Sókn Birkir Benediktsson átti góðan leik fyrir Aftureldingu gegn Stjörnunni og skoraði tvö mörk í leiknum.
Sókn Birkir Benediktsson átti góðan leik fyrir Aftureldingu gegn Stjörnunni og skoraði tvö mörk í leiknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Afturelding mætir Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik eftir stórsigur gegn Stjörnunni, 35:24, í oddaleik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ í gær

Handboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Afturelding mætir Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik eftir stórsigur gegn Stjörnunni, 35:24, í oddaleik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ í gær.

Afturelding, sem endaði í öðru sæti deildarinnar, vann einvígið samanlagt 2:1 og mætir Valsmönnum, sem unnu 2:0-sigur gegn Fram í átta liða úrslitunum og enduðu í þriðja sæti deildarinnar, í undanúrslitunum.

Leikurinn í Mosfellsbæ í gær var í raun aldrei spennandi en Afturelding skoraði fyrstu tvö mörk leiksins. Stjarnan minnkaði muninn í 2:1 með marki frá Þórði Tandra Ágústssyni en Mosfellingar skoruðu næstu tvö mörk og komust í 4:1 eftir fimm mínútna leik.

Ihor Kopyshynskyi kom Aftureldingu í 8:3 eftir tíu mínútna leik en Pétur Árni Hauksson minnkaði muninn fyrir Stjörnuna í 11:5 eftir rúmlega fimmtán mínútna leik. Vörnin var frábær hjá Aftureldingu og þá skoraði liðið að vild í sókninni og var staðan 18:8, Aftureldingu í vil, í hálfleik.

Náðu 15 marka forskoti

Síðari hálfleikurinn var svo hálfgert formsatriði fyrir Mosfellinga sem komust 15 mörkum yfir eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik, 25:10. Leikurinn fjaraði nánast út eftir þetta og þó Garðbæingar hafi náð að laga stöðuna voru þeir aldrei líklegir til þess að vinna upp forskot Mosfellinga.

Birgir Steinn Jónsson skoraði átta mörk fyrir Aftureldingu og Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sjö. Þá varði Brynjar Vignir Sigurjónsson 12 skot í markinu, þar af tvö vítaköst. Jón Ásgeir Eyjólfsson var markahæstur hjá Stjörnunni með fimm mörk og Hergeir Grímsson og Þórður Tandri Ágústsson skoruðu þrjú mörk hvor.

Eins og áður sagði mætir Afturelding liði Vals í undanúrslitunum og í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast deildarmeistarar FH og Íslandsmeistarar ÍBV.

Fyrsti leikdagur undanúrslitanna verður 21. apríl og munu FH og Afturelding byrja einvígi sín á heimavelli þar sem þau enduðu ofar í deildinni en mótherjar þeirra.

Ólíkt átta liða úrslitunum þarf að vinna þrjá leiki í undanúrslitunum til þess að tryggja sér sæti í úrslitaviðureign Íslandsmótsins.