Gróa Axelsdóttir
Gróa Axelsdóttir
Við erum að finna leiðir til að öll börn fái tækifæri til að blómstra og við hjálpum þeim að finna styrkleika sína í gegnum fjölbreytt skólastarf.

Gróa Axelsdóttir

Það eru ótrúleg forréttindi fólgin í því að starfa í skólakerfinu okkar. Þar fáum við tækifæri til að hafa áhrif á hvern og einn nemanda og um leið að aðstoða þá við að blómstra hver á sinn hátt.

Skólakerfið hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár og áratugi en það þarf hugrekki skólafólks til að feta nýjar slóðir með áherslu á börnin og fjölbreyttar þarfir þeirra.

Undanfarna mánuði hef ég fengið tækifæri til að skoða skólakerfi í þremur mismunandi löndum, Litháen, Skotlandi og Finnlandi. Að fá að fylgjast með kennslu, áskorunum kennaranna og að eiga samtal við þá og skólastjórnendur var mjög lærdómsríkt.

Við í Stapaskóla erum þátttakendur í Nordplus-verkefni með Karalienés Mortos í Vilnius og Kaunas í Litháen. Verkefnið gengur út á það að læra hvert af öðru. Kennarateymi ferðast á milli landa og fylgjast með kennslu og fá fræðslu og kynningar bæði frá nemendum og kennurum um helstu einkenni og áherslur skólanna. Við höfum öðlast mikla og dýrmæta reynslu á þessu tímabili. Við höfum séð ýmislegt sem við getum gert betur og öðruvísi og einnig margt sem minnir okkur á að við erum að gera vel. Það ríkir mikill agi og krafa um árangur og það sést vel í öllu starfinu. Hlutverk foreldra skiptir miklu máli þar og sjá má að skólafólkinu er treyst vel fyrir því starfi sem á sér stað innan veggja skólans og mikil virðing borin fyrir starfinu. Virðingin kemur að heiman, það er ekki kennt! Við sáum að við á Íslandi leggjum mikið upp úr sköpun og námi í list- og verkgreinum. Við erum að finna leiðir til að öll börn fái tækifæri til að blómstra og við hjálpum þeim að finna styrkleika sína í gegnum fjölbreytt skólastarf. Við finnum líka hvað okkur finnst mikilvægt að heyra og sjá samvinnu nemenda á milli. Að geta unnið í teymi er mikilvæg hæfni fyrir ungmennin okkar að taka með sér út í lífið. Þetta eru okkar styrkleikar og við megum alls ekki gera lítið úr þeim!

Í Skotlandi var ferðinni heitið til Glasgow til að skoða hvernig Skotar vinna að aukinni vellíðan barna. Þeir hafa unnið með kerfi sem kallast Nurture í um 20 ár. Ég fékk tækifæri til að skoða þrjá mismunandi skóla í þremur mismunandi skólahverfum. Það sem ég sá og tók virkilega eftir var þessi virðing og væntumþykja hvers fyrir öðru. Nurture er verkefni sem miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) er að leggja af stað með undir handleiðslu Bergdísar Wilson. Við erum að læra enn frekar um taugafræðilegar ástæður hegðunar, hvað erum við að gera til að bregðast við og hvað getum við gert til að auka enn frekar vellíðan nemenda okkar. Við erum uppbyggingarskóli og beitum aðferðum Uppeldis til ábyrgðar í öllu starfi og tala þessar tvær leiðir mjög vel saman. Við vinnum með og reynum að stuðla að auknu tilfinningalegu öryggi.

Það hefur lengi verið ákall hjá kennurum landsins að fá verkfæri inn í skólastofuna og þekkingu til að takast á við hegðun og líðan nemenda. Með þessu verkefni teljum við okkur fá það.

Í mars fékk ég tækifæri til að heimsækja þrjá skóla í Borgá, sem er í um 25 mínútna akstursfjarlægð frá Helsinki. Í bænum búa um 50 þúsund manns og eru þar níu sænskumælandi skólar og fjórtán finnskumælandi. –

Tilgangur ferðarinnar var að hitta skólastjóra allra sænskumælandi skólanna og yfirmann þeirra til að kynna kennsluhætti Stapaskóla og þær leiðir sem við höfum farið. Að „kveikja neista“ og hvetja skólastjórnendur til að vera hugrakkir, að prófa og að það sé allt í lagi að mistakast því í ferlinu fer alltaf fram lærdómur sem nýtist inn í skólastarfið.

Þegar ég horfi á lærdómsferli mitt og set augun á skólann okkar sé ég að við höfum skapað umhverfi með þarfir barnanna að leiðarljósi. Að við höfum þróað og skapað ótrúlega öflugt skólastarf á stuttum tíma. En við höfum líka misstigið okkur, prófað leiðir sem hafa mistekist og unnið saman að því að finna nýjar leiðir sem henta betur og eru góðar. Með ótrúlegum mannauði hefur okkur tekist að gera magnaða hluti og eru það forréttindi að fá að vera þátttakandi í þeirri vegferð.

Í samtölum við skólafólkið í þessum þremur löndum kemur í ljós að við erum öll að fást við sömu hluti. Það sem mér finnst einstaklega áberandi er þessi virðing fyrir skólafólki og það er held ég nokkuð sem við Íslendingar getum tekið til okkar. Treystum fagfólkinu til að vita hvað það er að gera, treystum því að menntun þess og áherslur gefi ykkar barni óteljandi tækifæri til að blómstra og auka við þekkingu sína. Tölum skólana okkar upp!

Að víkka sjóndeildarhringinn er mikilvægt til að minna sig á hvað við höfum það gott. Að sjá leiðir sem við getum nýtt til breytinga hjá okkur en einnig til að sjá hvað það er margt gott í okkar skólakerfi. Lærum hvert af öðru, tökum það góða og höldum áfram á ferðalaginu þar sem hver og einn einstaklingur gengur út úr skólanum sínum við útskrift með höfuðið hátt og drauma um að geta allt sem hann ætlar sér með ferðatöskuna stútfulla af alls konar!

Höfundur er skólastjóri Stapaskóla.

Höf.: Gróa Axelsdóttir