 10. janúar sl. Í dag 16. apríl, hefði hún orðið 82 ára.

Okkar kynni byrjuðu sumarið 1956 í unglingavinnunni í Reykjavík. Við vorum tíu stelpur í hóp og við Dóra lentum saman á Hringbrautarleikvellinum og í kjölfarið vorum við allar settar í það að gróðursetja jólatrén við Suðurgötu og reita arfa. Það var þó meira talað og hlegið heldur en unnið, líklega eru þau vinnubrögð enn stunduð í dag.

Dóra hefur verið stór þáttur í mínu lífi og minnar fjölskyldu og vinskapur okkar verið mér dýrmætur. Hún var einstaklega hlý, kærleiksrík og heilsteypt með sitt fallega bros og alltaf stutt í hláturinn.

Dóra varð fyrir áfalli um tvítugt þegar hún missti Írisi systur sína í hræðilegu slysi og markaði það hennar líf. Við tóku erfið veikindi en alltaf náði hún sér upp aftur með bjartsýni og dugnað að vopni.

Hamingjan í lífi Dóru voru yndislegu dætur hennar Íris og Vala. Þær studdu hana í gegnum veikindin og voru ávallt til staðar þegar Dóra þurfti á þeim að halda. Þær gáfu henni svo dásamleg barnabörn sem hún var svo stolt af og talaði mikið um og svo bættust við langömmubörnin.

Dóra var dugleg að heimsækja mig í gamla daga í Hafnarfjörð og börnunum mínum fannst skemmtilegast þegar hún sagði sögur af okkur sem unglingum. Hún var góð sögukona, með sína yndislega kímnigáfu og var mikið hlegið í þessum heimsóknum.

Ég mun sakna þín, elsku vinkona, og minning þín mun lifa.

Samúðarkveðjur til ykkar elsku Íris, Vala og fjölskyldur frá mér og mínum.

Nanna

Norma Haraldsdóttir (Nanna)