Athafnasvæði Til hægri er Suðurvararbryggja. Gamla hluta hennar er mokað út en í stað hennar kemur bryggja með 165 metra löngum viðlegukanti. Fremst á myndinni er aðstaða fyrir útflutning á vikri. Fjær er Austurgarður sem nú er verið er að stytta til að skapa meira snúningsrými í höfninni.
Athafnasvæði Til hægri er Suðurvararbryggja. Gamla hluta hennar er mokað út en í stað hennar kemur bryggja með 165 metra löngum viðlegukanti. Fremst á myndinni er aðstaða fyrir útflutning á vikri. Fjær er Austurgarður sem nú er verið er að stytta til að skapa meira snúningsrými í höfninni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vænst er að í lok sumars verði lokið miklum breytingum og stækkun á hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn. Vöruflutningar með stórskipum sem Smyril-Line gerir út fara mjög vaxandi sem með öðru kallar á að bætt sé úr

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vænst er að í lok sumars verði lokið miklum breytingum og stækkun á hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn. Vöruflutningar með stórskipum sem Smyril-Line gerir út fara mjög vaxandi sem með öðru kallar á að bætt sé úr. Fyrst er þar til að taka að svonefnd Suðurvararbryggja, sem komin var til ára sinna, var fjarlægð en á svipuðum stað útbýr verktakafyrirtækið Hagtak hf. nú aðra bryggju með 165 metra löngum viðlegukanti. Þar verður til aðstaða meðal annars ætluð skipum sem eru í vikurflutningum milli Íslands og Evrópu.

Áður hefur stórgrýttur hafnargarður fram af Suðurvararbryggjunni verið lengdur um 250 metra. Andspænis honum er Austurgarður. Hann er nú verið að stytta um 80 metra í því skyni að stór skip sem koma í höfnina hafi þar meira snúningsrými. Þá framkvæmd hefur Suðurverk hf. með höndum en það fyrirtæki hefur komið að ýmsum verkum þarna á svæðinu undanfarin ár. Svartaskersbryggja, þar sem fiskiskip leggjast að, hefur svo nýlega verið endurbætt með stálþili.

Þrjú færeysk skip í ferðum

Smyril-Line gerir í dag út þrjú flutningaskip sem eru í siglingum milli Rotterdam í Hollandi og Þorlákshafnar með viðkomu í Færeyjum. Þetta eru skipin Akranes, Glyfurnes og Mykines. Nú er verið að skipta tveimur þeirra út fyrir stærri skip, sem verða 190 metra löng. Þær breytingar á skipastólnum krefjast þess að lengja verður kantinn sem þau hafa lagst að; Hafskipabryggju sem áður var kennd við Svartasker. Í þær framkvæmdir verður farið á næstu misserum.

Áætla má að kostnaður við þessar framkvæmdir í Þorlákshöfn, sem ríki og hafnarsjóður fjármagna í sameiningu, verði samanlagt um fjórir milljarðar króna.

Nægt landrými til stækkunar

„Hefðbundinn sjávarútvegur og fiskvinnsla hér í Þorlákshöfn hefur gefið eftir á síðustu árum en á móti kemur að fraktflutningar hafa aukist mikið. Hér er orðin ein stærsta inn- og útflutninghöfn landsins. Bílar og hjólhýsi til dæmis eru flutt inn í talsverðum mæli hér eins og sést á geymslusvæðunum,“ segir Benjamín Ómar Þorvaldsson hafnarstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Þegar þeim framkvæmdum sem að framan er lýst er lokið verður farið í að dýpka höfnina og ýmsan frágang.

„Við tökum þetta skref fyrir skref og búum í haginn til framtíðar. Búast má við að flutningar hér um Þorlákshöfn aukist í framtíðinni, samanber aukin umsvif í laxeldi hér á svæðinu. Framleiðsla þar kallar á greiða flutninga og samgöngur og þar munar um að siglingatíminn milli Evrópu og Þorlákshafnar er um hálfum sólarhring skemmri en ef siglt er til Reykjavíkur. Slíkt telur mjög í flutningum um matvæli þar sem tími er dýrmætur. Kolefnisspor eða útblástur er líka minni með því að koma í höfn hér en að sigla fyrir Reykjanes. Slíkt er atriði sem mjög er horft til, samanber áherslur í umhverfismálum. Þá vinnur líka með Þorlákshöfn að hér er nægt landrými og hægt væri að stækka höfnina og athafnasvæði hennar til muna. Skissur og hugmyndablöð um stækkun eru tiltæk og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Benjamín hafnarstjóri.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson