[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Þórhildur fráfarandi Danadrottning fékk óskemmtilega afmælisgjöf á 84. afmælisdaginn þegar eldsvoði varð í miðri höfuðborginni Kaupmannahöfn í gærmorgun. Børsen-byggingin kunna, sem áður hýsti kauphöllina, stóð í ljósum logum og turnspíran varð eldinum að bráð og féll til jarðar

Sviðsljós

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Margrét Þórhildur fráfarandi Danadrottning fékk óskemmtilega afmælisgjöf á 84. afmælisdaginn þegar eldsvoði varð í miðri höfuðborginni Kaupmannahöfn í gærmorgun. Børsen-byggingin kunna, sem áður hýsti kauphöllina, stóð í ljósum logum og turnspíran varð eldinum að bráð og féll til jarðar.

Turninn var einkennandi fyrir bygginguna en fullyrða má að svo gott sem allir sem búið hafa í Kaupmannahöfn síðustu aldirnar kannist við bygginguna

„Þetta var eitt af kennileitum Kaupmannahafar og einn þeirra turna sem Kaupmannahafnabúar eru sérstaklega stoltir af,“ segir Helga Guðrún Vilmundardóttir þegar Morgunblaðið hafði samband við hana. Helga er stjórnarmaður í Arkitektafélagi Íslands og nam í Kaupmannahöfn. Hún er ekki undrandi á sterkum viðbrögðum Dana við atburðum gærdagsins þar sem augljóst var að um tilfinningamál var að ræða fyrir marga íbúa sem veittu fjölmiðlum viðtöl.

„Turninn er hluti af ímynd borgarinnar. Byggingin er frá uppbyggingarárum Kaupmannahafnar, þegar borgin var að styrkja sig í sessi sem miðstöð viðskipta og verslunar. Sé horft yfir Kaupmannahöfn má greina þar um 500 turna og spírur og er fjöldi þeirra og útlit í borgarlandslaginu eitt af því sem borgin er þekkt fyrir.“

Mynda sjónræna heild

Helga segir turnana í Kaupmannahöfn mynda einstaka borgarmynd.

„Af þessum 500 turnum er turninn á Borsen klárlega einn sá þekktasti ásamt Den Runde tårn [Sívalaturninum við Købmagergade] og turninum á Vor Frelsers Kirke í Kristjánshöfn. Saman mynda þessir turnar sjónræna heild og einstaka borgarmynd. Byggingin sjálf er þekkt kennileiti og er hluti af þéttum kjarna stjórnsýslu og viðskiptabygginga í „den indre by“. Þetta er ekki beint staður sem fólk fer inn í nema það eigi erindi í bygginguna og getur húsið því ekki talist sem hluti af hinu almenna borgarrými en skipar þó veigamikinn sess í vitund Dana. Byggingin prýðir gjarnan póstkort og því má líkja þessu við ef eitthvert af þekktustu kennileitum í Reykjavík myndi brenna. Byggingin hefur verið órjúfanlegur hluti af Kaupmannahöfn og mun því skilja eftir sig stórt skarð bæði í menningarlegu og sögulegu samhengi.“

Ofboðslegt áfall

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur segir eldsvoðann í miðborginni vera ofboðslegt áfall fyrir Kaupmannahafnarbúa. Guðjón segir húsið hafa verið reist af Kristjáni fjórða árið 1620. Kristján hafi haft mikinn metnað fyrir borgarmyndinni og hafi svo sannarlega sett svip sinn á hana. Kristján hafi verið afar hrifinn af hollenskum endurreisnarstíl og hafi fengið tvo bræður sem lærðu í Hollandi til að hanna húsið. Kristján sjálfur hafi aftur á móti átt hugmyndina að turninum.

Turninn eða spíruna mynda í raun fjórir drekar með samfléttaða sporða og segir Guðjón drekaturninn einmitt ætlaðan sem verndartákn fyrir húsið gegn ófriði og eldsvoðum.

„Þá eru þrjár kórónur efst en þær eiga að tákna Danmörku, Noreg og Svíþjóð þar sem Kristján fjórði var ennþá með þá hugmynd að þetta ætti bara að vera eitt ríki eins og hafði verið í Kalmarsambandinu,“ sagði Guðjón við mbl.is.

Børsen hafi verið byggð í þeim tilgangi að efla Kaupmannahöfn og Danmörku sem verslunarmiðstöð, en Guðjón bendir á að einokunarverslunin á Íslandi hafi sömuleiðis verið liður í þeirri stefnu. Árið 1857 hafi verið ákveðið að breyta húsinu í hefðbundna kauphöll eins og þær sem við þekkjum í dag þar sem verslað er með verðbréf. Þá hafi Børsen byrjað að koma töluvert fyrir í sögu Íslands.

400 ára afmæli á næsta ári

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Danmörku, var á leið til vinnu í Kaupmannahöfn um áttaleytið í gærmorgun og átti þá leið framhjá brunanum.

Slökkvistarf var einmitt að hefjast þá og segir Árni mikinn svartan reyk hafa staðið upp í loftið. „Svo bara ágerðust eldurinn og eldtungurnar og náðu upp í þessa frægu spíru sem stóð upp úr húsinu og féll svo eftir nokkurn tíma,“ segir Árni, sem þá var kominn upp í sendiráð en fylgdist með sjónvarpsútsendingu.

Húsið var upprunalega byggt árið 1620 en viðgerðir á því hafa staðið yfir í nokkur ár. Átti viðgerðunum að vera lokið á þessu ári í tæka tíð til að fagna 400 ára afmæli þess, en húsið var fullbyggt árið 1625.

„Þessi bygging – hún er náttúrulega bæði sögufræg og einkennandi fyrir borgina, þetta fer svolítið inn á fólk,“ segir Árni.

Höf.: Kristján Jónsson