Eldflaugar Kona gengur fram hjá mynd af eldflaugum í miðborg Teheran. Árás Írana á Ísrael hefur aukið spennu.
Eldflaugar Kona gengur fram hjá mynd af eldflaugum í miðborg Teheran. Árás Írana á Ísrael hefur aukið spennu. — AFP/Atta Kenari
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, bauð leiðtogum allra stjórnarandstöðuflokka landsins til fundar um öryggismál í gær vegna loftárása Írana á Ísrael sl. laugardag. Þjóðstjórn Ísraels fjallaði einnig um málið í gær og er Ísraelsher sagður hafa boðið fram ýmsa möguleika á aðgerðum gegn Íran til að bregðast við árásinni.

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, bauð leiðtogum allra stjórnarandstöðuflokka landsins til fundar um öryggismál í gær vegna loftárása Írana á Ísrael sl. laugardag. Þjóðstjórn Ísraels fjallaði einnig um málið í gær og er Ísraelsher sagður hafa boðið fram ýmsa möguleika á aðgerðum gegn Íran til að bregðast við árásinni.

Í yfirlýsingu sem skrifstofa Netanjahús birti í gærkvöldi á samfélagsmiðlinum X er haft eftir honum að Íran sé ógn við heimsfrið og alþjóðasamfélagið verði að standa sameinað gegn árásum þeirra.

Ísraelskir fjölmiðlar segja að nokkrir fyrrverandi herforingjar í þjóðstjórninni, þar á meðal Benny Gantz og Gadi Eisenkot, hafi lýst þeim viðhorfum að Ísrael geti ekki látið jafn umgangsmikilli árás, og raun bar vitni, ósvarað. Viðbrögðin verði að vera það öflug, að Íranir reyni ekki að endurtaka árásina.

En lykilmenn í ríkisstjórninni hafa einnig lagt áherslu á að árás Írana hafi opnað fyrir möguleika á að styrkja hernaðarlega samvinnu gagnvart hættu sem stafar frá Íran og byggja eigi á þeim stuðningi sem Bandaríkin, Bretland, Jórdanía og fleiri ríki veittu Ísraelsmönnum við að hrinda árásinni á laugardag.

Vestræn ríki auk Rússlands og Kína hafa hvatt Ísraelsmenn til að sýna stillingu. Þannig sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkin myndu áfram verja Ísrael en vildu ekki að átök Írans og Ísraels stigmagnist. Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tóku í sama streng. Nokkur ríki komu fordæmingu á árás Írana á framfæri við sendiherra landsins.

Richi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði í breska þinginu í gær að leiðtogar G7 ríkjanna hefðu ræðst við á sunnudag og samþykkt að samræma aðgerðir gegn Írönum og leppum þeirra. Sunak sagði að Íran væri einangrað og hann hvatti Ísraelsmenn til að sætta sig við sigurinn sem vannst á laugardag til að forðast frekari stigmögnun og blóðbað.

Árásinni verður svarað

Ísraelsmenn segja að Íranir hafi reynt að ráðast á mikilvæga hernaðarinnviði, svo sem Nevatim-herflugvöllinn þar sem torséðar orrustuflugvélar hafa bækistöð, en það hafi ekki tekist. Herzi Halevi, yfirmaður Ísraelshers, ávarpaði hermenn í herstöðinni í gær og sagði að árás Írana yrði svarað. Daniel Hagari, talsmaður hersins, sagði að gripið yrði til nauðsynlegra ráðstafana til að verja Ísraelsríki og staður og stund yrðu valin af kostgæfni.

Hagari sagði einnig, að allir þeir sem létu lífið í drónaárás á sendiskrifstofu Írans í Damaskus í byrjun apríl hefðu stundað hryðjuverkastarfsemi gegn Ísrael. Þetta er í fyrsta skipti sem ísraelsk stjórnvöld tjá sig um árásina en flugskeytaárás Írana á laugardag var gerð til að hefna fyrir hana.

Ný stefnumörkun

Írönsk stjórnvöld sögðu í gær, að árásin á Ísrael hefði verið fyrsti þáttur í nýrri stefnumörkun og tímabil hernaðarlegrar þolinmæði væri á enda. Bregðist Ísrael við með frekari árásum yrðu viðbrögðin hörð.

Nass­er Kan­ani, talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is Írans, sagði að í stað þess að ásaka Íran ættu Vest­ur­lönd frek­ar að ásaka sig sjálf fyrir stuðning við stríðsglæpi Ísraels og vera þakk­lát fyr­ir að Íran­ar hafi haldið að sér hönd­um und­an­farna mánuði.

Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Ísrael og fyrrverandi forsætisráðherra, gagnrýndi Netanjaú harðlega á X í gær og sagði að stefna ísraelskra stjórnvalda hefði grafið undan vörnum landsins og valdið eyðileggingu á svæðinu frá Beeri til Kiryat Shmona. Krafðist Lapid þess að boðað yrði til þingkosninga.

Beeri er samyrkjubú sem Hamas-liðar réðust á 7. október sl. en sú árás leiddi til stríðsins á Gasasvæðinu. Bærinn Kiryat Shmona er í norðurhluta Ísraels við landamæri Líbanons og á því svæði hafa Ísraelsmenn og liðsmenn Hesbollah-samtakanna skipst á skotum undanfarna mánuði.

Þá sagði Lapid að á stjórnartíma Netanjahús hefði hryðjuverkaofbeldi gyðinga gagnvart Palestínumönnum á Vesturbakkanum algerlega farið úr böndunum.

Olíuverð lækkaði heldur á heimsmarkaði í gær og virðast miðlarar treysta á að það slakni á spennu í Mið-Austurlöndum. En breska flugfélagið EasyJet tilkynnti í gær að það muni ekki fljúga til eða frá Tel Aviv út vikuna af öryggisástæðum.