Hækkun húsnæðiskostnaðar gæti sett strik í reikninginn í baráttu við verðbólgu að mati Magnúsar Árna Skúlasonar hjá Reykjavík Economics.
Hækkun húsnæðiskostnaðar gæti sett strik í reikninginn í baráttu við verðbólgu að mati Magnúsar Árna Skúlasonar hjá Reykjavík Economics. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýútgefin þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að verðbólgan verði komin nálægt markmiði árið 2026. Í spá Hagstofunnar segir að reiknað sé með að vísitala neysluverðs hækki um 5,2% að meðaltali í ár og um 3,2% að meðaltali árið 2025

Nýútgefin þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að verðbólgan verði komin nálægt markmiði árið 2026. Í spá Hagstofunnar segir að reiknað sé með að vísitala neysluverðs hækki um 5,2% að meðaltali í ár og um 3,2% að meðaltali árið 2025. Árið 2026 er gert ráð fyrir að verðbólgan verði 2,7% að meðaltali en áætlað er að hún verði nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans eftir það. Horfur eru á að einkaneysla aukist um 0,9% í ár.

Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavík Economics, segir að ef forsendur Hagstofunnar haldi, áfram dragi úr einkaneyslu og viðskiptakjör haldist þokkaleg, þá ætti spáin að ganga eftir.

„Hækkun húsnæðiskostnaðar gæti sett strik í reikninginn. Að ná niður verðbólgu er eitt mikilvægasta viðfangsefni efnahagsmála. Það er mikilvægt að hið opinbera leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að ná henni niður með öllum ráðum,” segir Magnús í samtali við ViðskiptaMoggann.

Verðbólga lækkaði nokkuð skarpt á síðasta ári í helstu viðskiptaríkjum Íslands eftir að hafa náð hámarki á fjórða ársfjórðungi 2022. Þá er útlit fyrir að stýrivextir hafi náð hámarki erlendis en seðlabankar hafa gefið í skyn að vextir haldist háir að minnsta kosti fram eftir ári. Gert er ráð fyrir að verðbólga helstu viðskiptalanda verði að jafnaði um 3% í ár og lækki enn á næsta ári þegar hún verði rúm 2%, að því er fram kemur í þjóðhagsspá Hagstofunnar.

Verðbólgan gæti tekið aftur við sér

Magnús segir að í ljósi sögunnar horfi fleiri greinendur til þess að verðbólga gæti tekið aftur við sér eins og hún gerði á áttunda áratug síðustu aldar, eins og þegar verðbólga hækkaði eftir ótímabæra lækkun vaxta, t.d. í Bandaríkjunum.

„Verðbólgan var því þrálátari en menn bjuggust við. Verðbólga hækkaði eftir lækkun meginvaxta og því þurfti að grípa til mikilla vaxtahækkana til að ná tökum á verðbólgunni. Í dag þurfa seðlabankar heimsins að feta einstigi aðhaldssamrar peningastefnu og fjármálastöðugleika, m.a. vegna neikvæðrar þróunar á atvinnuhúsnæðismörkuðum víða um heim. Það hefur hingað til ekki verið vandamál hér á landi þar sem staðan er betri en víða annars staðar,“ segir Magnús.

Hagvöxtur var 4,1% á síðasta ári og er útlit fyrir að verg landsframleiðsla aukist um 1,5% í ár. Reiknað er með að hagvöxtur verði helst drifinn áfram af einkaneyslu, utanríkisviðskiptum og samneyslu. Þá kemur fram að gert er ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér árið 2025 og verði 3,0% þegar innlend eftirspurn styrkist.

Magnús segir að hann telji hagvaxtarspá Hagstofunnar vera líklega niðurstöðu. Hann segir að spenna í alþjóðamálum gæti haft áhrif á aðfangakeðjur, t.d. skipaflutninga og orkuvinnslu.

Skuldastaða gæti versnað

Að undanförnu hefur skuldastaða heimilanna verið efnahagslega traust. Skuldir eru nú um 73% af vergri landsframleiðslu og hefur hlutfallið ekki verið lægra í að minnsta kosti 20 ár.

Magnús bendir á að innlánsstaða heimilanna sé einnig nokkuð góð að jafnaði eða um þriðjungur af áætlaðri landsframleiðslu.

„Það kæmi ekki á óvart að heimili sem eru með lán á föstum vöxtum myndu endurfjármagna lán sín með verðtryggðum lánum á næstu tveimur árum. Skuldastaða heimila gæti versnað vegna aukinnar hlutdeildar verðtryggðra jafngreiðslulána, þ.e. hlutfall eftirstöðva þeirra hækkar meira en fasteignaverð. Mikilvægt er að lántakendur hafi í huga að í mörgum tilfelllum er hægt að greiða inn á lánið,“ segir Magnús að lokum.