Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að innleiða svonefndan alheimslágmarksskatt hér á landi á síðari hluta næsta árs og er gert ráð fyrir gildistöku hans í skattkerfinu á árinu 2025. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun áranna 2025 til 2029.
Um er að ræða upptöku á 15% alþjóðlegum lágmarksskatti á fjölþjóðafyrirtæki, óháð því hvar þau starfa.
„Megintilgangur skattsins er að koma í veg fyrir að fjölþjóðafyrirtæki komist hjá skattlagningu með tilfærslu hagnaðar til lágskattaríkja og jafna þannig stöðu fyrirtækja almennt. Útfærslan liggur fyrir og fjöldi ríkja hefur innleitt alheimslágmarksskatt frá síðustu áramótum. Um er að ræða eina stærstu breytingu sem hefur orðið á skattlagningu á alþjóðlegum vettvangi,“ segir í fjármálaáætluninni. Gert er ráð fyrir að innleiðing skattsins muni skila ríkissjóði auknum skatttekjum á árinu 2026.
Einnig á útfærsla að liggja fyrir um mitt þetta ár á skattlagningu á stafræna hagkerfið. Hún felur í sér heimild fyrir ríki þar sem þjónusta er keypt af alþjóðlegum stórfyrirtækjum á sviði stafrænna viðskipta til að leggja skatt á hagnað þeirra sem verður til í markaðsríkinu, eins og það er orðað. „Þannig er komið í veg fyrir að fyrirtæki geti hagnast af sölu þjónustu í markaðsríkjum án þess að greiða þar skatta.“
Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætluninni að yfirstandandi endurskoðun laga um veiðigjald skili ríkinu auknum tekjum á tímabili hennar og að efsta þrep fiskeldisgjalds hækki í 5% af meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs. Þá er til skoðunar að setja á fót gjaldtöku af ferðamönnum sem stuðli að sjálfbærni ferðamannastaða.
omfr@mbl.is