Tvenna Eve Brasils átti sannkallaðan stórleik fyrir Grindavík gegn Haukum en hér sækir hún á körfuna í leik liðanna í Smáranum í Kópavogi í gær.
Tvenna Eve Brasils átti sannkallaðan stórleik fyrir Grindavík gegn Haukum en hér sækir hún á körfuna í leik liðanna í Smáranum í Kópavogi í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grindavík varð í gær fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik með stórsigri gegn Þór frá Akureyri, 93:75, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í Smáranum í Kópavogi en Grindavík vann einvígið samanlagt 3:0

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Grindavík varð í gær fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik með stórsigri gegn Þór frá Akureyri, 93:75, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í Smáranum í Kópavogi en Grindavík vann einvígið samanlagt 3:0.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Grindavík leiddi 25:20 að honum loknum. Grindavík var sjö stigum yfir í hálfleik, 47:40, en í þriðja leikhluta skoruðu Grindvíkingar 26 stig gegn 18 stigum Þórs og var staðan 73:58, Grindavík í vil, að honum loknum. Þórsurum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta og Grindavík fagnaði öruggum sigri í leikslok.

Eve Braslis fór mikinn hjá Grindavík, skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og gaf tvær stoðsendingar og þá skoraði Sarah Sofie Mortensen 19 stig fyrir Grindavík, ásamt því að taka fjögur fráköst.

Lore Devos var stigahæst hjá Þórsurum með 25 stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar og Hrefna Ottósdóttir skoraði 15 stig.

Grindavík hafnaði í öðru sæti deildarinnar og það skýrist því síðar hverjir mótherjar liðsins verða í undanúrslitunum.

Sigurinn aldrei í hættu

Eno Viso var stigahæst hjá Njarðvík þegar liðið hafði betur gegn Íslandsmeisturum Vals í þriðja leik liðanna í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Leiknum lauk með stórsigri Njarðvíkur, 92:59, en Viso skoraði 15 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum.

Leikurinn var aldrei spennandi en Njarðvík leiddi með níu stigum að fyrsta leikhluta loknum, 25:16. Njarðvíkingar skoruðu 29 stig gegn 16 stigum Vals í öðrum leikhluta og voru með 22 stiga forskot í hálfleik, 54:32.

Njarðvíkingar héldu áfram að auka forskot sitt í síðari hálfleik og leiddu með 27 stigum að þriðja leikhluta loknum, 70:43. Valskonur voru aldrei líklegar til þess að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta og Njarðvík fagnaði mjög þægilegum sigri.

Andela Strize skoraði 14 stig fyrir Njarðvík og þær Jana Falsdóttir og Selena Lott 13 stig hvor. Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði 15 stig fyrir Val, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu og Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 12 stig.

Fjórði leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda á föstudaginn kemur og geta Njarðvíkingar tryggt sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með sigri í honum.