Zzzz Rostungur fær sér kríu án hlaðvarps.
Zzzz Rostungur fær sér kríu án hlaðvarps. — Morgunblaðið/Eggert
Hlaðvörp eru misjöfn að gæðum en þau sem vönduð eru gleðja og fræða. Mörg hver eru í flestu svipuð útvarpsþáttum en þó betri að því leyti að ekki er verið að vinna með ákveðinn hámarks- eða lágmarkstíma

Helgi Snær Sigurðsson

Hlaðvörp eru misjöfn að gæðum en þau sem vönduð eru gleðja og fræða. Mörg hver eru í flestu svipuð útvarpsþáttum en þó betri að því leyti að ekki er verið að vinna með ákveðinn hámarks- eða lágmarkstíma. Sá er nefnilega gallinn á útvarpi, þar er fyllt upp í tímarammann með tónlist sem getur verið drepleiðinleg og valdið því að maður neyðist til að slökkva á útvarpinu eða skipta um rás. Fáir hafa þolinmæði lengur í að hlusta á leiðinlega tónlist, eðlilega, og bíða eftir því að einhver fari að tala. Mun þægilegra er þá að finna gott hlaðvarp, þar er ekki verið að pína mann með slæmri tónlist.

En gallinn við hlaðvörp – og um leið kostur þeirra – er allt blaðrið. Mikill malandi á það til að svæfa mig og skiptir þá engu að ég vilji gjarnan vaka og hlusta. Sem betur fer gerist þetta ekki undir stýri eða þegar ég er á fótum, það væri væntanlega einhvers konar sjúkdómur og beinlínis hættulegt. Að leggjast upp í rúm og sofna út frá malanda er hins vegar hættulaus og sakbitin sæla. Mikilvægt þó að stilla vekjarann í símanum svo maður sofi ekki lengi, þá er nætursvefninn ónýtur.

Fátt er betra en að leggjast „aðeins“ upp í rúm með gott blaður í eyrum. Og ef maður sofnar er lítið mál að finna hlaðvarpið aftur.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson