Í Hörpu Frumflutningur Sæunnar og Sinfó undir stjórn Evu Ollikanen á verkinu „Gemæltan“ eftir Veronique Vöku í september 2022.
Í Hörpu Frumflutningur Sæunnar og Sinfó undir stjórn Evu Ollikanen á verkinu „Gemæltan“ eftir Veronique Vöku í september 2022.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sæunn Þorsteinsdóttir fæddist 16. apríl 1984 í Reykjavík og ólst fyrstu árin upp í Hlíðunum en var einnig eitt ár á Akureyri þegar hún var fjögurra ára. Á Akureyri byrjaði Sæunn í forskóla og fór að læra á blokkflautu í tónlistarskólanum þar

Sæunn Þorsteinsdóttir fæddist 16. apríl 1984 í Reykjavík og ólst fyrstu árin upp í Hlíðunum en var einnig eitt ár á Akureyri þegar hún var fjögurra ára.

Á Akureyri byrjaði Sæunn í forskóla og fór að læra á blokkflautu í tónlistarskólanum þar. Fjölskyldan fluttist aftur til Reykjavíkur, það voru ekki margir möguleikar í tónlistarskóla fyrir fimm ára, svo byrjað var á selló í Suzukiskólanum. Hún var líka í barna- og samkvæmisdansi hjá Hermanni Ragnari Stefánssyni.

Sæunn var í 1. bekk í Kópavogsskóla en 1991 fluttist fjölskyldan til Iowa City í Bandaríkjunum og bjó þar í sex ár. Það er tiltölulega lítill bær á mælikvarða Bandaríkjanna, 74.000 íbúar, en stór háskóli er þar og þeim fylgir jafnan mikið menningarlíf og íþróttir og mikið í boði fyrir börn. Sæunn gekk þar í skóla og hélt áfram að læra á selló í Preucil School of Music, sem er einn elsti Suzukiskólinn í Bandaríkjunum.

„Það er mjög góður skóli, góðir kennarar og margir mjög góðir nemendur á svipuðum aldri og ég og aðeins eldri. Það var mjög gaman að vera í skólanum, við vorum með sterka strengjasveit, við fórum oft í ferðalög og lékum kammertónlist á tónleikum. Ég hélt líka áfram í dansi, mest djassballett, og hélt því áfram fram á háskólaárin. Ég spilaði líka fótbolta en hann var fyrstur til að víkja þegar dagurinn varð of stuttur fyrir allt þetta.“

Fjölskyldan flutti síðan aftur til Akureyrar 1997, og var Sæunn í 8. bekk í Brekkuskóla. Hún hélt áfram í sellónáminu við Tónlistarskólann á Akureyri og spilaði með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hun var líka í ballettskólanum þar. Svo flutti fjölskyldan aftur til Bandaríkjanna áramótin 1998-99, til Bettendorf í Iowa.

„Þar var öðruvísi umhverfi og ekki eins alþjóðlegt. Þar var ég í 9.-12. bekk í „high school“ og útskrifaðist 2002. Ég fór þá að læra hjá Tönyu Carey, m.a. í Chicago, en var líka að spila með strengjasveitinni í Iowa City.

Ég reyndi að fara til Íslands flest árin, en það var mun erfiðara fyrst eftir að fluttum. Þá kom ég ekki eins oft en stoppaði þá lengur. Þetta var oftast á sumrin og mest á Akureyri. Á sumrin fór ég einnig á námskeið og í sumarbúðir. Tíu ára fór ég til Los Angeles í boði Disney að spila með Disney's Young Musicians Symphony Orchestra. Við héldum æfingar, tónleika og gerður var sjónvarpsþáttur. Þrjú ár fór ég í sumarbúðirnar Interlochen Arts Camp í Michigan.“

Sæunn stundaði síðan nám í Cleveland Institute of Music hjá Richard Aaron 2002-2006 með skiptinámi í París haustið 2004-febrúar 2005, var í meistaranámi í Juilliard 2006-2008 hjá Joel Krosnick. Enn fremur tók hún námskeið við Meadowmount School of Music 1999-2002, Sarasota Music Festival 2003, 2004, Perlman Music Program Chamber Music Workshop 2006, 2007, Kneisel Hall 2006, Marlboro Music Festival 2008-2010 og Prussia Cove International Musicians Seminar Chamber Music Festival 2011 og 2016. Hún hóf doktorsnám í SUNY Stony Brook árið 2011 og lauk því 2015.

„Ég tók líka þátt í keppnum, sérstaklega til að byrja með en þær eru hluti af náminu, til að læra, kynna sig og kynnast því sem aðrir eru að gera.“ Hún hlaut t.d. heiðursverðlaun bæði í Naumburg International-sellókeppninni og Antonio Janigro International-sellókeppninni, hvort tveggja árið 2008.

Sæunn spilaði fyrst einleik með atvinnuhljómsveit árið 2002 en það var með sinfóníuhljómsveitinni í Des Moines, Iowa. „Fyrst spilaði ég á Íslandi árið 2002 í Laugaborg í Eyjafirði fyrir frændfólk og vini og svo árið 2006 í Salnum í Kópavogi, Tíbrárröðinni. Ég kynntist tónlistarfólki frá Íslandi, Daníel Bjarnasyni og kammersveitinni Ísafold, á tónleikum og í upptökum í Skálholti 2007 og frumflutti Bow to String eftir Daníel með þeim á tónlistarhátíðinni Við Djúpið 2008.“

Sæunn lék fyrst með Sinfóníuhljómsveit Íslands 2009, en það var sellókonsert eftir Dvorák. Hún hefur síðan spilað marga konserta með Sinfó og var staðarlistamaður tónleikaárið 2023-24.

Sæunn var hluti af Ensemble Connect 2008-2010, Fellowship hjá Carnegie Hall og Juilliard. „Þá spilar hópur af ungum hljóðfæraleikurum saman á tónleikum í Carnegie Hall og við fórum líka inn í skóla, spítala og fangelsi. Úr þessari reynslu varð til kammerhópurinn Decoda, þar sem ég var listrænn stjórnandi 2015-2020.“

Sæunn spilaði með Decoda í Carnegie Hall, Suntory Hall í Tókýó, Barbican Center í London, Abu Dhabi Arts Festival, Singapúr, Mumbai, Stokkhólmi, og fór í þriggja vikna tónleikaferð með hópnum um Suður-Afríku.

Hún var „artist in residence“ 2013-2015 í Green Music Center í Sonoma og kenndi við Sonoma State University, hún kenndi við University of Washington 2015-2022 og hefur kennt við Cincinnati College Conservatory frá 2022.

Sólóplötur Sæunnar eru Britten: Svítur fyrir selló (Centaur 2011), Vernacular (Sono Luminus 2019), Marrow: Bach-svítur (Sono Luminus 2023). Sæunn spilar einnig á plötunni Concurrence með Sinfóníuhljómsveit Íslands sellókonsertinn Quake eftir Pál Ragnar Pálsson en sú plata var tilnefnd til Grammy-verðlaunanna.

Sæunn hefur frumflutt ótal verk, helst þeirra eru verk eftir Daníel Bjarnason (með LA Phil og Toronto), Pál Ragnar Pálsson (LA Phil, Elbphilharmonie Orkester), Veronique Vöku (Sinfó) og einleiksverk eftir Halldór Smárason og Þuríði Jónsdóttur.

„Ég hef mjög gaman af ferðalögum og er heppin að hafa ferðast víða til að spila á tónleikum. Ég elska góðan mat og finnst gaman að fylgjast með skapandi kokkum og veitingastöðum sem eru að gera spennandi hluti. Annars hef ég afar lítinn frítíma og reyni að njóta þess eins mikið og ég mögulega get þegar það gerist.“

Fjölskylda

Bróðir Sæunnar er Skúli Þorsteinsson, f. 17.1. 1991, gítarleikari, búsettur í Boston.

Foreldrar Sæunnar eru hjónin Ólöf Jónsdóttir, f. 7.5. 1962, fiðlukennari, og Þorsteinn Skúlason, f. 27.10. 1962, húðlæknir. Þau eru búsett í Brookfield, Wisconsin.