[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Boðað er aðhald í rekstri ríkisins fram til ársins 2029, halda á útgjaldavexti í skefjum til að stuðla að lækkun verðbólgu og auknum kaupmætti, unnið verður að lækkun skulda ríkissjóðs, mæta á nýjum útgjöldum með aðhalds- og sparnaðaraðgerðum í öðrum rekstri, selja á ýmsar eignir ríkisins og áhersla verður lögð á forgangsröðun verkefna og hagræðingu. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun áranna 2025 til 2029 sem Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Boðað er aðhald í rekstri ríkisins fram til ársins 2029, halda á útgjaldavexti í skefjum til að stuðla að lækkun verðbólgu og auknum kaupmætti, unnið verður að lækkun skulda ríkissjóðs, mæta á nýjum útgjöldum með aðhalds- og sparnaðaraðgerðum í öðrum rekstri, selja á ýmsar eignir ríkisins og áhersla verður lögð á forgangsröðun verkefna og hagræðingu. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun áranna 2025 til 2029 sem Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær.

Halli verður á rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum en hann á að minnka ört frá ári til árs gangi þetta eftir og heildarjöfnuði á að vera náð 2028. Þrátt fyrir kostnaðarsamar aðgerðir vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi og til að greiða fyrir gerð kjarasamninga verður afkoma ríkissjóðs svipuð á þessu ári og á seinasta ári en útlit er fyrir að hallinn verði 49 milljarðar í ár. Halli ríkissjóðs helmingast á næsta ári skv. áætluninni og á að verða 25 milljarðar kr., stefnt er að 21 milljarðs kr. halla á árinu 2026 og níu milljarða halla 2027. Á árinu 2028 er gert ráð fyrir þriggja milljarða afgangi og 20 milljarða afgangi 2029.

Sigurður Ingi lagði áherslu á að áfram yrði haldið við að treysta stöðu ríkissjóðs á næstu árum og lækka skuldir í hlutfalli af landsframleiðslu. „Aðeins með ábyrgum rekstri og hóflegum skuldum er ríkissjóður vel í sveit settur til þess að vernda samfélagið komi til áfalla í framtíðinni,“ sagði hann.

Boðaðar eru ýmsar sértækar aðgerðir til að draga úr útgjaldavexti og bregðast við umfangsmiklum útgjöldum en þar vegur m.a. þungt umfang aðgerða vegna kjarasamninganna sem er áætlað 83 milljarðar á tímabili fjármálaáætlunarinnar eða 13-23 milljarðar á ári. Þetta verður m.a. gert með því að fresta eða fella niður verkefni sem ekki eru hafin.

Fresta á nýrri viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og einnig byggingu húss viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu fram yfir lok tímabilsins. Endurskoða á forsendur og fjárveitingar vegna kerfislægs vaxtar eins og það er orðað og stefnt er að sameiningu og fækkun stofnana eða útvistun verkefna.

17 milljarða lækkun útgjalda

Ekki verður gerð almenn aðhaldskrafa á heilbrigðis- og velferðarmál og verður áfram forgangsraðað til þeirra málaflokka en auka á útgjöld til þeirra mála um 80 milljarða kr. milli 2024 og 2029 sem svarar til tæplega 12% aukningar að raunvirði. Hins vegar hefur verið ákveðið að seinka gildistöku nýs örorkubótakerfis frá ársbyrjun til 1. september á næsta ári. Framlag lækkar vegna þessa á næsta ári um tíu milljarða en stefnt er að því að það verði tekið upp af fullum þunga 2026, sem feli í sér um 18 milljarða aukin framlög.

„Gert er ráð fyrir að þessar ráðstafanir skili um 17 milljörðum króna minni vexti útgjalda frá því sem áður var ráðgert á árinu 2025 en þar af er varanleg útgjaldalækkun um tíu milljarðar,“ sagði Sigurður Ingi.

Auk þessa á að draga úr umfangi almenna varasjóðsins eins og það er orðað en hann er notaður til að bregðast við tímabundnum og ófyrirsjáanlegum útgjöldum. „Á tímabili áætlunarinnar skilar þessi breyting á almenna varasjóðinum samtals 37 [milljörðum kr.] upp í þann kostnað sem ríkissjóður hefur tekið sér á herðar vegna stöðunnar í Grindavík og til að liðka fyrir kjarasamningum,“ segir í fjármálaáætluninni.

Setja á aukinn kraft í stafræna þjónustu og taka á til hendinni í nefndakerfi ríkisins, fækka nefndum og stjórnum og hagræða. Þá er stefnt að sölu eigna ríkisins til að lækka skuldir. Íslandsbanki verður seldur á fyrri hluta áætlunarinnar.

Sjónum beint að félögum, húsum og jörðum í eigu ríkisins

„Það eru umtalsverðar eignir á efnahagsreikningi ríkissjóðs sem eru tækifæri til að nýta mun betur. Ríkissjóður er eigandi að 47 félögum sem höfðu samtals um þúsund milljarða í eigið fé í árslok 2022. Ríkissjóður er eigandi að um 900 fasteignum með heildarfermetrafjölda upp á 950 þúsund fermetra og ríflega 400 jörðum. Bókfært virði þessara eigna er um 312 milljarðar. Til viðbótar á ríkissjóður talsvert af lóðum, spildum og auðlindum víðs vegar um landið,“ sagði Sigurður Ingi.

Sjónum verður ekki síst beint að þróunarreitum sem tilheyra ríkinu. Verðmætustu reitir undir íbúðabyggð eru t.d. Keldnalandið, Borgartúnsreitur, Laugarnesreitur, Seljavegur og fleiri að sögn ráðherra. Samhliða myndi lóðaframboð aukast og uppbygging íbúðahúsnæðis verða auðveldari, að því er fram kom í máli hans.

Innleiða á kílómetragjald fyrir alla bíla frá ársbyrjun 2025 og ná á tökum á útgjöldum vegna málaflokka útlendinga, sem hafa þrefaldast frá 2017.

Fram kemur í áætluninni að til að fylgja eftir aðgerðum sem ríkisstjórnin sammæltist um í málefnum útlendinga er fjárveiting aukin um alls 2,2 milljarða fyrstu tvö ár áætlunarinnar. Búist er við að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fækka smám saman í þúsund umsækjendur í lok tímabilsins og ásamt með skilvirkari aðgerðum muni fjárveitingar fara smám saman lækkandi 2026 til 2029.