Viðbúið var, ef Ísraelar hefðu svarað loftárás Írana á laugardaginn sl. í sömu mynt, hefði það leitt til verulegrar hækkunar á hráolíu. Komi til þess að Ísrael geri árás á Íran mun það verða þess valdandi að olíuverð keyrist enn frekar upp á skömmum tíma. Verð á hráolíu hafði hækkað í síðustu viku og vikuna þar á undan, vegna vaxandi spennu sem hefur ríkt að undanförnu á milli Ísraels og Írans í aðdraganda árásarinnar.
Þetta segir Þórður Gunnarsson hagfræðingur í samtali við ViðskiptaMoggann, spurður nánar um efnahagslegu áhrifin af stríðsátökum á milli umræddra landa á olíumarkaðinn. Hann bætir því við að þegar Ísrael afréð að svara ekki í sömu mynt með ekki árásum á Íran þegar í stað, eins og margir bjuggust við, varð ekki sú skyndilega hækkun á olíumörkuðum strax eftir helgi eins og margir reiknuðu með.
Þórður segir að olíuverð hafi þegar hækkað nokkuð vikuna áður en Íranir gerðu loftárásir á Ísrael í ljósi fregna um að átök gætu brotist út á milli landanna.
Olíuverð hefur afleidd áhrif
„Almennt má segja ef Ísrael gerir árás á Íran, sem er stór olíuframleiðandi og selur mikið af sinni framleiðslu til Kína, væri ekki að sökum að spyrja að það myndi leiða til hækkunar á olíuverði,“ segir hann. Þrátt fyrir að Ísrael hafi ekki enn gert árás á Íran munu hækkanir á olíuverði hugsanlega halda áfram að hans mati.
„Olíuverð er grunnurinn að öðru hrávöruverði. Olía og aðrir kolefnisorkugjafar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í annarri framleiðslu, eins og til að mynda í matvælaframleiðslu. Verð á olíu rífur upp verð á öllum öðrum hrávörum á endanum og Mið-Austurlöndin eru sem kunnugt er stórir útflytjendur á hráolíu og hreinsuðum olíuvörum. Stríð á milli ríkjanna hefði þær afleiðingar að skiptafélög gætu veigrað sér við að senda skip inn á svæði í slíku ástandi,“ útskýrir Þórður.