Hljómsveitin Frá vinstri: Haukur, Kristján, Pétur, Risto og Michael. Þeir spila með Rósu Maríu á tónleikunum.
Hljómsveitin Frá vinstri: Haukur, Kristján, Pétur, Risto og Michael. Þeir spila með Rósu Maríu á tónleikunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjartans tónar er yfirskrift tónleika Rósu Maríu Stefánsdóttur föstudagskvöldið 19. apríl í Hofi á Akureyri. „Þetta eru þematónleikar, þar sem gestum er boðið að koma á stefnumót við ástina, rækta kærleikann og rómantíkina, huga að mýkri…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hjartans tónar er yfirskrift tónleika Rósu Maríu Stefánsdóttur föstudagskvöldið 19. apríl í Hofi á Akureyri. „Þetta eru þematónleikar, þar sem gestum er boðið að koma á stefnumót við ástina, rækta kærleikann og rómantíkina, huga að mýkri hliðum tilverunnar,“ segir söngkonan, sem er annars að bæta við sig menntun á sviði sálfræðinnar. „Það vex sem að er hlúð,“ leggur hún áherslu á.

Söngur og tónlist hafa höfðað til Rósu Maríu frá æsku. Hún segist snemma hafa heillast af kirkjutónlist, klassískum söng og óperum. „Síðan ég var lítil hef ég legið yfir ljóðabókum og drukkið í mig vísur, ljóð, texta og söngva.“

Rósa María hefur verið í kvæðamannafélaginu Gefjuni nánast frá stofnun fyrir um tveimur áratugum og sungið þjóðlög, kvæðalög og stemmur. Hún hefur starfað í mörgum kirkjukórum á sama tíma og stofnaði sönghópinn Jódísi fyrir nokkrum árum. Hún lærði klassískan söng í Tónlistarskólanum á Akureyri og útskrifaðist þaðan með framhaldspróf 2019. „Ég hef verið að leika mér með dægurlagasöng og finnst mjög gaman að koma víða við og vinna með sem flestar og ólíkar tegundir söngs.“

Eiga samleið

Sálfræði og söngur eiga góða samleið, að sögn Rósu Maríu. Hún bendir á að tónlist geti haft bein áhrif á skap og líðan og hún hafi ákveðnar hugmyndir um samþættingu. „Ég hef óþrjótandi áhuga á öllu sem er uppbyggjandi og getur gert okkur gott, andlegri og líkamlegri uppbyggingu heilsu.“

Hljóðfæraleikararnir Risto Laur, Pétur Ingólfsson, Haukur Pálmason, Michael Weaver og Kristján Edelstein spila með Rósu Maríu á tónleikunum. Auk þess koma fram sjö leynigestir. „Í hópi leynigesta eru bæði reynsluboltar og upprennandi stjörnur,“ segir hún.

Þrír frumsamdir textar eftir sr. Hjálmar Jónsson, fyrrverandi dómkirkjuprest og alþingismann, og bræðurna Þórarin og Hjörleif Hjartarsyni frá Tjörn í Svarfaðardal verða fluttir við eldri lög. „Þeir sömdu þá og þýddu sérstaklega að minni ósk.“

Rósa María segir að verkefnið hafi fengið góðan meðbyr, bæði hjá samstarfsfólki og væntanlegum gestum, og hún sé mjög þakklát fyrir það. „Fólk vill greinilega rækta þessar mjúku hliðar hjá sér.“ Ljúfar og rómantískar dægurlagaperlur úr ýmsum áttum verði á dagskrá. „Þetta verður létt og lifandi, silkimjúk og seiðandi tónlist, svo ást, hlýja og vellíðan fylli rýmið og streymi um æðarnar og fylgi tónleikagestum út í vorið,“ segir hún og bætir við: „Hinn æðri tilgangur er að leggja mitt af mörkum til að koma með fegurð og hlýju inn í þennan heim.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson