Klassík „Uppfærsla Grétu Kristínar […] á meistarastykki Þorvaldar […] fyrir Leikfélag Akureyrar sem nú heimsækir höfuðborgina er afbragðsdæmi um vel heppnaða, stælalausa og úthugsaða enduruppfærslu. Sýnir að verkið býr enn yfir stuðandi safa og frjómagni og tekur sess í úrvaldsdeildinni.“
Klassík „Uppfærsla Grétu Kristínar […] á meistarastykki Þorvaldar […] fyrir Leikfélag Akureyrar sem nú heimsækir höfuðborgina er afbragðsdæmi um vel heppnaða, stælalausa og úthugsaða enduruppfærslu. Sýnir að verkið býr enn yfir stuðandi safa og frjómagni og tekur sess í úrvaldsdeildinni.“ — Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Borgarleikhúsið And Björk, of Course … ★★★★· Eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Axel Ingi Árnason og Pétur Karl Heiðarson. Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson. Leikendur: Davíð Þór Katrínarson, Eygló Hilmarsdóttir, Jón Gnarr, María Heba Þorkelsdóttir, María Pálsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Urður Bergsdóttir. Leikfélag Akureyrar frumsýndi í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 23. febrúar 2024. Rýnir sá fyrstu sýningu á Nýja sviði Borgarleikhússins 4. apríl sama ár.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Það var tímabært að við fengjum að sjá And Björk, of Course … aftur. Þorvaldur Þorsteinsson var, fyrir utan öll önnur listræn afrek, stórkostlegt leikskáld og verkið sem var frumsýnt (eða á maður að segja „heimsfrumsýnt“, eins og nú er til siðs?) á Nýja sviði Borgarleikhússins fyrir tuttugu og tveimur árum er sennilega fyllsta afrekið sem hann vann í því formi. Sárafá íslensk nútímaleikrit fá annað tækifæri til að mæta áhorfendum á sviði og sárafá verðskulda það jafn augljóslega og þessi frumlega og ögrandi athugun Þorvaldar á þjóðarsálinni.

Það kemur enda í ljós að erindi verksins er áfram til staðar. Við höfum lítið skánað. Sjálfselskan og sjálfsupphafningin sem henni fylgir er þarna enn. Og það er enn jafn grunnt á frumstæðu, gröðu og gráðugu hvatadýrinu sem hefur alltaf verið þarna og er ekkert á förum.

Ósamstæður hópur íslenskra meðaljóna er samankominn á sjálfshjálparnámskeiði. Leiðbeinandinn Ásta hefur gleypt með hraði kenningar bandarísks gúrús og hafið að miðla þeim til Íslendinga. Því er haldið vandlega leyndu í verkinu hvaða hugmyndir þetta eru, en tilfinningin er sterk að það sé álíka flatneskjulegt og innihaldslaust og nafn leiðtogans, Will Johnson

„Við erum að opna,“ segir Ásta við hjörðina sína. Og kannski er það rétt. En er það gott? Er það mögulega bara skálkaskjól til að sleppa hvötunum lausum? Hefur þetta fólk einhvern raunverulegan áhuga á þroska og sjálfsskilningi? Höfum við hann? Mögulega. Nógu kunnuglegt og fyndið finnst okkur framferði þeirra Indriða og Huldu, Þráins og Stefaníu, Mörtu, Hans og Ástu þar sem þau segja frá sjálfum sér, leika hlutverkaleiki, detta í það og sleppa takinu.

Og það gerist ekki neitt. Það er kjarni málsins, og einn af helstu punktunum sem höfundurinn vildi koma á framfæri. Hin stórstígu þroskastökk sem persónurnar segjast vera að taka og innsæið sem þær segjast hafa öðlast er allt bull. Í inngangi verksins og í viðtölum í aðdraganda frumuppfærslunnar talar Þorvaldur um að And Björk, of Course … lýsi ástandi fremur en atburðum. Það má til sanns vegar færa. Og bæði fyrirsjáanlegt og sláandi að ástandið sé nokkurnveginn það sama núna tæpum aldarfjórðungi síðar.

Það kostar alveg svolítið að leggja svona lítið upp úr framvindu. Án þess ég hafi tök á að rannsaka það grunar mig að Gréta Kristín Ómarsdóttir sviðsetji fyllri útgáfu en Benedikt Erlingsson gerði á sínum tíma, allavega var „gamla“ sýningin ekki þrír tímar það best ég man. Björk reynir á þolinmæðina á köflum eftir að hið óbreytanlega ástand er orðið sæmilega ljóst og rétt komið hlé. En bæði er það sennilega hluti af tilætluðum áhrifum og svo eru stíll og efnistök Þorvaldar svo einstök og oft sláandi að textinn – þessi innblásna og skáldlega afhjúpandi klisjuflatneskja – hristir mann og skekur. Ýmist af hlátri eða hrolli, og oft hvoru tveggja í senn.

Nálgun Grétu Kristínar á efniviðinn einkennist af næmri hófstillingu sem grundvallast á virðingu fyrir verki höfundarins. Allt traust er sett á textann og leikendurna í einföldu rýminu og smekklegu búningunum sem Brynja Björnsdóttir á heiður af. Sama þjónandi einkenni er á framlagi ljósahönnuðar (Ólafur Ágúst Stefánsson), og tónlistar- og hljóðsmiða (Axel Ingi Árnason og Pétur Karl Heiðarson). Uppskeran er ríkuleg – þetta er afbragðssýning.

Það er áreynslulaus einfaldleiki yfir leikstílnum. Gráa svæðið milli týpusmíðar og natúralískrar innlifunar er rétti staðurinn fyrir leikara til að mæta texta Þorvaldar og þau Davíð Þór Katrínarson, Eygló Hilmarsdóttir, Jón Gnarr, María Heba Þorkelsdóttir, María Pálsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Urður Bergsdóttir ná öll að fóta sig þar. Mesta hrifningu mína vöktu María Heba, sem finnur bæði sannan og urrandi kómískan flöt á hinum vísvitandi samheitalega sjálfshjálpargúrú Ástu, og Sverrir Þór, sem jarðtengir glæsilega hinn erkiíslenska leigubílstjóra Þráin.

Uppfærsla Grétu Kristínar Ómarsdóttur á meistarastykki Þorvaldar Þorsteinssonar fyrir Leikfélag Akureyrar sem nú heimsækir höfuðborgina er afbragðsdæmi um vel heppnaða, stælalausa og úthugsaða enduruppfærslu. Sýnir að verkið býr enn yfir stuðandi safa og frjómagni og tekur sess í úrvaldsdeildinni. Sjáum hvernig því reiðir af eftir önnur tuttugu og tvö ár og úrskurðum það síðan klassískt. Ég myndi veðja á að það verði raunin.