Guðjón Eyjólfsson endurskoðandi fæddist 23. júní 1930 í Keflavík. Hann lést 4. apríl 2024 á hjúkrunarheimilinu Sóltúni á 94. aldursári.

Foreldrar Guðjóns voru Guðlaug Stefánsdóttir og Eyjófur Guðjónsson. Systkini Guðjóns eru María, f. 1931, Guðlaugur, f. 1933, d. 2013, og Sigurður, f. 1936, d. 2013.

Guðjón kvæntist Guðlaugu Ottósdóttur, f. í Reykjavík 1931, d. 2012. Börn þeirra: 1) Eyjólfur, f. 1956, d. 2014. 2) Ottó, f. 1957. Maki Guðbjörg Sigurðardóttir, börn þeirra: Guðlaug, Tinna og Ottó Ólafur. 3) Karólína, f. 1958, sonur: Guðjón Kári. 4) Áslaug, f. 1960. Maki Steinþór Pálsson, dætur þeirra Hildur og Katrín. 5) Gunnar, f. 1968, dætur hans eru Aníta og Helena Rós. Barnabarnabörnin eru þrjú.

Guðjón varð löggiltur endurskoðandi árið 1960. Hann var lengi með eigin skrifstofu og síðan í félagi með öðrum í Stoð endurskoðun. Þá var hann hjá Deloitte til ársins 1998 er hann réð sig til Kaupþings þar sem hann starfaði fram til ársins 2008. Eftir það og fram á allra síðustu ár aðstoðaði hann fjölda aðila með ýmsa ráðgjöf. Áður en hann gerðist endurskoðandi starfaði Guðjón m.a. hjá Verslunarsparisjóðnum og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í New York (1956 til 1958). Guðjón var félagi í Lionsklúbbnum Nirði og á árum áður virkur í skátahreyfingunni. Guðjón safnaði mynt alla ævi og gaf árið 2017 veglegt myntsafn sitt til barnaskólans síns, Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ.

Útförin fer fram frá Langholtskirkju í dag, 16. apríl 2024, klukkan 13.

„Er nótt eða dagur?“ spurði 11 ára strákurinn pabba sinn þegar pabbinn sótti hann í frystihúsið eftir að strákurinn hafði staðið við vinnuborðið í fiskvinnslu tímunum saman.

Þessi litla saga lýsir pabba vel, það var staðið við verkið þangað til því lauk.

Sama má segja þegar hann réð sig í Laxárvirkjun strax eftir verslunarskólapróf, alltaf gengið í verkin og þau leyst. Verkefni hans í virkjuninni voru margbreytileg. Hann sá um bókhaldið fyrir virkjunina, launaútreikninga, hann hringdi á bæina og pantaði naut og sá um úrbeiningu, hann sá um að búa um meiðsli starfsmanna því hann var skáti og hann vélritaði upp vísur eftir vísnakvöldin á staðnum. Pabbi naut þess að vera í hringiðunni og vera með í að láta hugmyndir verða að veruleika.

Alla tíð var hann traustur og tryggur, vildi standa með sínu fólki. Hann tók virkan þátt í lífi okkar í fjölskyldunni. Vinir mínir voru hans vinir. Minnisstæður er bíltúr sem við fórum í ásamt vinkonu okkar fyrir nokkrum árum um Suðurland. Þar var hann i essinu sínu, þekkti öll fjöll og hæð þeirra. Beið spenntur eftir næsta bæ eða næstu á, alltaf með allt á hreinu.

Við gróðursettum saman ófáar plöntur í landið þeirra mömmu á Þingvöllum. Þar naut hann sín og tókst hið ógerlega, að rækta skóg í hrauni.

Við pabbi nutum stórra sem smárra hluta í lífi hvort annars. Og fyrir þær stundir er ég þakklát.

Margs er að minnast en það sem stendur upp úr er orkan, lífsgleðin og tryggðin.

Alltaf að halda áfram.

Karólína.

Árið 1987 flutti undirritaður til Íslands frá Bretlandi og í framhaldinu kom að því að gera skattaskýrslu á Íslandi eftir margra ára fjarveru.

Mér var þá bent á að hafa samband við reyndan endurskoðanda og leita aðstoðar. Í framhaldinu hafði ég samband við Guðjón Eyjólfsson, sem tók mér vel, sagðist geta séð um mín skattamál, en að ég skyldi gera mér grein fyrir því að ég væri nú kominn í hendurnar á besta endurskoðanda á Íslandi. Auðvitað var þetta sagt í góðlátlegu gríni, en oft síðar, þegar ég naut leiðsagnar Guðjóns í ýmsum málum, minntist ég þessara orða og sannfærðist um sannleiksgildi þeirra.

Við Guðjón urðum í framhaldinu góðir vinir, hittumst oft bæði hér heima og erlendis, spiluðum saman golf og nutum þess að borða saman og spjalla saman um málefni líðandi stundar. Guðjón þekkti víða til. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á þjóðmálum, naut virðingar í sínu fagi og í viðskiptalífinu og reyndist þeim ávallt vel sem til hans leituðu.

Sérstaklega minnisstæðar eru samverustundir okkar vestur í Bandaríkjunum þegar Guðjón kom og dvaldi hjá okkur hjónunum bæði í Virginíu og Flórída. Guðjón var góður og ötull golfari sem naut þess að spila, púttaði betur en flestir og gaf aldrei neitt eftir. Eitt sinn spiluðum við frægan golfvöll, Crooked Cat í Orange Country National, nálægt Orlando og þegar upp var staðið hafði Guðjón spilað völlinn á 84 höggum þá 82 ára gamall. Betur verður varla gert.

Við fjölskyldan eigum margar góðar minningar um kæran vin og við munum sakna hans. Konan mín Sif og Guðjón voru nánir vinir, börnin okkar og barnabörn nutu góðvildar hans og sjálfur mun ég ætíð minnast vináttu hans og hjálpsemi.

Við þökkum fyrir samverustundirnar, biðjum Guð að blessa minninguna um góðan dreng og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til allra aðstandenda.

Benedikt Sveinsson.

Fallinn er frá Guðjón Eyjólfsson endurskoðandi. Guðjón hitti ég fyrst fyrir um það bil 50 árum. Ég var í vinahópi með Áslaugu dóttur Guðjóns og síðar spiluðum við Gunnar sonur hans reglulega saman veggjatennis. Man enn er ég mætti með Steinþóri manni Áslaugar í heimsókn á Brúnaveg. Þar var Guðjón. Fróðari en jafnframt forvitnari mann hafði ég ekki hitt.

Árin liðu og öðru hvoru rakst ég á Guðjón heima hjá Áslaugu og Steinþóri, eða á förnum vegi. Guðjón var alltaf viðræðu-
góður og mér vinsamlegur.
Einkenni Guðjóns og aðalsmerki var traust vinátta og trúnaður við vini sína. Hann var aftur á móti ekkert mjög þægilegur við þá sem honum var ekki vel við.

Guðjón var vinnusamur með eindæmum, óregla og óreiða voru eitur í hans beinum. Hann var endurskoðandi fyrir fjölbreyttan hóp einstaklinga og fyrirtækja. Þekkt var þegar Guðjón var endurskoðandi fyrir Hótel Sögu sem var með vinsæla áramótafagnaði. Guðjón krafðist vörutalningar á barnum á nýársdag. Staðan yrði að vera rétt í ársreikningnum. Þetta aflaði honum ekki vinsælda. Einnig veit ég um einstaklinga sem Guðjón vann fyrir og honum fannst ekki líta heilsusamlega út. Guðjón var áður en þeir vissu af búinn að bóka fyrir þá tíma í læknisrannsókn. Er Guðjón lét af störfum hjá Deloitte Endurskoðun, sem hann stofnaði með öðrum, hóf hann störf hjá Kaupþingi. Þar aðstoðaði hann viðskiptavini og starfsmenn af trúmennsku og eljusemi.

Guðjón var heilsuhraustur fram undir það síðasta er hann veiktist. Síðasta árið var honum erfitt og held ég að hann hafi verið hvíldinni feginn. Ég votta börnum Guðjóns og fjölskyldum þeirra samúð mína um leið og ég þakka Guðjóni góða vináttu.

Sigurður
Einarsson.

Minn kæri vinur, lærimeistari og fyrrverandi samstarfsfélagi Guðjón Eyjólfsson er fallinn frá á nítugasta og fjórða aldursári. Kynni okkar Guðjóns hófust fyrir rúmum fjörutíu árum er ég var ráðinn sem nemi í endurskoðun hjá Endurskoðun Guðjóns Eyjólfssonar. Þá leigðu saman skrifstofuhúsnæði endurskoðendurnir Guðjón, Sigurður Tómasson og Sigurður Guðmundsson. Árið 1989 sameinuðu þeir krafta sína og stofnuðu Stoð-endurskoðun hf. ásamt okkur nokkrum endurskoðendum sem hjá þeim höfðu lært og starfað og var endurskoðunarstofan starfrækt allt til ársbyrjunar 1999 þegar hún sameinaðist Deloitte hf. Fljótlega eftir þá sameiningu færði Guðjón sig yfir til Kaupþings banka hf. og sinnti þar einkum ráðgjafarstörfum og eftir að bankinn hætti starfsemi í kjölfar hrunsins vann hann sjálfstætt við ráðgjöf og framtalsgerð. Guðjón var á margan hátt einstakur, áberandi glæsimenni, eins og breskur lord eins og einhver orðaði það, drakk te en ekki kaffi og var bindindismaður. Guðjón var mikill fagmaður og vinnusamur með eindæmum allt fram undir það síðasta eins og heilsan leyfði. Hann var orðheppinn, glaðlyndur, góður sögumaður, hafði einstakt minni og jákvæð áhrif á samstarfsfólk og gat talað við alla. Það var gott að vinna með Guðjóni og hann var vel liðinn af viðskiptavinum sínum sem gjarnan leituðu ráða hjá honum um ýmis mál sem ekki falla undir hefðbundin ráðgjafarstörf endurskoðanda. Meðal áhugamála Guðjóns má nefna golf og bridds. Þótt hugurinn væri skýr alveg fram undir það síðasta þá hrakaði líkamlegri heilsu hans jafnt og þétt síðustu misseri og ljóst í hvað stefndi. Ég vil að lokum þakka Guðjóni vinskapinn í gegnum tíðina og fjölskyldu hans votta ég samúð mína.

Sigurður H. Steindórsson.