Barátta Framarinn Tiago Fernandes reynir að skýla boltanum frá Víkingnum Gísla Gottskálk Þórðarsyni á Framvelli í Úlfarsárdalnum í gærkvöldi.
Barátta Framarinn Tiago Fernandes reynir að skýla boltanum frá Víkingnum Gísla Gottskálk Þórðarsyni á Framvelli í Úlfarsárdalnum í gærkvöldi. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Erlingur Agnarsson reyndist hetja Víkings úr Reykjavík þegar liðið heimsótti Fram í lokaleik 2. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu í Úlfarsárdal í gær. Leiknum lauk með sigri Víkinga, 1:0, en Erlingur skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik á 64

BESTA DEILDIN

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Erlingur Agnarsson reyndist hetja Víkings úr Reykjavík þegar liðið heimsótti Fram í lokaleik 2. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu í Úlfarsárdal í gær. Leiknum lauk með sigri Víkinga, 1:0, en Erlingur skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik á 64. mínútu.

Sóknarmaðurinn slapp þá einn í gegn eftir frábæran undirbúning Pablos Punyed sem sendi hann í gegn. Erlingur átti fast skot úr þröngu færi sem Ólafur Íshólm Ólafsson í marki Framara réð ekki við og reyndist það sigurmark leiksins.

Víkingar eru því með fullt hús stiga eða 6 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar og hafa ekki ennþá fengið á sig mark, líkt og Breiðablik og Valur. Framarar eru með 3 stig í sjötta sætinu eftir sigur gegn Vestra í 1. umferðinni.

Víkingar, sem eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar, byrja því mótið á mjög svipaðan hátt og þeir gerðu á síðustu leiktíð þegar þeir unnu Stjörnuna 2:0 í 1. umferðinni, líkt og í ár, og fylgdu því svo eftir með 2:0-sigri gegn Fylki í 2. umferðinni.

Það er viðbúið að það verði sviptingar á toppnum að 3. umferðinni lokinni þar sem KR fær Fram í heimsókn í Vesturbæinn og Víkingur tekur á móti Breiðabliki í Fossvoginum. Á síðustu leiktíð unnu Víkingar einn leik liðanna, einum lauk með jafntefli og Breiðablik vann einn leik.