Nokkur eindrægni er um það hvaða dyggðir og eiginleikar séu mikilvægastir í fari forseta Íslands, samkvæmt könnun Prósents fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Þar er heiðarleikinn efst á blaði, en síðan koma einlægni og viljinn til þess að hlusta á…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Nokkur eindrægni er um það hvaða dyggðir og eiginleikar séu mikilvægastir í fari forseta Íslands, samkvæmt könnun Prósents fyrir Morgunblaðið og mbl.is.

Þar er heiðarleikinn efst á blaði, en síðan koma einlægni og viljinn til þess að hlusta á sjónarmið annarra og þar á eftir góð þekking á stjórnskipan landsins.

Í könnuninni, sem fram fór dagana 9.-14. apríl, var spurst fyrir um tólf eiginleika, en svarendur máttu haka við allt að fimm þeirra.

Svörin segja sitt um hvað almenningur telur mikilvægast í fari forseta, en ugglaust segja þau líka mikið um svarendurna sjálfa.

Þegar svörin eru skoðuð með hliðsjón af því hvaða frambjóðanda menn kjósa helst, hvaða flokk þeir styðja, eftir aldurshópum, kynjum eða öðru, er sjaldnast verulegur munur á afstöðunni og áhersla á heiðarleika mikilvægust meðal stuðningsmanna allra frambjóðenda.

Þó er auðvelt að sjá að stuðningsmenn Katrínar Jakobsdóttur leggja mikið upp úr reynslu og þekkingu, en fylgismenn Baldurs Þórhallssonar gefa lítið fyrir reynsluna. Stuðningsmönnum beggja þykir þekking á stjórnskipan landsins mikilvæg, en fylgjendur Jóns Gnarrs telja það ekki eiga að vega þungt.

Svo er eitthvað broslegt við það að kynin eru nánast einu máli um flesta þessara eiginleika, nema einn. Körlum finnst miklu minna máli skipta að hlusta á sjónarmið annarra en konunum.

Þegar horft er til aldurshópa eru þeir nokkuð sammála um flesta þessa þætti, nema hvað áhersla á reynslu eykst með aldri en áhersla á vinnusemi fylgir nokkuð tölfræði um vinnustundir eftir aldri, eykst ört fram að miðjum aldri en dvín svo aftur.

Þá eru Reykvíkingar miklu áhugasamari um að forseti hlusti á sjónarmið annarra en er raunin í nágrannasveitarfélögunum og landsbyggðinni.

Þrátt fyrir að greina megi einhvern (en yfirleitt óverulegan) áherslumun eftir menntun, stöðu á vinnumarkaði og þess háttar er nær enginn munur á afstöðu til helstu eiginleika eftir tekjuhópum. Með tveimur undantekningum þó, þeir tekjuhæstu gefa lítið fyrir sjónarmið annarra, en þeir tekjulægstu meta þekkingu á stjórnskipun ekki mikils.

Höf.: Andrés Magnússon