Guðjón Jónsson fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1939. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hrafnistu Skógarbæ í Reykjavík 7. apríl 2024.

Foreldrar Guðjóns voru Jón Guðmar Guðjónsson, f. 1893, d. 1971, og Guðríður Magnúsdóttir, f. 1909, d. 2001. Systkini Guðjóns eru Málfríður, f. 1930, d. 2013, Magnús, f. 1931, d. 2006, Sigríður, f. 1934, d. 2023. Eftirlifandi systkini Guðjóns eru Ingibjörg, f. 1943, og Jón Guðmar, f. 1950.

Guðjón giftist Sigríði Sigurðardóttur 23. september 1961 og eignuðust þau þrjár dætur:

1) Guðríður, f. 1961, gift Hauki Þór Haraldssyni. Börn þeirra eru Guðjón, f. 1985, í sambúð með Maríu Ágústsdóttur. Börn þeirra eru Guðríður María og Ágúst Þór. Sigríður, f. 1991, í sambúð með Andra Valgeirssyni. Barn þeirra er Birnir. Halldóra, f. 1997, í sambandi með Ársæli Inga Guðjónssyni.

2) Hafdís Ebba, f. 1968, gift Þorláki Má Árnasyni. Börn Hafdísar af fyrra hjónabandi eru Valgerður Ýr, f. 1992, í sambúð með Leó Snæ Péturssyni. Börn þeirra eru Sylvía Líf og Hafdís Magnea. Jón Dagur, f. 1998, í sambúð með Soffíu Gunnarsdóttur. Barn þeirra er Díana Lilja. Díana Sigríður, f. 2004, í sambandi með Riggie Viktor E. Richardsson. Barnsfaðir Hafdísar er Þorsteinn H. Halldórsson.

3) Díana, f. 1973, gift Ægi Erni Sigurgeirssyni. Börn þeirra eru Egill Aaron, f. 1995, Natalía María Helen, f. 1997, í sambúð með Kristjáni Flóka Finnbogasyni. Barn þeirra er Úlfur Aaron. Ester Amíra, f. 2006 og Ebba Guðríður, f. 2009.

Guðjón lærði húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi 1970. Guðjón starfaði lengst af hjá Íslenskum aðalverktökum. Guðjón er heiðursfélagi í knattspyrnufélaginu Fram, hann varð Íslandsmeistari með félaginu bæði í handknattleik og knattspyrnu árið 1962 og bætti við fimm Íslandsmeistaratitlum eftir það í handboltanum. Guðjón var landsliðsmaður í báðum greinum en hann spilaði 25 landsleiki í handbolta og tvo í fótbolta. Guðjón þjálfaði einnig lengi hjá Fram í handboltanum, bæði meistaraflokka og yngri flokka og færði félaginu marga titla.

Útför Guðjóns fer fram frá Seljakirkju í dag, 17. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, komið er að kveðjustund. Við vitum að þú ert kominn á betri stað og örugglega farinn í göngu með elsku Bangsa þínum. Margar minningar rifjast upp á svona stundu. Þú varst yndislegur pabbi, strangur, ákveðinn en sanngjarn, algjör stríðnispúki, snyrtipinni, mikill barnakall, keppnismaður fyrir allan peninginn og sérfræðingur í flugeldum. Pabba var umhugað um fjölskylduna sína og var alltaf til staðar fyrir okkur öll.

Pabbi var afreksmaður í íþróttum, átti landsleiki í handbolta, fótbolta og átti frábæran þjálfaraferil þar sem hann skilaði fjölda titla til handknattleiksdeildar Fram. Pabbi þjálfaði tvær af okkur systrum en fylgdist vel með okkur öllum og hafði sínar skoðanir. Eitt sinn þegar við vorum í bikarúrslitaleik í Laugardalshöllinni, sat hann heima í stofu og horfði á leikinn. Hann var ekki alveg sáttur við frammistöðu Hafdísar í fyrri hálfleik og hringdi í Steinda húsvörð í Höllinni, sem var með skilaboð til Hafdísar að hringja heim í hálfleik, sem hún gerði. Skilaboðin voru skýr: Ég er búinn að horfa á afturendann á þér allan fyrri hálfleik, þú ert ekki búin að geta neitt, farðu nú að hreyfa þig og gera eitthvað af viti! Hafdís tók hann á orðinu og stóð sig bara vel í seinni hálfleik og fór bikarinn á loft.

Pabbi og mamma voru dugleg að ferðast bæði innanlands og utan. Pabbi vildi aldrei sumarbústað en Costa del sol/Timor sol var þeirra bústaður. Þangað fóru þau á hverju ári í mörg ár, áttu góðar stundir og kynntust mörgu skemmtilegu fólki.

Pabbi var harðduglegur í vinnu en þurfti því miður að hætta að vinna rúmlega sextugur vegna veikinda. Hann greinist með alzheimer árið 2013, en var örugglega búinn að lifa með þennan sjúkdóm í einhvern tíma. Pabbi tapaði samt aldrei léttleikanum, var stríðnispúki og mikill barnakall allt til enda.

Pabbi flytur á Skógarbæ 2018 og það voru þung spor fyrir okkur öll en þar var vel hugsað um hann. Þar bræddi hann alla með sínum léttleika og gríni og á starfsfólkið þar margar góðar minningar um hann. Ekki leið sá dagur að einhver af okkur í fjölskyldunni kæmi ekki við hjá pabba, færði honum appelsín og súkkulaði úr Gaujasjoppu, sem var í skápnum hans og mamma fyllti á reglulega.

Covid-tíminn var erfiður en þá kynntumst við henni Brynhildi okkar sem starfar á Skógarbæ sem íþróttafræðingur. Þau náðu einstaklega vel saman enda bæði stuðningsmenn Man. Utd. Hún sá til þess að við fengjum að fylgjast vel með pabba, hún sendi okkur myndir, myndbönd, hringdi reglulega í okkur bæði í síma og myndsímtöl sem var ómetanlegt á þessum erfiða tíma.

Síðasta ár var erfitt, pabba hrakaði mikið og erum við þakklátar fyrir þá umönnun sem hann fékk á Skógarbæ. Barnabarnið Díana Sigríður vinnur á hæðinni hans og var hún honum og okkur dýrmætur stuðningur. Díana Sigríður stóð sig ótrúlega vel á lokametrunum hjá pabba/afa sínum og var yndislegt að vita af henni með honum.

Takk fyrir allt elsku pabbi og eins og hann sagði alltaf þegar við kvöddumst: Farðu varlega.

Þínar dætur,

Guðríður, Hafdís og Díana.

Elsku afi Gaui.

Þegar við hugsum til þín er það fyrsta sem kemur upp í hugann bíókvöldin, göngutúrarnir með Bangsa og svo endalausu prakkarastrikin og brandararnir. Húmorinn var aldrei langt undan, sama hvað. Við erum innilega þakklátar fyrir þann tíma sem við áttum saman og minningarnar munu lifa með okkur um ókomna tíð. Við munum halda húmornum á lofti, muna að pissa svo við verðum ekki hissa og alltaf fara varlega eins og þú einblíndir svo iðulega á.

Elsku elsku afi okkar, við erum innilega þakklátar fyrir þann tíma sem við fengum með þér en erum líka þakklátar fyrir það að nú færðu að hvíla þig. Við munum sakna þín og allra brandaranna þinna og munum halda minningu þinni á lífi.

Sofðu rótt, fyndnasti vinur okkar.

Þínar afastelpur,

Ester Amíra Ægisdóttir,
Ebba Guðríður Ægisdóttir.

Elsku afi, það er svo erfið tilhugsun að löng kveðjustund sé nú komin á enda. Þrátt fyrir að síðustu ár á Skógarbæ hafi verið orðin erfið var alltaf stutt í húmorinn hjá þér. Þú sýndir okkur hvað lífið og heilsan eru dýrmæt.

Í huga okkar verður þú alltaf besti afinn í Urðarbakkanum. Afinn sem kenndi okkur að hugsa vel um hlutina sem við eigum og reyna eftir okkar bestu getu að laga það sem bilar. Þú tókst þetta hins vegar oft á tíðum skrefinu of langt, því að teipaðir inniskór sem hanga á bláþræði geta ekki verið þægilegir í svona langan tíma. Þú verður alltaf afinn sem laumaði að okkur pening (oft úr veskinu hennar ömmu samt) þegar við komum í heimsókn, leyfðir okkur að horfa á stranglega bannaðar bíómyndir þegar við höfðum alls ekki aldur til, ásamt því að blanda saman öllum þeim morgunkornstegundum sem okkur langaði í.

Það klikkaði sjaldan að þegar við komum í heimsókn í Urðarbakkann var afi að brasa í bílskúrnum og Bangsi hlaupandi í kringum hann. Síðan var farið inn og fengið sér appelsín að drekka og súkkulaðibita með kaffinu. Þegar við kvöddum stóð afi alltaf í dyrunum og veifaði okkur bless.

Það var alltaf mikil tilhlökkun að eyða áramótunum hjá afa og ömmu. Afi tók spenntur á móti okkur, aðallega til að sjá hversu mikið af flugeldum við komum með. Við eyddum síðan stórum hluta kvöldsins með afa í garðinum að sprengja. Afi eyddi mörgum aðfangadagskvöldum með okkur systkinunum og þegar það var kominn tími á jólaísinn voru allir spenntir að vonast eftir möndlunni í sinni skál. En þar sem afi sá til þess að Bangsi væri nú ekki skilinn út undan þá laumaði hann nokkrum bitum af ís til hans sem varð til þess að mandlan fannst ekki mörg ár í röð.

Okkur langar að trúa því að afi og Bangsi séu núna farnir aftur í gönguferðir saman. Bangsi geltandi eins og vitleysingur og afi með vindilinn í munnvikinu.

Við elskum þig afi, hvíldu í friði.

Ástarkveðjur,

Vala, Jón Dagur og Díana.

Þær eru margar góðar minningarnar sem við eigum af Urðarbakkanum með ömmu og afa og þá standa allra helst upp úr skötuveislurnar og áramótagleðin þar sem afi fór alla leið í flugeldunum og svo var endað uppi á þaki með besta útsýnið yfir borgina að taka á móti nýju ári. Það var einnig alltaf notalegt að kíkja í heimsókn og fá nýbakaða skúffuköku, ískalt appelsín og uppistand frá afa á meðan maður gúffaði í sig kræsingunum. Við hugsum með mikilli hlýju, virðingu og söknuði til afa Gauja og munum varðveita þær góðu stundir sem við áttum með honum út lífið.

Þín afabörn,

Egill Aaron Ægisson
og Natalía María
Helen Ægisdóttir.

Mig langar í örfáum orðum að minnast afa.

Afi Gaui eins og ég hef þekkt hann allt mitt líf var ótrúlega skemmtilegur og fyndinn maður. Hann var alltaf svo kíminn og fannst ekkert skemmtilegra en að grínast og hafa gaman. Minningarnar úr Urðarbakkanum eru ótrúlega margar hjá ömmu og afa, öll áramótin sem við fjölskyldan áttum saman þar sem afi aðstoðaði okkur lofthrædda fólkið upp á þak til að njóta útsýnisins á miðnætti. Það var alltaf svo notalegt að fara heim til ömmu og afa.

Ég leit alltaf mjög upp til afa og fannst stórmerkilegt að hann hefði spilað fyrir íslenska landsliðið í handbolta og fótbolta, hvað þá að hann hefði gert það á sama ári og verið í báðum landsliðum í einu. Ég veit ekki hversu oft ég spurði út í tennurnar sem hann missti við að spila fótbolta en hann þurfti að segja mér söguna af því ansi oft. Kappleikjum sem áttu sér stað 20-30 árum áður en ég fæddist gat hann lýst fyrir mér eins og þeir hefðu gerst daginn áður.

Ég var mikið hjá ömmu og afa þegar ég var krakki. Ég man sérstaklega vel eftir því þegar afi fór í aðgerð á öxl og ég plataði hann samt til að koma í handbolta uppi í stofu á Urðarbakkanum. Ég var í marki í dyragættinni og hann sat í hægindastólnum með lítinn mjúkan bolta, þetta var upp í 10, svo 20, svo 30. Hljóp ég fram og til baka, skilaði boltanum aftur til afa og tók mér stöðu. Hann var alltaf tilbúinn að leika aðeins meira þótt hann hefði eflaust verið til í að slaka bara á.

Afi sagði mér ótal sögur af prakkarastrikum sem hann gerði þegar hann var yngri og bjó á Grettisgötu. Sá sem bar út póstinn á Grettisgötu hefur vonandi haft jafn gaman af heimatilbúnum sprengjum en hefur eflaust farið varlega að húsinu sem afi bjó í eftir nokkur atvik sem hann lenti í. Eftirminnilegasta sagan var þegar afi safnaði púðri, fyllti hjólaslöngu af púðrinu og ætlaði að bregða útburðarmanni frá póstinum eitt árið. Þegar pósturinn gekk að húsinu kveikir afi í þræðinum, kastar inn í port og honum til mikilla vonbrigða kom enginn hvellur heldur blés slangan bara út og varð eldrauð en engin sprenging, öll þessi vinna fyrir ekki neitt!

Afi eyddi síðustu árum ævi sinnar í Skógarbæ en hann greindist með alzheimer 73 ára. Fann maður hvernig þessi hræðilegi sjúkdómur virkar og hægt og rólega yfir 11 ár hvarf afi andlega með hverju árinu sem leið. Eins hræðilegur og þessi sjúkdómur er þá hélt afi sínum persónuleika og var alltaf sami grínistinn. Hann hafði svo gaman af að fíflast með góminn sinn, taka úr sér tennurnar að grínast í langömmubörnunum sínum þótt hann hafi ekki haft hugmynd um hver þessi börn væru. Þá skein karakterinn hans í gegn alveg fram á síðustu stund.

Ég er heppinn að hafa átt svona góðan og skemmtilegan afa og mun sakna þín mikið en ég mun aldrei gleyma þér og öllum góðu stundunum sem við áttum saman. Hvíldu í friði, elsku afi.

Guðjón
Hauksson.

Við vorum sex systkinin sem ólumst upp í litla bakhúsinu á Grettisgötu 18a, á svokölluðum Ölgerðarreit sem var Framarasvæði. Nú erum við Ingibjörg, yngstu systkinin, ein eftir á lífi. Þarna fannst manni maður búa í höll. Við öll systkinin æfðum handbolta og/eða fótbolta með Fram. Þar fóru fremstir í flokki elstu bræðurnir, Maggi, landsliðsmarkvörður í fótbolta, og Gaui, landsliðsmaður bæði í handbolta og fótbolta. Sennilega sá fyrsti og eini af sinni kynslóð sem var landsliðsmaður í tveimur greinum. Mikilvægustu samverustundir mínar með Gauja voru þegar ég var varla orðinn unglingur og hann framleiddi kínverja í kjallaranum á æskuheimilinu handa litla bróður fyrir gamlárskvöld.

Eftir að Gaui flutti að heiman og fór að búa með ástinni sinni henni Siggu og nýfæddri dóttur þeirra, Gurrý, var oftar en ekki talað um Siggu og Gauja í sömu andrá. Sigga var fyrsta konan sem kosin var íþróttamaður ársins árið 1964 fyrir handbolta og var í Val. Gaui var tvisvar á listanum yfir tíu efstu. Dæturnar, Gurrý, Hafdís og Díana, voru allar afreksmenn í handbolta í Fram.

Eitt af því sem einkenndi allan búskap Siggu og Gauja var gestrisni þeirra. Fyrstu tíu búskaparár þeirra á efstu hæð á Freyjugötu 5 var gestum boðið upp á bíósýningar um helgar í kanasjónvarpinu. Eftir að þau byggðu sér hús í Urðarbakka 4 var sama gestrisnin þar og alltaf veisluborð hjá Siggu. Gamall Framari sagði einu sinni við mig: „Mikið er langt síðan ég hef hitt Siggu og Gauja. „Líttu bara við hjá þeim,“ sagði ég sem hann gerði og varð heimilisvinur til dauðadags.

Gaui var í sveit á Grímslæk í Ölfusi hátt í áratug, þannig að það er ekki fyrr en í efri yngri flokkum sem hann fer að láta að sér kveða. Gaui vann lengst af sem smiður. Hans kynslóð vann fulla vinnu með íþróttunum sem var alger áhugamennska. Það gat verið erfitt að ná sér af íþróttameiðslum sem smiður en aldrei féll honum verk úr hendi ef hann var gangfær á annað borð. Lengstan starfsferil átti Gaui hjá Íslenskum aðalverktökum.

Hann var alltaf í góðu formi og þrælsterkur. Landsliðsmaður í handbolta, jafnaldri minn, hraustmenni og hausnum hærri en Gaui, sagði mér að hann hefði sjaldan orðið eins hissa á sínum landsliðsferli og þegar hann var að keppa við Gauja. „Allt í einu var ég í skrúfstykki og gat mig hvergi hrært og það var þá þessi tappi sem hélt mér.“

Eftir farsælan íþróttaferil varð Gaui handboltaþjálfari hjá meistaraflokki Fram, fyrst karla og svo kvenna og urðu báðir flokkar meistarar og konurnar oft með hann sem þjálfara.

Gaui var mikill dýravinur og eftir að hafa verið hálfa öld á vinnumarkaði fékk hann sér hundinn Bangsa og þá varð rútínan gönguferð með hann tvisvar á dag.

Fyrir tólf árum veiktist Gaui af alzheimer og dvaldi á Skógarbæ síðustu sex árin. Allir sem þekkja vita hvílíkt áfall og missir slíkur sjúkdómur er fyrir sjúklinginn og hans nánustu. Þrátt fyrir sjúkdóminn hélt Gaui sínum persónueinkennum fram til hins síðasta.

Ég samhryggist Siggu mágkonu, Gurrý, Hafdísi, Díönu og öllum aðstandendum. Blessuð sé minning Gauja.

Jón Guðmar
(Nonni bróðir).

Ég hitti Gauja í fyrsta sinn þegar ég var á tíunda ári. Sigga systir kom með kærastann í heimsókn á Hverfisgötuna, þar sem nú nefnist Hjartatorg. Sigga hefur góðan smekk og mér leist strax vel á Gauja með sín glettnislegu tilsvör. Íþróttirnar höfðu tengt þau saman, enda bæði miklir íþróttagarpar. Sjálfur stundaði ég íþróttir af kappi á yngri árum og fylgdist náið með íþróttaafrekum þeirra hjóna.

Fyrsta heimili þeirra var á Freyjugötu 5, í nábýli við uppeldisbræðurna Þorgeir og Sverri nafna minn frá Læk í Flóa. Þegar frumburðurinn Guðríður kom til skjalanna var ég gerður að yfirpassara, sem var ekki leiðinlegt, því Geira hafði tekist að fá kanasjónvarpið inn í húsið.

Gaui lauk námi í smíðum og lá því beint við að byggja hús fyrir fjölskylduna á Urðarbakka 4. Valkyrjurnar, eins og ég stundum nefni þær, komu hver á fætur annarri, fyrst Gurrý, síðan Hafdís Ebba og loks Díana, allar einstakar afreksstúlkur. Fjölskyldan hefur margfaldast í tímans rás með íþróttirnar í öndvegi, og höfum við Elín Edda og drengirnir okkar notið þess að vera í nánum tengslum við stórfjölskyldu Siggu systur og Gauja.

Því miður urðu síðustu æviár Gauja honum sjálfum og fjölskyldunni að mörgu leyti erfið. Smám saman hurfu hinir sérstöku persónueiginleikar Gauja inn í heim óminnis, en hans rétta andlit, glettni og stríðni, sýndi sig einkum þegar barnabarnabörnin komu í heimsókn. Það var hjartnæmt að fylgjast með samtakamætti systranna, sem skipulögðu vaktaskipti, nótt sem dag, til þess að fylgja föðurnum að leiðarlokum.

Þegar hofklukkan þagnar

syngur í krónum

blómanna

(Basho, 1644-1694, zen-meistari

Þýð. Sverrir)

Við sendum fjölskyldu Gauja, vinum og ættingjum samúðarkveðjur.

Sverrir Guðjónsson,
Elín Edda Árnadóttir,
Ívar Örn Sverrisson,
Daði Sverrisson.

Elsku mágur minn Guðjón hefur kvatt okkur. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum yndislega og duglega manni og langar mig að minnast hans í nokkrum orðum.

Ég var svo lánsöm að fá að kynnast Gauja mínum fyrst í gegnum handboltann, þar sem hann var ekki bara þjálfarinn minn, heldur var hann einnig þjóðþekktur afreksmaður í handbolta og lék hann bæði handbolta og fótbolta með Fram og landsliðinu ásamt því að þjálfa hjá Fram. Hann var alltaf mjög vel liðin sem þjálfari, enda lagði hann mikinn metnað í starf sitt, drifkraftur hans skildi eftir sig stóran hóp aðdáenda. Framari fram í fingurgóma.

Þennan aðdáunarverða afreksmann fengum við síðan inn í fjölskylduna þegar hann og elskulega systir mín hún Sigga fóru að slá sér upp saman. Óhætt að segja að það hafi verið ást þeirra á handbolta sem leiddi þau saman og ekki leið á löngu að þau svo giftu sig og eignuðust þrjár dásamlegar dætur sem allar fengu handboltastyrkleika foreldra sinna í vöggugjöf. Systurnar þrjár, eða skytturnar þrjár eins og þær hafa oft verið kallaðar, fylgdu svo allar í fótspor foreldra sinna og lögðu stund á handbolta með frábærum árangri, en þó ekki hjá Val heldur var það ákveðni Gauja sem leiddi systurnar allar í upphafi ferils þeirra til Fram. Gaui var óendanlega stoltur af konu sinni og dætrum, hvort sem það voru afrek þeirra úti á velli eða heima. Var stuðningur og hvatning Gauja og Siggu þeim systrum ómetanlegt veganesti út í lífið, allar eru þær menntaðir íþróttafræðingar með handboltahjarta sem hefur fylgt þeim allar götur síðan.

Eins og margt sem Gaui minn tók sér fyrir hendur þá lagði hann mikla áherslu á að skapa gott umhverfi fyrir sig, Siggu sína og stelpurnar, hann vildi búa vel að fjölskyldu sinni. Þar sem hann var einstaklega handlaginn lagði hann mikinn metnað í að laga og gera fínt í kringum sig og fjölskylduna og á hann heiðurinn á að hafa byggt fjölskyldunni heimili þeirra að Urðarbakka. Það var alltaf opið hús í Urðarbakka, mikill gestagangur og gleði, alltaf eitthvað um að vera og eigum við fjölskyldan margar dásamlegar minningar frá liðnum árum saman.

Það er með mikilli virðingu og söknuði sem ég kveð elsku mág minn, minningin um allar góðu stundirnar í gegnum árin lifir og þakklæti fyrir þá vissu að guð geymir hann vel.

Elsku yndislega Sigga systir, Guðríður, Hafdís, Díana og fjölskyldur, ég sendi ykkur mína dýpstu samúð og megi guð vera með ykkur og styrkja ykkur í sorginni.

Svanhildur, Jón Stefán
og fjölskylda.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram.

Við fráfall Guðjóns Jónssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir félagsmanni sem var félaginu mikilvægur. Gaui, eins og Guðjón var kallaður, var mjög öflugur og litríkur félagsmaður sem setti afar sterkan svip á félagslíf Fram. Guðjón markaði djúp spor í sögu Fram, sem leikmaður í knattspyrnu, handknattleik og síðan sem þjálfari. Guðjón, sem kom úr „Grettisgötuklíkunni“, var geysilega útsjónarsamur leikmaður og þjálfari; sannkallaður leikstjórnandi. Það kom snemma í ljós, eða þegar hann hóf ungur að eltast við knöttinn. Hann lék stórt hlutverk í sigursælum þriðja flokks og annars flokks liðum og þegar hann var orðinn of gamall til að leika með varð hann þjálfari flokksins, þá 18 ára, sem vann Íslandsbikarinn til eignar 1959, þá 18 ára.

Þarna var grunnurinn lagður að hinu sterka liði Fram í handknattleik, sem varð sex sinnum Íslandsmeistari með Guðjón í fararbroddi, 1962, 1963, 1964, 1967, 1968 og 1970. Guðjón hóf að leika með Framliðinu 18 ára 1957, en lagði skóna á hilluna 1970.

Guðjón lék 25 landsleiki í handknattleik á árunum 1959-1968. Meiðsli komu í veg fyrir að leikirnir yrðu fleiri.

Guðjón, sem var glettinn og stríðinn, varð ungur mikill leiðtogi, en þessi sigursælu unglingalið voru að mestu skipuð strákum frá Grettisgötunni, á milli Klapparstígs og Frakkastígs, og nágrenni. Hverfisleikvangur þeirra var róluvöllurinn við Grettisgötu 10. Þar var Guðjón foringinn og hann var átrúnaðargoð yngri strákanna í götunni, enda Guðjón bæði landsliðsmaður í knattspyrnu (tveir leikir) og handknattleik (25 leikir). Guðjón átti ekki langt að sækja getuna.

Guðjón varð tvöfaldur Íslandsmeistari 1962; bæði með Fram í handknattleik og knattspyrnu. Guðjón lék stórt hlutverk í meistaraliði Fram í knattspyrnu.

Hann hóf að leika með knattspyrnuliði Fram 20 ára 1959 og lék með því til 1965 er hann lagði skóna á hilluna vegna álags og meiðsla.

Guðjón lék tvo landsleiki 1960, gegn Vestur-Þýskalandi á Laugardalsvellinum og gegn Írlandi í Dublin.

Þegar hann lagði keppnisskóna á hilluna 1970 tók hann sér hvíld frá handknattleik, en tók að sér þjálfun karlaliðs Fram 1974-1975. Þá var hann beðinn að taka við kvennaliði Fram. Guðjón svaraði kallinu og náði ótrúlegum árangri með liðið á árunum 1975-1980. Handbrögð Guðjóns sáust fljótt á leik liðsins. Stúlkurnar urðu fimm sinnum Íslandsmeistarar undir stjórn Gauja, sex sinnum Reykjavíkurmeistarar, fjórum sinnum Íslandsmeistarar utanhúss og þrisvar bikarmeistarar.

Framarar kveðja og minnast Guðjóns með þakklæti fyrir ómetanleg störf í þágu félagsins. Eiginkonu hans Sigríði Sigurðardóttur og fjölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Sigmundur Ó.
Steinarsson.

Það er margs að minnast þegar kemur að því að kveðja kæran vin, félaga og þjálfara okkar til margra ára, Guðjón Jónsson. Gaui tók við þjálfun meistaraflokks kvenna hjá Fram árið 1975 og var með okkur til ársins 1983 með smá pásu 1981. Á þessum tíma unnust margir titlar og má segja að þarna hafi verið lagður grunnur að velgengni kvennaliðs Fram um ókomin ár. Undir stjórn Gauja urðu titlarnir 19, Íslandsmeistarar fimm sinnum, bikarmeistarar fjórum sinnum, Reykjavíkurmeistarar fimm sinnum og Íslandsmeistarar utanhúss fimm sinnum. Auk þess þátttaka í Evrópukeppnum og æfingamót í Valencia svo eitthvað sé nefnt.

Þegar við vorum í útlöndum passaði hann upp á hópinn eins og dætur sínar og veitti stundum ekki af að byrsta sig við utanaðkomandi aðila, ekki orð um það meir. Gaui var ákveðinn og áhugasamur þjálfari með mikið keppnisskap sem hann miðlaði til okkar. En hann var ekki bara þjálfarinn okkar, hann var mikill vinur og félagi og heimili hans og Siggu var okkur alltaf opið. Hópurinn okkar var mjög samheldinn og er ennþá og eins og gengur þegar konur eiga í hlut þá fæddust börnin eitt af öðru og þurftu að fylgja með á æfingar. Stundum voru þau fleiri en æfingahópurinn því frændur og frænkur fengu að koma með líka, þetta var svo gaman. Gaui tók þessu með jafnaðargeði en það kom fyrir að það kvein í honum og þá var dúnalogn það sem eftir var af æfingunni.

Það má skrifa heila bók um ævintýrin sem urðu til á þessum tíma en það mun bíða betri tíma. Nú hefur Gaui kvatt okkur og við vitum að við innkomu hans í Sumarlandið hafa beðið margir vinir hans og félagar sem hlaupa um grænar grundir með fótboltann á tánum eða handboltann í lófanum. Um leið og við þökkum Gauja fyrir allt sem hann kenndi okkur vottum við Siggu, Gurrý, Hafdísi, Díönu og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd meistaraflokks kvenna í Fram 1975-1983,

Helga H.
Magnúsdóttir.

Sjá síðu 18