Frá Datacloud ESG-leiðtogafundinum í Ósló á síðasta ári en þar mættu 350 manns frá yfir 100 fyrirtækjum.
Frá Datacloud ESG-leiðtogafundinum í Ósló á síðasta ári en þar mættu 350 manns frá yfir 100 fyrirtækjum. — Ljósmynd/Broadgroup
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gagnaversráðstefnan Datacloud ESG 2024 hefst í dag í Hörpu í Reykjavík og stendur í tvo daga. Um er að ræða stærsta viðburð sem haldinn hefur verið í gagnaversgeiranum hér á landi frá upphafi. Á fundinum ræða leiðtogar gagnaversiðnarins sjálfbærar lausnir við rekstur og uppbyggingu gagnavera

Gagnaversráðstefnan Datacloud ESG 2024 hefst í dag í Hörpu í Reykjavík og stendur í tvo daga. Um er að ræða stærsta viðburð sem haldinn hefur verið í gagnaversgeiranum hér á landi frá upphafi.

Á fundinum ræða leiðtogar gagnaversiðnarins sjálfbærar lausnir við rekstur og uppbyggingu gagnavera. Þetta er í annað sinn sem leiðtogafundur af þessu tagi er haldinn en fyrsti fundurinn fór fram í Ósló á síðasta ári. Þar komu saman um 350 þátttakendur frá yfir 100 fyrirtækjum.

Á fyrri deginum við upphaf ráðstefnunnar fara meðal annars fram umræður þar sem þátt taka ásamt öðrum Björn Brynjúlfsson, forstjóri gagnaversfélagsins Borealis, og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri gagnaversfyrirtækisins atNorth.

Von á nokkur hundruð gestum

„Við eigum von á nokkur hundruð manns og mjög mörgum gestum erlendis frá. Þetta eru meðal annars mögulegir viðskiptavinir, lánveitendur og birgjar,“ segir Eva Sóley í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hún segir það vera heiður fyrir Íslendinga að fá þetta stóran viðburð til landsins. Hann endurspegli þann mikla árangur sem náðst hefur á landinu við uppbyggingu tækniinnviða og það vaxandi hlutverk sem norðurslóðir leika í uppbyggingu gagnaversiðnaðarins.

„Sífellt fleiri horfa til Íslands og norðurslóða í þessu tilliti vegna hins kalda loftslags sem hér ríkir, hins svala íslenska sumars,“ segir Eva en tölvurnar í gagnaverunum gefa frá sér mikinn hita. Kalt veðurfar þýðir að orkuver á norðlægum slóðum þurfa ekki að eyða eins mikilli orku í að kæla tölvurnar.

„Þá er aðgangur að endurnýjanlegri orku einnig mjög stór plús og skiptir sífellt meira máli hvað alla sjálfbærnimælikvarða varðar.“

Nota nokkur prósent

Umræða um orkuframboð og yfirvofandi orkuskort hefur verið lífseig á Íslandi. Þar hafa gagnaver stundum verið gagnrýnd fyrir að nýta orku í rafmyntagröft.

„Gagnaver nota aðeins nokkur prósent af orkuframboði á Íslandi í dag. Að okkar mati erum við að skapa umtalsverða þekkingu og fjölda starfa, bæði beint og óbeint. Það er mikil uppbygging í gangi í iðnaðinum og alltaf verið að breyta einhverju og bæta. Það er nokkuð útbreiddur misskilningur að þessi iðnaður skapi fá störf. Þau skipta hundruðum nú þegar í tilviki atNorth og mun bara fjölga,“ útskýrir Eva Sóley.

Hún segir námugröft í íslenskum gagnaverum vera á undanhaldi.

„Innan nokkurra mánaða verðum við hjá atNorth alveg farin úr námugreftri. Þá munum við fyrst og fremst vera í ofurtölvuþjónustu. Vissulega er orkan takmarkandi þáttur á Íslandi en við trúum að með tíð og tíma geri fleiri sér grein fyrir vægi þessa iðnaðar og viðurkenni hann sem mikilvægan útflutningsatvinnuveg,“ segir hún.

Eva Sóley bendir líka á að Norðurlöndin hafi verið að fá meiri athygli og fundið fyrir aukinni eftirspurn frá alþjóðlegum viðskiptavinum undanfarin misseri vegna aukins framboðs af grænni orku.

„Viðskiptavinum gagnavera er raunverulega umhugað um umhverfismál. Því er Ísland fýsilegur kostur þar sem það er eina landið sem notar eingöngu endurnýjanlega orkugjafa. Það er mikill vöxtur áætlaður í þessum geira á næstu árum í heiminum,“ segir hún.

Samtökin höfðu frumkvæði

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins (SI), segir, spurð um aðkomu SI að viðburðinum, að félagsmenn SI í gagnaversiðnaði, fjarskiptum og upplýsingatækniiðnaði taki þátt. Samtökin sjálf komi fyrst og fremst að kynningu á ráðstefnunni.

Spurð um hverjir hafi átt frumkvæði að því að halda ráðstefnuna hér á landi segir Sigríður það hafa verið samspil nokkurra þátta en Samtök gagnavera, sem eru innan SI, hafi átt frumkvæði að samskiptum við skipuleggjanda ráðstefnunnar, Broadgroup, í tengslum við að halda ráðstefnuna hér á landi. Þau samskipti hófust árið 2021.

Spurð um þýðingu þess að fá svo stóra ráðstefnu til landsins segir Sigríður að hún auki sýnileika Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir fjölbreytta flóru gagnaversþjónustu.

„Spár gera ráð fyrir að eftirspurn eftir þjónustu gagnavera muni stóraukast næstu misseri, sérstaklega á kaldari svæðum. Þetta er ákveðin viðurkenning á því tækifæri sem nú er til staðar fyrir Ísland en rekstur gagnavera er einkar áhugaverður fyrir Ísland enda er um að ræða umhverfisvænan grænan iðnað þar sem raforku og ákjósanlegu loftslagi er breytt í rafræna vöru sem hægt er að afhenda hvar sem er í heiminum á augnabliki. Ísland er að mörgu leyti fyrirmynd annarra landa í þessum iðnaði vegna nýtingar á grænni raforku,“ segir Sigríður.

Mikill áhugi

Er Ísland vel þekkt í gagnaversheiminum?

„Áhugi á gagnaversiðnaði á Norðurlöndunum er mikill um þessar mundir og unnið hefur verið að því að tryggja að jafnframt sé horft til Íslands. Áhuginn er klárlega að aukast, ekki síst með tilkomu nýja fjarskiptasæstrengsins IRIS, sem tekinn var í notkun á síðasta ári. Með honum stórjókst öryggi og tengigeta fyrir flutning á gögnum til og frá Íslandi. Það vekur athygli að orkunýtni á Íslandi fyrir gagnaver er ein sú besta í heiminum. Hið svala stöðuga loftslag sem við búum við verður að auðlind þegar kemur að rekstri gagnavera,“ segir Sigríður.

Hún segir, spurð um þátttakendur, að þar verði að finna fræðifólk, ráðgjafa, fólk úr stjórnsýslu og fulltrúa stofnana.

„Það er fólk að koma m.a. frá Sameinuðu þjóðunum, leiðtogar í gagnaversiðnaði, innviðafjárfestingum, fjármálaþjónustu og úr orkugeiranum.“

Um það hvaða mál verði helst til umræðu segir Sigríður að stafrænir innviðir/upplýsingatækniinnviðir með tilliti til sjálfbærni og áskorana í loftslagsmálum verði áberandi.

„Gervigreind, og aukin eftirspurn eftir gagnaversþjónustu vegna gervigreindar, verður líklega fyrirferðarmikið umræðuefni sömuleiðis,“ segir Sigríður að lokum.