Gasasvæðið Ísraelskur skriðdreki sést hér á verði við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins.
Gasasvæðið Ísraelskur skriðdreki sést hér á verði við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins. — AFP/Menahem Kahana
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gær að Bandaríkjastjórn ætlaði sér að herða á viðskiptaþvingunum sínum gegn klerkastjórninni í Íran eftir hina miklu loftárás Írana á Ísrael um síðustu helgi

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gær að Bandaríkjastjórn ætlaði sér að herða á viðskiptaþvingunum sínum gegn klerkastjórninni í Íran eftir hina miklu loftárás Írana á Ísrael um síðustu helgi. Sagði Yellen að von væri á aðgerðunum á allra næstu dögum.

Nokkur spenna ríkir nú í Mið-Austurlöndum vegna árásarinnar, þar sem þess er beðið að Ísraelsmenn grípi til hernaðaraðgerða til þess að hefna fyrir hana. Bandaríkjastjórn hefur þegar útilokað að Bandaríkjaher muni aðstoða við slíkar árásir, en á móti hafa Bandaríkjamenn heitið því að hegna Írönum á annan hátt.

Yellen sagði einnig að fjármálaráðuneytið myndi vinna áfram með bandamönnum Bandaríkjanna til þess að trufla enn frekar tilraunir íranskra stjórnvalda til þess að grafa undan stöðugleika í heiminum. Hún bætti við að Bandaríkjastjórn hefði áður nýtt sér viðskiptaþvinganir til þess að hamla gegn framleiðslu Írana á sjálfseyðingardrónum og eldflaugum og að svo yrði gert áfram. Þá yrði reynt enn frekar að trufla stuðning Írana við hryðjuverkasamtök á borð við Hamas á Gasasvæðinu og Hisbollah í Líbanon.

Yellen lýsti ekki nánar hvað Bandaríkjastjórn ætlaði að gera, en sagði að hún hefði áður lagt viðskiptaþvinganir á olíuútflutning Írans, og að mögulega væri hægt að herða þar á refsiaðgerðum Bandaríkjanna.

Kalla sendiherrann á teppið

Yfirlýsing Yellen kom sama dag og stjórnvöld í Portúgal greindu frá því að þau hefðu kallað sendiherra Írans á teppið, bæði til þess að fordæma loftárásina á laugardagskvöldið og til þess að krefjast þess að Íranar myndu láta gámaflutningaskipið MSC Aries, sem siglir undir portúgölsku flaggi, úr haldi.

Íranski byltingarvörðurinn lagði hald á flutningaskipið á laugardaginn þar sem það var á siglingu á alþjóðlegu hafsvæði í Persaflóa og neyddi til hafnar í Íran. Írönsk stjórnvöld hafa haldið því fram að skipið tilheyri í raun Ísrael og að áhöfnin hafi ekki svarað spurningum um uppruna skipsins og farm þess. Stjórnvöld í Ísrael og í Bandaríkjunum hafa fordæmt aðgerðir byltingarvarðarins og kallað þær sjórán.

Felldu einn af foringjum Hisbollah

Ísraelsher felldi í gær Ismail Yusef Baz, einn af foringjum Hisbollah-samtakanna, í loftárás á suðurhluta Líbanons. Var Baz einn á ferð í bíl sem var sprengdur upp um 15 kílómetra frá landamærum Líbanons og Ísraels.

Hisbollah-samtökin svöruðu með því að senda tvo sjálfseyðingardróna til árása á herstöð Ísraela í Beit Hillel, og særðust þrír í árásinni.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson