Guðný Hér handleikur hún bóluþang sem hún heillaðist af fyrir 13 árum.
Guðný Hér handleikur hún bóluþang sem hún heillaðist af fyrir 13 árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fjaran og sjórinn heilla mig. Ég bjó í tvö ár norður á Ströndum í nálægð við þau náttúruöfl, frá 2020 til 2022, þegar ég vann þar sem skólastjóri og listgreinakennari í einum fámennasta grunnskóla landsins, á Drangsnesi,“ segir Guðný…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Fjaran og sjórinn heilla mig. Ég bjó í tvö ár norður á Ströndum í nálægð við þau náttúruöfl, frá 2020 til 2022, þegar ég vann þar sem skólastjóri og listgreinakennari í einum fámennasta grunnskóla landsins, á Drangsnesi,“ segir Guðný Rúnarsdóttir myndlistarkona, en fyrsta einkasýning hennar, Fjaran og leirinn, stendur nú yfir í Gallerí Kverk í Garðastræti í Reykjavík. Á sýningunni eru veggverk undir heitinu „Þang“, leirverk sem Guðný kallar „Fjörugull“ og einnig verk sem heita einfaldlega „Flísar“, en þau vann hún úr íslenskum leir sem hún gróf upp í Bjarnarfirði á Ströndum á þeim tíma sem hún bjó á Drangsnesi.

„Ég heillaðist fyrst af blöðruþangi sem vex á steinum fyrir þrettán árum og ég pældi mikið í hvernig ég gæti nýtt þetta form í minni listsköpun. Þá gerði ég þang-veggverk og hélt sýningu, en fyrir tveimur árum fór ég aftur að teikna þangið og gerði nokkur mismunandi verk. Ég fór út í fjöru og teiknaði með penna, síðan skannaði ég þær myndir og prentaði út á vatnslitapappír og lék mér að því að vatnslita þessi form. Þetta er svolítið eins og portrett af steini með blöðruþang á sér. Síðan valdi ég nokkrar af þessum vatnslitamyndum og lét stækka og prentaði þær út á arkitekta-foam, sem er svolítið stíft efni. Ég skar það út og fylgdi hinu lífræna formi þangsins og gerði ramma. Við það að stækka þessi verk upp í metra sinnum metra kemur áferð vatnslitanna vel fram.“

Leirinn er á miklu dýpi

Guðný segir leirverkin eiga upphaf sitt í því þegar hún fyrir fjórum árum var í skólaferðalagi í Bjarnarfirði á Ströndum með krökkunum sem hún kenndi á Drangsnesi. „Hún Arnlín, skógfræðingur sem býr í Bjarnarfirði, benti mér þá á og sýndi mér þennan merkilega íslenska leir. Ég tók svolítið af honum með mér heim og prófaði að brenna hann í ofninum í skólanum. Leirinn finnst á tveggja til þriggja metra dýpi þar sem áin er búin að grafa sig niður, en það er góður möguleiki að hann sé víða þarna á svæðinu, og þá á þessu mikla dýpi. Arnlín stakk upp á að það gæti verið gaman að láta rannsaka hversu mikið af leir er þarna, og á hversu stóru svæði,“ segir Guðný og bætir við að Bjarnarfjarðarleirinn hafi verið henni efniviður til keramikgerðar.

„Ég hef unnið með hann í minni listsköpun frá því ég uppgötvaði hann og ég var með sýningu á Drangsnesi sumarið 2022. Ég hef gert flísar úr honum og gerði það einmitt líka núna og kom þeim fyrir í gluggakistu á sýningunni í Gallerí Kverk. Ég hef líka prófað að renna úr leirnum á rennibekk, sem mér finnst spennandi og mig langar að gera meira af því. Mig langar mikið til að vinna áfram með þennan íslenska leir sem hentar einkar vel í flísagerð, en ég lærði það í Myndlistarskólanum í Reykjavík, þar sem ég var í tveggja ára diplómanámi í keramiki. Þá fórum við og sóttum íslenskan leir í Fagradal og unnum með hann og gerðum alls konar tilraunir. Ég frétti að hægt væri að gera flísar úr honum með því að þrýsta honum í gifsmót, sem ég prófaði, en hann er frekar laus í sér og einmitt þess vegna hentar hann vel til að steypa hann í þrýstimót. Ég varð í framhaldinu þó nokkuð heilluð af flísum og hef gert mikið af þeim. Ég er rosa spennt fyrir þessum íslenska leir.“ Guðný segir að nokkuð margir séu að vinna með íslensk jarðefni og íslenskan leir, til dæmis veit hún um slíkan leir á Austfjörðum og hefur líka heyrt af hvítum leir í Borgarfirði.

„Fólk virðist vera að vinna hvert í sínu horni með íslenska leirinn, en ég hef verið að leika mér með marmaraáferð sem ég næ fram með því að blanda saman mismunandi leir. Nokkur slík verk sem ég kalla „Fjörugull“ eru á sýningunni en þau vann ég út frá formi kuðunga. Sýningargestum er velkomið að snerta þessi verk og halda á þeim, Fjörugullin fara vel í lófa.“

Yndislegt mannlíf á Ströndum

Guðný segist hafa tengst Drangsnesi sterkum böndum eftir að hafa búið þar og á hún góða vini þar.

„Náttúran þarna fyrir norðan og þetta umhverfi allt hafði áhrif á mig bæði sem listakonu og manneskju. Ég fékk annað sjónarhorn, því þessi nálægð við náttúruna vakti þá tilfinningu hjá mér að allt lífríkið sé ríki dýranna, meira en okkar mannanna. Þetta var svolítið ný upplifun fyrir mig og maður þarf að sleppa einhverjum tökum, þannig eru áhrif þessa ægiafls og þeirrar ægifegurðar sem þarna er. Allt er stærra en maður sjálfur og miklu sterkara, sem er stundum svolítið ógnvekjandi. Þetta er heillandi og yfirþyrmandi, þverhníptu björgin á sumum stöðum þarna á Drangsnesi eru þess eðlis að enginn lifir af sem dettur þar fram af,“ segir Guðný og ítrekar að hún hafi algerlega heillast af Bjarnarfirði, en þangað tekur korter að aka á bíl frá Drangsnesi.

„Þar er Hótel Laugarhóll, sundlaug og risastórt gróðurhús þar sem Finnur oddviti ræktar kirsuber. Þarna er svolítil hippastemning og fólkið sem þar býr er ekki margt. Stundum er ófært í margar vikur samfleytt yfir veturinn og þá þarf fólk að eiga nóg af dósamat og frosnu fæði í frystikistum. Þetta er allt afar heillandi og mér þykir mjög vænt um Bjarnarfjörðinn, hann er einstakur og líka svæðið þegar maður keyrir enn norðar, í Djúpavík og Norðurfjörð. Þarna á Ströndum er alveg yndislegt mannlíf og allir hjálpast að. Öll dýrin í skóginum þurfa að vera vinir, því það er mikil nálægð í fámenninu. Styrkleikar allra nýtast og vægi hvers og eins verður mikilvægt.“

Sýningin Fjaran og leirinn stendur til 20. apríl. Þann dag verður opið
kl. 12-15 og aftur kl. 17-19, en þá verður sérstakur lokunarviðburður og léttar veitingar í boði.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir