Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Ísland verður einn þriggja gestgjafa heimsmeistaramóts karla í handknattleik árið 2031, ásamt Danmörku og Noregi.
Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, skýrði frá þessu í gær en Norðurlandaþjóðirnar þrjár höfðu sótt um að halda HM annaðhvort árið 2029 eða 2031.
Frakkland og Þýskaland fengu fyrra mótið og halda HM í sameiningu árið 2029.
Fyrirhugað er að leika einn af riðlum mótsins á Íslandi, þar sem íslenska liðið mun þá spila, ásamt væntanlega einum milliriðlanna fjögurra.
Leikið í nýju höllinni
Ný þjóðarhöll sem reisa á í Laugardalnum í Reykjavík á næstu árum verður keppnisstaðurinn hér á landi.
„Þetta sameiginlega átak okkar lyftir ekki bara íþróttinni hér á Íslandi heldur sýnir líka að minni þjóðir eiga möguleika á að taka þátt í skipulagningu stórmóta með alþjóðlegu samstarfi,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í tilkynningu frá sambandinu í gær.
Þetta verður annað heimsmeistaramót karla sem haldið er á Íslandi en HM 1995 fór fram hér á landi og þá var leikið í Laugardalshöll, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri.
Sádi-Arabía sat eftir
Sádi-Arabía var þriðji aðilinn sem sóttist eftir því að halda annað þessara tveggja móta en hafði ekki erindi sem erfiði. Þar með liggur fyrir að heimsmeistaramótið verður haldið í a.m.k. fimm skipti í röð í Evrópu en það hefur ekki gerst síðan fyrst var farið með mótið út úr Evrópu árið 1997.
Síðasta mót, árið 2023, fór fram í Póllandi og Svíþjóð og árið 2025 verða Danmörk og Noregur einnig gestgjafar ásamt Króatíu. HM 2027 verður síðan haldið í Þýskalandi.